Hljómsveit Ingimars Eydal (1953-93)

Hljómsveit Ingim. Eydal

Hljómsvet Ingimars Eydal

Hljómsveit Ingimars Eydal er þekktasta hljómsveit Akureyrar fyrr og síðar og skapaði sér mikla sérstöðu á ballmarkaðnum þegar frægðarsól hennar skein hvað hæst á sjöunda og áttunda áratug 20. aldarinnar. Sérstaðan fólst einkum í því að elta ekki tískustrauma bítla og hippa heldur að fara eigin leiðir með blandað prógramm sem fólkið vildi en Ingimar var sérfræðingur í að „lesa salinn“ eins og hann orðaði það sjálfur.

Yfirleitt er talað um að sveitin hafi starfað frá árinu 1962 og voru stórafmæli sveitarinnar iðulega miðuð við það ártal, sveitin mun þó hafa starfað mun lengur. Elstu heimildir um Hljómsveit Ingimars Eydal er t.d. að finna frá árinu 1953 en þá birti barnablaðið Æskan mynd af henni en meðlimir sveitarinnar voru þá kornungir, þeir voru Ingimar sjálfur, Reynir Jónasson, Hjörleifur Björnsson og Sigurður Jóhannsson, sveitin lék þá um sumarið um helgar á Hótel Brúarlundi í Vaglaskógi. Önnur heimild segir meðlimi hafa verið auk Ingimars, þá Hannes Arason, Svein Óla Jónsson og Óskar Ósberg. Hjördís Geirsdóttir söngkona gæti hafa sungið með sveitinni á þessum árum. Þessi fyrsta útgáfa sveitarinnar, sem starfaði á árunum 1953-57 líklega við Menntaskólann á Laugarvatni þar sem þeir voru við nám, var lengst af nafnlaus en óopinberlega gekk hún undir nafninu Gamli Gráni. Sveitin mun einnig eitthvað hafa leikið á Hótel KEA á Akureyri.

1955 voru í sveitinni Finnur Eydal bróðir Ingimars, Jón Aðalsteinsson bassa- og harmonikkuleikari,Sveinn Óli Jónsson (Óli danski) trommuleikari, Anna María Jóhannsdóttir söngkona og Ingimar sjálfur. Mikael Jónsson trommuleikari gæti hafa verið í sveitinni á einhverjum tímapunkti.

Á árunum 1958-61 starfræktu þeir bræður Ingimar og Finnur, eins konar sumarhljómsveit (Atlantic kvartettinn) en eitthvað starfaði Hljómsveit Ingimars á þessum árum, reyndar gætir nokkurs ruglings hjá fólki vegna sveitanna tveggja. Að öllum líkindum lá starfsemi Hljómsveitar Ingimars að mestu niðri á þeim tíma, að minnsta kosti yfir sumarið.

1961-62 innihélt sveitin þá Ingimar, Kristin Sigurpál Kristjánsson klarinettu-, bassa- og harmonikkuleikara, Hjalta Hjaltason trommuleikara og Grétar Ingvarsson gítarleikara en síðarnefnda árið lék sveitin í Alþýðuhúsinu á Akureyri, síðar fór fremur lítið fyrir henni þar til vorið 1963 að Óðinn Valdimarsson hóf að syngja með sveitinni en hann hafði einnig verið í Atlantic kvartettnum, einnig bættist nú í hópinn Andrés Ingólfsson saxófónleikari.

Þetta sumar, 1963, var merkilegt í sögu Akureyringa en þá tók Sjálfstæðishúsið (Sjallinn) til starfa og var Hljómsveit Ingimars Eydal ráðin þangað til starfa sem húshljómsveit. Þá byrjuðu hjólin að snúast fyrir alvöru og smám saman skóp sveitin sér það nafn sem hún síðar varð, með spilamennsku í Sjallanum í gegnum Bítlatímabilið án þess þó að fylgja straumnum. Bítlalög voru samt sem áður líka á prógramminu sem og hippatónlistin síðar samhliða enn síðara hári og þyngri trommuslætti en sveitin lék einnig eigin lög í bland við eldri „popp“ tónlist og annað sem lítið hafði heyrst hérlendis s.s. síðar meir suður-evrópska tónlist og jafnvel suður-ameríska.

