Afmælisbörn 24. apríl 2023

Bára Grímsdóttir

Sjö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í þetta skiptið:

Friðrik Karlsson gítarleikari og lagahöfundur er sextíu og þriggja ára gamall í dag, hann hefur í seinni tíð sérhæft sig í nýaldar- og jógatónlist en var á árum áðum í hljómsveitum eins og Ljósin í bænum, Módel, DBD, Gigabyte, Doddi og Eyrnastór, Heart 2 heart, N1+, Kvintett Ólafs Helgasonar, Stjórnin, Tívolí og Mezzoforte en sú síðast talda er reyndar enn starfandi. Friðrik hefur starfað síðustu árin á Bretlandseyjum sem virtur session leikari.

Bára Grímsdóttir kórstjórnandi og tónskáld er einnig sextíu og þriggja ára gömul í dag. Hún hefur stýrt kórum eins og Valskórnum, Kór Snæfellingafélagsins, Kór MR, Samkór Vestmannaeyja og Skólakór Hamarskóla en hún er tónmenntakennari að mennt auk þess að vera tónskáld. Bára er í tónlistarhópnum Emblu og starfrækir dúettinn Funa ásamt eiginmanni sínum. Verk hennar hafa m.a. komið út á plötum Funa og Hljómeykis.

Elísa María Geirsdóttir, betur þekkt sem Elíza Newman er fjörutíu og átta ára gömul. Elíza náði fyrst eyrum almennings sem söngkona og fiðluleikari hljómsveitarinnar Kolrössu krókríðandi (síðar Bellatrix) sem sigraði Músíktilraunir 1992 en hún hefur ennfremur gefið út fjórar sólóplötur, þá síðustu 2016.

Sigursveinn D. Kristinsson (1911-90) tónskáld og tónlistarfrömuður frá Ólafsfirði átti einnig afmæli þennan dag en hann er hvað þekktastur fyrir tónlistarskóla þann sem nefndur er eftir honum og hélt upp á fimmtíu ára afmælið 2014. Hann kom einnig að stofnun Tónlistarskóla Siglufjarðar og Lúðrasveitar verkalýðsins en stofnaði einnig kóra norðanlands og stýrði þeim. Sigursveinn var frá unglingsaldri bundinn við hjólastól en það aftraði honum ekki til stórra verka.

Sigmar Þór Matthíasson

Bassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson er þrjátíu og fimm ára gamall í dag. Sigmar Þór hefur sent frá sér sólóplötur í djassgeiranum en einnig starfað með hljómsveitum í gegnum tíðina, hér má t.a.m. nefna sveitir eins og Brek, Dægurflugurnar og Hvar er Mjallhvít? en einnig hefur hann starfrækt djasssveitir í eigin nafni.

Halldór Kristinn Vilhelmsson einsöngvari fæddist einnig á þessum degi árið 1938. Hann nam söng við Tónlistarskólann í Reykjavík og kenndi síðar við hann. Hann söng í ýmsum kórum, þar má nefna Pólýfónkórinn, Einsöngvarakórinn, Karlakórinn Stefni og Kirkjukór Akraness, og var einn af stofnendum Íslensku óperunnar. Halldór Kristinn lést 2009.

Og að síðustu er hér nefndur Marteinn H. Friðriksson (Fritz Martin Hunger) kórstjórnandi, tónlistarkennari og organisti (1939-2010). Marteinn kom frá Þýskalandi á sjöunda áratug síðustu aldar og starfaði fyrst um stað í Vestmannaeyjum en síðan uppi á meginlandinu frá 1970. Meðal kóra sem Marteinn stýrði voru Dómkórinn í Reykjavík (í þrjá áratugi), Samkór Vestmannaeyja, Söngsveitin Fílharmónía og Kór MR, en hann kom einnig við sögu á fjölmörgum hljómplötum sem stjórnandi og organisti.

Vissir þú að fyrr á þessari öld var starfandi kór Íslendinga í Hollandi?