Sigurbjörg Sveinsdóttir (1941-78)

Sigurbjörg Sveinsdóttir – Didda Sveins

Söngkonan Sigurbjörg Sveinsdóttir (Didda Sveins) söng með nokkrum danshljómsveitum á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar en hún starfaði oftar en ekki með eiginmanni sínum, gítarleikaranum Eyþóri Þorlákssyni bæði hérlendis og á Spáni. Hún lést af slysförum aðeins þrjátíu og sjö ára gömul.

Sigurbjörg Sveinsdóttir var fædd og uppalin í Reykjavík (1941) en ekki liggja fyrir upplýsingar um tónlistarnám hennar eða -uppeldi. Átján ára gömul var hún meðal keppenda í Fegurðarsamkeppni Íslands sem á þeim dögum voru haldnar í Tívolíinu í Vatnsmýrinni, og hafnaði hún þar í fjórða sæti og keppti í framhaldinu í Miss World í London. Um svipað leyti hafði hún kynnst verðandi eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Eyþóri Þorlákssyni sem var þá tiltölulega nýskilinn við Elly Vilhjálms, þau Sigurbjörg og Eyþór kynntust þar sem þau tóku bæði þátt í uppfærslu á revíu í Sjálfstæðirhúsinu við Austurvöll – hún sem söngvari og dansari en hann sem gítarleikari og fór hún með honum um haustið til Barcelona haustið 1959. Þar byrjaði hún að syngja með hljómsveit Jose Matas þar sem Eyþór var gítarleikari.

Þau Sigurbjörg og Eyþór gengu í hjónaband og næstu árin voru þau til skiptist hér heima á Íslandi og á Spáni, hér heima starfrækti Eyþór hljómsveitir sem léku m.a. í Þjóðleikhúskjallaranum, Röðli og Sigtúni og söng Sigurbjörg (sem þá var yfirleitt auglýst undir nafninu Didda Sveins) með þeim sveitum en einnig söng hún með Nova kvartettnum sem Eyþór lék líklega ekki með. Litlar upplýsingar er að finna um sögu þeirra á Spáni, hvort Eyþór starfrækti einhverjar sveitir þar í eigin nafni en þau störfuðu þar m.a. með hljómsveit Pedro Sanchez sem var nokkuð þekkt nafn á Spáni. Þau störfuðu að öllu jöfnu á Spáni yfir sumartímann en dvöldust á norðurslóðum yfir vetrartímann.

Sumarið og haustið 1967 störfuðu þau hjónin með Hljómsveit Guðjóns Pálssonar en einnig komu þau stundum fram bara tvö og skemmtu, það sumar. Um haustið hætti Sigurbjörg hins vegar að syngja opinberlega þegar henni bauðst flugfreyjustarf hjá Loftleiðum (síðar Flugleiðum) og þann starfa hafði hún næstu árin en hún var svo meðal átta Íslendinga sem létust í hörmulegu flugslysi á Sri Lanka haustið 1978, mannskæðasta flugslysi Íslandssögunnar. Hjá Flugleiðum hafði hún verið yfirflugfreyja um skeið og einnig starfað að félags- og réttindamálum flugfreyja.

Svo virðist sem söng Sigurbjargar sé hvergi að finna á útgefnum hljómplötum.