Hljómsveit Ingimars Eydal 1965

Hljómsveit Ingimars Eydal 1965

1964 urðu enn þáttaskil hjá sveitinni þegar tveir ungir menn, nýskriðnir úr Menntaskólanum á Akureyri, gengu til liðs við hana. Þetta voru þeir Þorvaldur Halldórsson söngvari og gítarleikari og Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson söngvari og bassaleikari en þeir höfðu þá þegar vakið athygli norðan heiða í Busabandinu í MA, Þorvaldur reyndar líka í HH-kvartettnum. Þeir áttu báðir eftir að setja svip sinn á sveitina og ekki síður á íslenskt tónlistarlíf næsta áratuginn og vel það. Vilhjálmur tók við af Kristni um vorið en Þorvaldur af Óðni söngvara sem átti þá orðið í stríði við Bakkus. Hljómsveit Ingimars var nú orðin mjög vel mönnum og reyndar gátu flestir meðlimir sveitarinnar sungið sem bauð upp á raddaðar útsetningar á lögum, sem varð síðan þá eitt af einkennum hennar.

Haustið 1965 fór Hljómsveit Ingimars suður til Reykjavíkur í þeim tilgangi að spila í Glaumbæ, en einnig til að taka upp efni en Svavar Gests (SG-hljómplötur) hafði þá boðið sveitinni útgáfusamning, alls voru tekin upp átta lög í Ríkisútvarpinu af Pétri Steingrímssyni og Jóni Sigbjörnssyni en það var í fyrsta skipti sem þeir félagar Vilhjálmur og Þorvaldur sungu inn á plötu. Lögin komu síðan út í kjölfarið, fyrst fjögurra laga platan (SG-510) fyrir jólin en sú plata hafði m.a. að geyma stórsmellina Á sjó, sem Þorvaldur söng, og Litla sæta ljúfan góða, sungið af Vilhjálmi. Skemmst er frá því að segja að bæði lögin stimpluðu söngvarana rækilega inn í íslenskt tónlistarlíf og hefur Á sjó verið einkennislag Þorvaldar síðan. Það lag er erlent (Wall tall) við texta Ólafs Ragnarssonar, sem er líklega eini textinn sem hann samdi og kom út á plötu. Þessi plata varð þegar lang söluhæsta plata sem þá hafði komið út á Íslandi.
Síðari platan (SG-511) kom út í febrúar 1966 og naut ekki síður vinsælda en á þeirri plötu var m.a. að finna lögin Raunasaga, Vor í Vaglaskógi (Kvöldið er okkar) og Hún er svo sæt, sem styrktu stöðu sveitarinnar og lagði í raun grunninn að velgengni sveitarinnar í kjölfarið.

Þegar hér var komið sögu hafði Vilhjálmur ákveðið að fara í háskólanám fyrir sunnan og hætti um áramótin 1965-66. Það kom þó ekkert í veg fyrir áframhaldandi vinsældir hljómsveitarinnar en leiðir sveitarinnar og Vilhjálms skildu nú. Vilhjálmur var ekki sá eini sem hætti um þetta leyti því Andrés saxófónleikari yfirgaf einnig sveitina, í þeirra stað komu Páll Helgason bassaleikari og Erla Stefánsdóttir söngkona (áður í hljómsveitinni Póló). Páll staldraði ekki lengi við og Friðrik Bjarnason gítarleikari tók við af honum vorið 1966. Fleiri mannabreytingar urðu í sveitinni um svipað leyti, Finnur Eydal bróðir Ingimars og Helena Eyjólfsdóttir eiginkona hans fluttust norður eftir nokkur ár á höfuðborgarsvæðinu, og gekk Finnur til liðs við Ingimar og félaga, þá var Grétar gítarleikari einnig hættur. Finnur lék einkum á blásturshljóðfæri sem settu svip sinn á sveitina.

