Sjálfstæðishúsið við Austurvöll [tónlistartengdur staður] (1946-63)

Sjálfstæðishúsið við Austurvöll

Veitinga- og skemmtistaðurinn Sjálfstæðishúsið við Austurvöll er vafalaust einn þekktasti staður sinnar tegundar í íslenskri tónlistar- og menningarsögu en þar fóru fjölmennir dansleikir fram um og upp úr miðri síðustu öld. Síðar var þar skemmtistaðurinn Sigtún og enn síðar Nasa.

Húsið sjálft á sér langa sögu, það var upphaflega byggt árið 1878 af Helga Helgasyni trésmið en hann var einnig tónskáld, hljóðfærasmiður og frumkvöðull í lúðrasveitamálum hérlendis. Húsið (tveggja hæða) sem stendur við Thorvaldsensstræti 2 hýsti fyrsta kvennaskólann í Reykjavík og síðar var þar íbúðar- og verslunarhús Hallgríms Benediktssonar en það var svo árið 1941 sem sjálfstæðisfélögin í Reykjavík festu kaup á lóðinni og húsinu og afréðu að opna þar höfuðstöðvar sjálfstæðisflokksins. Hallgrímur sá er var þarna kaupmaður var einnig alþingismaður og faðir Geirs Hallgrímssonar síðar borgarstjóra og forsætisráðherra en Geir fæddist einmitt í húsinu árið 1925.

Byggt var bakhús við húsið og í nýbyggingunni var stór veitinga- og samkomusalur (á þess tíma mælikvarða) sem var um 160 fermetrar en hann átti að hýsa um 500 manns í sæti en eldri byggingin átti auk þess að hafa fundar- og skrifstofuaðstöðu fyrir flokkinn. Bandarísk arkitektastofa sá um alla hönnun á nýbyggingunni og upphaflega var jafnvel gert ráð fyrir hóteli einnig á reitnum en frá því var horfið sökum mikils kostnaðar.

Stóri salur hússins

Stofnað hafði verið félag utan um byggingu hússins og meðal víðtækra fjáröflunarleiða var happdrætti þar sem fjögurra herbergja íbúð með húsgögnum var aðalvinningurinn, Varðarhúsið – þáverandi aðsetur flokksins við Kalkhofnsveg var selt en auk þess komu framlög frá flokksfélögum.

Bygging hússins gekk hratt fyrir sig þarna við stríðslok og í ársbyrjun 1946 var fyrsti fundurinn haldinn í húsinu þar sem um 800 manns mættu en það var svo ekki vígt fyrr en um vorið og hlaut þá nafnið Sjálfstæðishúsið við Austurvöll. Við vígsluna var margt um manninn og þar var m.a. boðið upp á tónlist, Lúðrasveit Reykjavíkur og óperusöngvarann Pétur Á. Jónsson.

Strax um sumarið 1946 var húsið mikið notað til samkomuhalds, skemmtikvöld og kvöldvökur, fundir og síðast en ekki síst dansleikir urðu daglegir þættir í rekstri hússins og sjö manna húshljómsveit var ráðin til starfa, Hljómsveit Aage Lorange – sú sveit lék í húsinu fyrstu átta árin, meðlimir hennar, oft einn eða tveir í senn léku einnig undir kaffihúsastemningu en fljótlega eftir opnun var vinsælt hjá borgarbúum að setjast niður í veitingasalnum til að fá sér kaffi síðdegis á daginn.

Sjálfstæðisflokkurinn stóð í miðju mikilla átaka á þessum árum og varð húsið vettvangur í miðju stórra atburða a.m.k. tvívegis þarna um miðja öldina, annars vegar í allsherjarverkfalli haustið 1946 og svo við inngöngu Íslands í Nato vorið 1939 en þá brotnuðu m.a. rúður í húsinu, það má því segja að Sjálfstæðishúsið við Austurvöll hafi komið að ýmsum öðrum þáttum en dansleikjahaldi í sögu þjóðarinnar.

