Stúlknakór Menntaskólans á Akureyri [1] (1943-49)

Heimildir eru afar fáar um stúlknakór sem virðist hafa verið starfandi við Menntaskólann á Akureyri á fimmta áratug síðustu aldar, óvíst er jafnvel hvort sá kór var nokkru sinni starfandi eða hvort aðeins var um að ræða nokkrar stúlkur í hópi nemenda skólans sem sungu í leiksýningum á vegum nemenda vorin 1943 og 1949, í bæði skiptin undir stjórn Björgvins Guðmundssonar tónskálds.

Stúlkur voru á þessum tíma fáar við nám í menntaskólanum og árið 1942 höfðu t.a.m. einungis tuttugu og sjö stúlkur lokið stúdentsprófi þaðan þannig að ef kór stúlkna hefur þar verið starfandi hefur hann varla verið ýkja fjölmennur. Fyrir liggur að Margrét Eiríksdóttir hafði eitthvað með söngmál að gera í skólanum á síðari hluta fimmta áratugarins en óvíst er hvort hún kom að þessum söng stúlknanna.