Hljómsveit Ingimars gaf ekki sjálf út plötu á þessu ári (1966) en hún lék hins vegar undir á breiðskífu Þorvaldar söngvara, Þorvaldur Halldórsson syngur sjómannalög, sem Svavar Gests gaf út. Platan varð til að styrkja stöðu sveitarinnar og Þorvaldar enn frekar og t.a.m. hafði hún selst í um 1500 eintökum þremur vikum eftir að hún fór í dreifingu.

Helena Eyjólfs kom síðan einnig inn í sveitina vorið 1967 þegar Erla söngkona fór í barneignafrí en Helena hafði í millitíðinni sungið með Hljómsveit Páls Helgasonar (sem hafði einmitt áður verið í Hljómsveit Ingimars). Erla gekk síðar aftur til liðs við Póló. Helena og Þorvaldur urðu nú vinsælt söngpar og um sumarið voru teknar upp hjá Pétri Steingrímssyni í Ríkisútvarpinu átta lög sem komu út á tveimur plötum sem SG-hljómplötur gáfu út um haustið, fyrst SG-522 sem hafði að geyma söng Þorvaldar, og síðan SG-525 þar sem Helena var í aðal hlutverki. Plöturnar tvær voru því settar fram sem sólóplötur söngvaranna tveggja, þær styrktu enn stöðu sveitarinnar þótt ekki nytu þær nærri jafn mikilla vinsælda og fyrstu tvær plöturnar.

Sumarið 1968 fór sveitin enn suður til Reykjavíkur í upptökur en nú brá svo við að út komu plötur undir nöfnum beggja söngvaranna, sveitin var skipuð hinum sömu og fyrr og enn var Pétur Steingrímsson við takkana, fyrri platan (SG-527) hafði að geyma tónlist við lög úr kvikmyndinni Mary Poppins og hét hún einfaldlega Vinsælustu lögin úr Mary Poppins, á henni var að finna lög við texta Baldurs Pálmasonar, platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Á henni má m.a. finna Sótarasönginn en það lag hafði þremur árum áður komið út á lítilli plötu með Ómari Ragnarssyni og hét þá Dimm, dimma nótt.

Hin platan (SG-530) kom út um svipað leyti og hafði að geyma fjögur lög sem öll náðu vinsældum, þar á meðal var lagið Sumarást (Summer wine), erlent lag sem áður hafði verið flutt af Nancy Sinatra og Lee Hazlewood og var því vel þekkt. Það var var síðar flutt af Radíus bræðrum og Bítlavinafélaginu og gefið út á plötunni Sprellifandi (1996). Þessi plata fékk ágæta dóma í Tímanum.

Þetta sama ár komu út þrjú lög með sveitinni á plötunni Unga kirkjan: trúarsöngvar, en þar voru lög frá ýmsum flytjendum s.s. kórum og einsöngvurum.

Vorið 1969 setti Leikfélag Akureyrar leikritið Poppsöngvarann á svið og annaðist Hljómsveit Ingimars Eydal undirleik í sýningunni samhliða öðrum verkefnum. Sveitin hélt áfram að gefa út plötur en að þessu sinni kom Tónaútgáfan að útgáfunni, fyrst kom út fjögurra laga plata (T 108) sem hljóðrituð var af Sigfúsi Guðmundssyni og síðan „split“ plata sem sveitin deildi með Kirkjukór Akureyrar (T 02). Á þeirri plötu var annars vegar að finna jólalög kirkjukórsins við undirleik Jakobs Tryggvasonar en hins vegar (B-hliðin) lög sungin af Helenu og Þorvaldi við undirleik sveitarinnar. Flest laganna eru jólalög en þar má einnig finna lagið Horfðu á, sem er Bítlalagið Yesterday. Platan hlaut ágæta dóma í Vikunni.