Hópur fólks fyrir utan Sjálfstæðishúsið við Austurvöll

Fyrsta áratuginn voru kabarett- og revíusýningar afar vinsælar í húsinu og lék hljómsveit Aage Lorange þá gjarnan í sýningunum auk þess að leika á dansleikjunum, Blandaðir ávextir, Glatt á hjalla, Tunglið, tunglið, taktu mig og Þó fyrr hefði verið voru t.a.m. sýningar sem settar voru þar á svið. Dansleikjahald var mun algengara á þessum árum heldur en síðar varð og voru haldin böll (bæði almennir dansleikir og einkasamkvæmi s.s. árshátíðir) í húsinu öll kvöld nema miðvikudagskvöld sem voru „þurr kvöld“ en staðurinn hafði vínveitingaleyfi sem ekki var sjálfgefið á þeim tíma. Fjölmenni var því öll kvöld í Sjálfstæðishúsinu og gjarnan mynduðust langar raðir og mikið fjölmenni utan við húsið því Hótel Borg lokaði snemma á þeim árum og því flykktist fólkið yfir Austurvöllinn til að skemmta sér áfram eftir lokun á hótelinu, oft var m.a.s. útvarpað frá dansleikjum þannig að landsmenn flestir gátu upplifað tónlistina.

Haustið 1954 hætti Aage Lorange með hljómsveit sína í húsinu og við tók B.G. kvartettinn sem svo var kallaður, hljómsveit þeirra Björns R. Einarssonar og Gunnars Egilson en síðar léku þar sveitir eins og Hljómsveit Björns R. Einarssonar, Hljómsveit Svavars Gests og Capri tríóið. Erlendir skemmtikraftar fóru aukinheldur að koma fram í húsinu og nutu vinsælda en staðarhaldarar voru duglegir að fylgjast með nýjungum til að bjóða upp á. Útvarpsþættir Sveins Ásgeirssonar voru jafnframt teknir upp í húsinu en þeir nutu gríðarmikilla vinsælda og þegar upptökur á þeim fóru fram var iðulega troðfullt þar af fólki.

Fullur salur af fólki

Sjálfstæðishúsið við Austurvöll fór nokkrum sinnum í gegnum gagngerar breytingar og endurbætur og eftir eina slíka og lokun hússins um tveggja mánaða skeið sumarið 1962 opnaði húsið aftur um haustið en þá voru einnig gerðar breytingar á opnunartíma þess, þá voru dansleikir aðeins föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld en húsið var leigt út önnur kvöld fyrir annars konar starfsemi. Aðsókn að húsinu var þá heldur tekin að minnka með breytingum á samkvæmislífi borgarbúa og kjörorð hússins – staður hinna vandlátu, dugði ekki til að trekkja að. Flokkurinn brá á það ráð að auglýsa reksturinn til útleigu og haustið 1963 opnaði veitingamaðurinn Sigmar Pétursson nýjan skemmtistað í húsinu eftir að lokað hafi verið um sumarið, undir nafninu Sigtún en Sigmar hafði þá rekið Breiðfirðingabúð við Skólavörðustíg um árabil.

Þar með var sögu skemmtistaðarins Sjálfstæðishússins við Austurvöll lokið, Sigtún starfaði við Austurvöll í um tíu ár þar til Sigmar opnaði nýtt Sigtún við Suðurlandsbraut en Póstur og sími hafði þá keypt húsið enda var sjálfstæðisflokkurinn þá að flytja höfuðstöðvar sínar í nýtt húsnæði við Bolholt (Valhöll). Næstu árin var húsið notað undir mötuneyti Pósts og síma eða allt þar til skemmtistaðurinn Nasa opnaði þar haustið 2001.

Miklar deilur og átök urðu um húsið og til stóð að rífa það en eftir mótmæli m.a. tónlistarfólks var húsið friðað en að lokum var ákveðið að rífa það og reisa aftur í upprunalegri mynd, í tengslum við hótelbyggingu sem risi á byggingareitnum einnig. Þegar þetta er ritað er stutt í opnun hússins á nýjan leik eftir breytingar.