
Combo Eyþórs Þorlákssonar
Combo Eyþórs Þorláksson starfaði um nokkurra ára skeið á fyrri hluta sjöunda áratugarins en combo-ið var lengst af húshljómsveit á Röðli.
Sveitin kom fyrst fram haustið 1962 á Röðli og þar átti hún eftir að spila næstu árin, hún kom þá einnig eitthvað fram á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum, auk þess sem sveitin lék eitt sumarið (1964) á Spáni en Eyþór hafði verið þar í námi.
Meðlimir Combos Eyþórs Þorlákssonar voru auk Eyþórs sjálfs sem lék á gítar, Sverrir Garðarsson trommuleikari, Þórarinn Ólafsson píanóleikari og Sverrir Sveinsson bassaleikari, reyndar lék Trausti Thorberg upphaflega á bassa með sveitinni. Didda Sveins (Sigurbjörg Sveinsdóttir) þáverandi eiginkona Eyþórs var söngkona sveitarinnar en einnig söng Sigurdór Sigurdórsson eitthvað með henni einnig.
Combo Eyþórs Þorlákssonar starfaði fram á vorið 1965.