Hljómsveit Ingimars Eydal 1975a

Hljómsveit Ingimars 1975

Breytingar urðu í Hljómsveit Ingimars Eydal um áramótin 1969-70 þegar söngvarinn Bjarki Tryggvason gekk til liðs við sveitina, Friðrik gítarleikari hafði þá hætt, vikið fyrir Grími Sigurðssyni (sem lék bæði á bassa og gítar, og gat auk þess blásið í trompet), um tíma voru því þrír öflugir söngvarar innanborðs en síðan fór svo að Þorvaldur hætti, ekki löngu síðar hætti Hjalti trommuleikari og kom í hans stað Árni Friðriksson, þá lang yngstur hljómsveitarmeðlima.

Á þessum tíma fór sveitin reglulega suður til spilamennsku og lék m.a. á þjóðhátíð Vestmannaeyinga um verslunarmannahelgina 1971 og í Húsafelli ´72. Síðarnefnda árið fór hljómsveitin meira að segja hringferð um landið sem öðrum þræði var til að kynna plötu sem þá var að koma út um sumarið, var tilefnið tíu ára afmæli sveitarinnar en þá voru tíu ár síðan sveitin var stofnuð opinberlega, sveitin hafði þó í raun starfað mun lengur sem fyrr segir.

Platan hét Í sól og sumaryl og var fyrsta stóra plata Hljómsveitar Ingimars en Pétur Steingrímsson annaðist hljóðritun sem fór fram í Tannlæknasalnum. Titillagið var eftir Gylfa Ægisson sem og lagið Ég sá þig, en þau fengu sérlega góða dóma gagnrýnenda Tímans og Morgunblaðsins en platan fékk annars ágæta dóma. Þessi lög urðu Gylfa hvatning til frekari afreka og hefur einkum fyrrnefnda lagið lifað góðu lífi síðan. Önnur lög á plötunni nutu vinsælda og má þar t.d. nefna Hoppsa bomm (Á skíðum skemmti ég mér) og María Ísabel.

Platan seldist mjög vel (í um fjögur þúsund eintökum) og varð þriðja söluhæsta plata ársins. Sveitin lét ekki þar við sitja heldur lék hún um svipað leyti undir á sólóplötum Bjarka Tryggvasonar söngvara sveitarinnar (stóra plötu sem bar titilinn Kvöld) og plötu Erlu Stefánsdóttur fyrrverandi söngkonu sveitarinnar (tveggja laga plötu). Þær plötur komu þó ekki út fyrr en árið eftir.

Reyndar varð 1973 nokkuð sögulegt hjá sveitinni en þá komu út tvær plötur með henni. Annars vegar var tveggja laga plata á vegum Tónaútgáfunnar (T 127) sem hafði að geyma lagið Spánardraumar (Viva Espana) en hljómsveitin fór einmitt til Spánar á vegum ferðaskrifstofunnar Sunnu um haustið til að spila fyrir Íslendinga á þeim slóðum en þetta var einmitt á þeim árum sem sólarstrandaferðirnar voru að hefjast af fullri alvöru. Hljómsveit Ingimars átti eftir að fara margsinnis til Spánar til spilamennsku á næstu árum, og reyndar víða um lönd. Um þetta leyti var Bjarki söngvari að hætta (enda var sólóplata hans að koma út) og söng Grímur gítarleikari aðalröddina í hinu lagi plötunnar sem hét Líttu inn en báðir textarnir voru eftir Einar Haraldsson, Pétur Steingrímsson annaðist hljóðupptökur. Platan hlaut fremur slaka dóma í Alþýðublaðinu og Morgunblaðinu.

Hin platan sem kom út með sveitinni þetta árið var gefin út af SG-hljómplötum og var eins konar safnplata, úrval þeirra laga sem höfðu komið út á litlum plötum á vegum útgáfunnar 1965-68, þær höfðu þá verið illfáanlegar um árabil. Til eru að minnsta kosti tvær útgáfur af umslagi plötunnar, annars vegar rauðleitt en hins vegar gulbrúnt. Þessi plata fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu, hún var endurútgefin af Steinum 1992.

