Sigmar Pétursson [annað] (1922-88)

Sigmar Pétursson

Sigmar Pétursson telst seint til tónlistarmanna þótt vissulega hafi hann eitthvað leikið á harmónikku en hann var hins vegar umsvifamikill í skemmtanalífi Reykvíkinga um árabil og var iðulega kallaður Sigmar í Sigtúni.

Sigmar Stefán Pétursson var fæddur (1922) og uppalinn á bænum Ásunnarstöðum í Breiðdal í Suður-Múlasýslu, nam við Héraðsskólann á Eiðum og síðar Bændaskólann á Hvanneyri og framan af var ekkert sem benti til að hann myndi fást við eitthvað annað en bústörf.

Það varð þó árið 1947 að Sigmar kom suður til Reykjavíkur en hann hafði þá átt við heilsubrest að stríða og gat ekki unnið erfiðisvinnu. Hann fékkst við eitt og annað, stóð m.a. í verslunar- og sjoppurekstri áður en hann tók við rekstri samkomuhússins Breiðfirðingabúðar við Skólavörðustíg árið 1958. Reksturinn gekk vel undir stjórn Sigmars enda bryddaði hann upp á ýmsum nýjungum fyrir gesti staðarins, hélt m.a. peysufataböll, bingó, bridgekvöld og fleira skemmtilegt sem jók vinsældir staðarins.

Árið 1963 tók Sigmar einnig að sér rekstur Sjálfstæðishússins við Austurvöll og breytti nafni staðarins í Sigtún, þar með var hann orðinn umsvifamestur allra veitinga- og skemmtistaðahaldara á landinu með um áttatíu manns í vinnu. Sjálfur átti hann til að grípa til harmonikkunnar þegar vel lá á honum og vakti iðulega athygli fyrir það, og þegar hljóðfæraleikarar fóru í verkfall í upphafi árs 1965 tróð hann sjálfur upp og lék fyrir gesti Sigtúns. Hann hélt jafnframt áfram að leita nýrra og óvenjulegra leiða til að bjóða upp á fjölbreytt skemmtiatriði, fór stundum út fyrir landsteinana til að leita skemmtikrafta og varð fyrstur staðahaldara hérlendis til að bjóða upp á nektardansmeyjar.

Sigmar í Sigtúni

Sigtún var á þessum tíma einn allra vinsælasti skemmtistaðurinn og frægt er þegar breska hljómsveitin Kinks kom til Íslands á vegum KSÍ árið 1970 og spilaði í Laugardalshöll að þeim var boðið á dansleik á staðnum, þegar hljómsveitin sem þar lék hafði hætt að leika um kvöldið settust þeir félagar við hljóðfærin og byrjuðu að djamma en Sigmar tók þá í taumana og sló út rafmagninu og í kjölfarið lenti hann svo ásamt einum dyraverði hússins í átökum við Mick Avory trommuleikara Kinks sem hélt áfram að berja settið eftir að rafmagnið hafði verið slegið út.

Sigmar hafði hætt með Breiðfirðingabúð og boðið í rekstur Glaumbæjar árið 1971 en fékk ekki, hann vissi að til stæði að sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að selja húsið sem Sigtún var starfrækt í þannig að hann horfði víða í kringum sig, um tíma hafði hann í hyggju að fara til Kaupmannahafnar og opna stað þar og einnig hafði hann hugmyndir uppi um að opna risaskemmtistað í Iðngörðum, svæði sem svo var nefnt milli Miklubrautar og Suðurlandsbrautar. Að lokum varð úr að hann fékk lóð við Suðurlandsbraut 26 og reisti þar skemmtistað sem opnaði þar undir nafninu Sigtún árið 1973, upp frá því var talað um nýja og gamla Sigtún en því gamla var lokað þegar Póstur og sími keypti húsið við Austurvöll. Nýja húsið átti að vera á fjórum hæðum en fyrst stóð aðeins til að byggja fyrstu tvær hæðirnar og bæta hinum við síðar – aldrei varð þó úr þeim ráðagerðum og því er húsið enn tveggja hæða og hýsir í dag Heimilistæki og Tölvulistann.

Sigmar við hálfbyggt „nýja“ Sigtún

Nýja Sigtún varð stærsti skemmtistaður landsins og þar voru haldnir fjölmennir dansleikir og annars konar samkomur s.s. bingó o.fl. en stærsti salur hússins tók um þúsund manns, í því störfuðu um 50-60 manns. Meðal húshljómsveita í Sigtúni voru Galdrakarlar og tók Sigmar stöku sinnum lagið með sveitinni á harmonikkuna sína.

En reksturinn gekk ekki sem skyldi þegar líða tók á áttunda áratuginn, diskótekin voru þá að taka yfir og eftirspurn eftir lifandi tónlist fór minnkandi, því fóru erfið ár í hönd og reyndi Sigmar eftir fremsta megni að mæta þeim erfiðleikum t.d. með því að bjóða upp á diskótek í Sigtúni en hann var aukinheldur með grilleldhús og fleira í húsinu. Annars konar starfsemi kom einnig í húsið og Sigtúns-nafnið var lagt niður árið 1986 og rak hann þá skemmtistaðinn Útópíu um tíma þar.

Það kom að því að Sigmar varð gjaldþrota og það lagðist eðlilega þungt á hann, hann glímdi við alvarlegt þunglyndi sem að lokum lagði hann að velli haustið 1988, sextíu og sex ára gamlan. Þar með var síðasti veitingamaðurinn af gamla skólanum var fallinn í valinn en hann hafði þá staðið í skemmtanahaldi og danshúsarekstri í hartnær fjóra áratugi.