Sigtún [tónlistartengdur staður] (1963-86)

Úr gamla Sigtúni

Skemmtistaðurinn Sigtún starfaði í á þriðja áratug á síðari hluta síðustu aldar og var vinsæll meðal ungs fólk, Sigmar Pétursson veitingamaður rak staðinn á tveimur stöðum, fyrst við Austurvöll og síðar á Suðurlandsbrautinni, hann fylgdist vel með nýjungum erlendis og var fljótur að tileinka sér slíka hluti.

Sigmar hafði rekið Breiðfirðingabúð um nokkurra ára skeið þegar honum bauðst að taka við rekstri Sjálfstæðishússins við Austurvöll (síðar Nasa) árið 1963, við þau umskipti breytti hann nafni staðarins í Sigtún. Með þessa tvo staði varð hann umsvifamestur allra þeirra sem stóðu í slíkum rekstri og þegar mest var hafði hann um áttatíu manns í vinnu. Sigmar var ætíð sjálfur á staðnum ekki ólíkt Helgu Marteinsdóttur á Röðli, stóð flestar vaktir og sá um að allt færi vel fram,stundum greip hann til harmonikkunnar og lék sjálfur á hana fyrir gesti ef slík stemming var fyrir hendi í húsinu, það gerði hann t.d. þegar hljóðfæraleikarar innan FÍH fóru í verkfall árið 1965.

Sigmar var einnig duglegur að fylgjast með nýjungum í löndunum í kringum okkur, var t.d. fyrstur til að bjóða upp á dansmeyjar sem fækkuðu fötum en slík dansatriði urðu feikivinsæl, einnig voru vinsæl bingó haldin þar, félagsvistarkvöld auk annars konar viðburðir.

Sigmar Pétursson við hálfbyggt Sigtún við Suðurlandsbraut

Sigtún varð á þessum árum einn allra vinsælasti skemmtistaðurinn á landinu ásamt Glaumbæ við Fríkirkjuveg og þangað flykktust skemmtanaglaðir Íslendingar enda bauð Sigmar jafnan upp á vinsælustu hljómsveitir hvers tíma, s.s. Pónik og Einar, Hauk Morthens og hljómsveit, Roof tops, Mána, Hauka, Lónlí blú bojs, Galdrakarla og Brimkló svo nokkur dæmi séu nefnd.

Þegar sjálfstæðisflokkurinn (sem átti húsið) seldi Pósti & síma húsnæðið byggði Sigmar nýtt hús við Suðurlandsbraut sem hann nefndi einnig Sigtún en það var opnað 1973, þá var yfirleitt talað um gamla og nýja Sigtún. Til stóð að byggingin yrði á fjórum hæðum en húsið varð þó aldrei meira en tvær hæðir. Sigtún við Suðurlandsbraut varð stærsti skemmtistaður landsins og þar gátu um þúsund manns skemmt sér í einum salnum.

Eftir því sem leið á áttunda áratuginn og framan af þeim níunda urðu diskótekin vinsæl og eftirspurn eftir stórum skemmtistöðum með lifandi tónlist fór þverrandi, svo fór að lokum að Sigtún lokaði árið 1986 en skemmtistaðurinn Útópía starfaði í húsinu um skeið. Þannig lauk sögu skemmtistaðarins Sigtúns eftir tuttugu og þriggja ára rekstur.