Um áramótin 1974-75 urðu þær breytingar í Hljómsveit Ingimars Eydal að Árni trommuleikari hætti og kom Þorleifur Jóhannsson í stað hans, um svipað leyti gekk Sævar Benediktsson bassaleikari í sveitina í stað Bjarka sem nú var alveg hættur en þeir félagar höfðu verið í hljómsveitinni Ljósbrá. Sú sveit hafði einmitt notið fulltingis Ingimars og félaga við gerð lítillar plötu 1973. Fleiri hliðarverkefni biðu sveitarinnar, t.a.m. lék sveitin undir á plötu Kórs Barnaskóla Akureyrar sem hafði að geyma tvo stutta söngleiki, Árstíðirnar & Siggi og Logi (1974), og einnig kom sveitin við sögu á plötum Hörpu Gunnarsdóttur (1975) og Óðins Valdimarssonar (1978).

Ekki þurfti lengi að bíða eftir næstu plötu hljómsveitarinnar, hún hét einfaldlega Ingimar Eydal og hljómsveit og er söguleg í íslenskri tónlistarsögu að því leyti að hún var fyrsta platan sem Hljómplötuútgáfan Steinar gaf út og ber því útgáfunúmerið STLP 001. Lögin á plötunni komu úr ýmsum áttum en flestir textanna komu úr fórum Þorsteins Eggertssonar, platan var tekin upp haustið 1975 í Hljóðrita af Tony Cook undir stjórn Ólafs Þórðarsonar. Platan fékk þokkalega dóma í Tímanum og Þjóðviljanum og nokkur lög af henni nutu vinsælda s.s. Ródi raunamæddi, Litla Gunna og litli Jón og Sigga Geira.

Sem fyrr segir lék sveitin víða erlendis á þessum árum og einkum á Spáni, litaðist lagaval sveitarinnar nokkuð af því og voru svokölluð Mallorka lög fyrirferðamikil á böllum. Er jafnvel líklegt að gestir Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum (sem var reyndar haldin á Breiðabakka sumarið 1975 vegna Heimaeyjargossins) hafi að nokkru leyti notuð sömu laga og meðlimir spænsku konungsfjölskyldunnar sem heiðruðu sveitina með nærveru sinni á dansleik á Spáni.

Hljómsveit Ingimars Eydal 1975

Ingimar og félagar 1975

Hljómsveitin varð fyrir miklu áfalli vorið 1976 þegar Ingimar stjórnandi hennar og stofnandi, lenti í alvarlegu umferðarslysi. Í raun varð henni sjálfhætt en sveitin lék þó eitthvað fram á sumar, auðvitað án Ingimars. Þar með var sögu þessarar landsfrægu Sjallasveit lokið af því er flestir héldu, þegar Ingimar hafði jafnað sig fór hann reyndar að spila djass með nokkrum félögum sínum undir nafninu Ingimar Eydal og félagar, einnig starfrækti hann um tíma Astró tríóið en hin eiginlega Hljómsveit Ingimars Eydal var nú sagan ein, eða að minnsta kosti í pásu.

Dvali sveitarinnar varði í ein fjögur ár en hún var endurreist 1980, þá að mestu skipuð þeim sömu og voru í henni 1976. Þeir voru auk Ingimars, Þorleifur Jóhannsson trommuleikari, Brynleifur Hallsson gítarleikari og Grímur Sigurðsson bassaleikari en aukinheldur hafði bæst í hópinn söngkonan Inga Eydal dóttir Ingimars. Hjónakornin Finnur og Helena voru nú fjarri góðu gamni, enda starfræktu þau orðið eigið band, Hljómsveit Finns Eydal.

Þremur árum síðar var sveitin farin að spila aftur í Sjallanum á fullu en þá var skemmtistaðurinn opnaður aftur eftir bruna sem varð þar í desember 1981. Sveitin náði þó aldrei því flugi sem hún hafði á gullaldarárum sínum enda höfðu nú nýjar kynslóðir og önnur skemmtanamenning breytt nokkuð böllunum í Sjallanum.

Gítarleikarinn Snorri Guðvarðarson gekk til liðs við sveitina haustið 1983 í stað Brynleifs þegar sá síðarnefndi slasaðist á hendi, og mun Snorri hafa leyst hann af með nánast engum fyrirvara og starfaði svo með sveitinni þar til yfir lauk. Einhverjar aðrar mannabreytingar urðu í sveitinni, einkum vegna þess að leysa þurfti Ingimar sjálfan af á stundum, ungur píanóleikari, Gunnar Gunnarsson var einn þeirra en einnig féll það í skaut Kristjáns Þ. Guðmundssonar að leika á hljómborðin þegar Ingimar fór suður til Reykjavíkur í nám yfir veturinn 1985-86. Reyndar má segja að sveitin hafi þá um tíma lagst í dvala enda er varla hægt að tala um Hljómsveit Ingimars Eydal þegar enginn Ingimar Eydal er í sveitinni. Lausnin fólst í því að sveitin héti þann veturinn Áning (Án Ingimars). Er Ingimar kom aftur til starfa um vorið hélt sveitin áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Sveitin lék áfram og með litlum hléum, hún fór víða um land og jafnvel erlendis til að leika fyrir Íslendinga erlendis s.s. á þorrablótum. 1989 fór hún t.d. í fjögurra landa ferð til þess. Þetta síðara skeið sveitarinnar var því um margt ólíkt blómaskeiðinu þegar hún lék mest á heimavelli í Sjallanum.

1991 kom í ljós að Ingimar var með krabbamein í nýrum, því var tekið af æðruleysi og einhvern veginn kom aldrei til greina að slíta hljómsveitinni. Hún starfaði allt til dauðadags Ingimars snemma í janúar 1993, hann lék síðast með sveitinni að kvöldi annars í jólum 1992. Ingimar lést aðeins fimmtíu og sjö ára gamall en sveitin var í raun starfandi um fjörtíu ára skeið (frá 1953), þótt ekki væri það alveg samfleytt. Meðlimir sveitarinnar héldu samstarfinu áfram eftir andlát Ingimars og gekk þá hún þá undir nafninu Hljómsveit I. Eydal, þar sem I-ið stóð þá fyrir Ingu Eydal söngkonu sveitarinnar.

Fjórum árum síðar (1996) kom út safnplatan Kvöldið er okkar en hún var gefin út af Spor í tilefni af því að þá hefði Ingimar orðið sextugur. Á plötunni var að finna tuttugu af vinsælustu lögum sveitarinnar, og henni fylgdi ítarlegur bæklingur með sögulegu efni um sveitina, sem Jónatan Garðarsson hafði tekið saman.

2003 kom út merkileg plata, Sjallaball: Hljóðritanir af dansleikjum í Sjálfstæðishúsinu á Akureyri 1967 – 1968. Eins og titillinn gefur til kynna var þarna á ferðinni live-plata (tvöföld) að mestu byggð á upptökum af böllum í Sjallanum, tekið upp af Friðriki Bjarnasyni fyrrum gítarleikara sveitarinnar. Þessi plata er merkileg heimild um Sjallaböllin og þar er að finna heilmikla lesningu á plötuumslagi, eftir Ástu Sigurðardóttur. Þarna er þó eingöngu um erlenda slagara að ræða, fyrri platan inniheldur að mestu djass-standarda leikna fyrir matargesti en síðari platan hefur að geyma sjálft ballið.

Tveimur árum síðar kom út safnplata í útgáfuröðinni Brot af því besta sem Íslenskir tónar (Sena) standa fyrir, 2011 kom út safnplata í nafni Ingimars Eydal sem hefur m.a. að geyma lög með Hljómsveit Ingimars Eydal, og enn eru ótalin öll lögin með sveitinni sem poppað hafa upp á ýmsum safnplötum og -seríum í gegnum tíðina eins og Aftur til fortíðar, Óskalögum, Óskastund, Svona var það… o.s.frv.

Ljóst er af ofangreindu að lög sveitarinnar er líklega að finna á hundruðum plötutitla, og þekkir hvert mannsbarn á Íslandi lög með sveitinni, óháð aldri eða öðru kynslóðabili. Tónlist hennar hefur því lifað góðu lífi og þá skiptir litlu frá hvaða skeiði sveitarinnar hún er.

Efni á plötum