Tríó Eyþórs Þorlákssonar (1953-62)

Tríó Eyþórs Þorlákssonar og Didda Sveins

Eyþór Þorláksson starfrækti tríó í eigin nafni á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en þó með hléum þar sem hann m.a. starfaði og nam gítarfræði á þeim tíma á Spáni.

Tríóið kemur fyrst við sögu sumarið 1953 og var þá líklega sett saman fyrir tónleika sem breska söngkonan Honey Brown hélt hérlendis, svipaður viðburður var haldinn um haustið og aftur kom tríóið við sögu á þeim tónleikum. Þessi fyrsta útgáfa sveitarinnar hafði að geyma auk Eyþórs, Jón Sigurðsson bassaleikara og Guðjón Pálsson píanóleikara.

Tríó Eyþórs hélt áfram störfum og söng Gestur Þorgrímsson stundum með þeim félögum en vorið 1954 léku þeir félagar í plötuupptöku með Hauki Morthens á vegum hljómplötuútgáfunnar Fálkans en Haukur var þá að stíga sín fyrstu skref í plötuútgáfu. Út komu þrjár 78 snúninga plötur (með alls sex lögum) sem höfðu að geyma sumar af þekktustu perlum söngvarans s.s. Bjössi kvennagull (Bjössi á mjólkurbílnum) og Ó borg, mín borg.

Tríó Eyþórs Þorlákssonar

Síðar sama ár lék tríóið undir á plötu með Marz bræðrum, m.a. lagið Hanna litla en það voru Íslenzkir tónar sem gáfu þá plötu út. Ári síðar, 1955 lék tríóið einnig undir á plötu með söng Ragnars Bjarnasonar en af einhverjum ástæðum kom sú plata aldrei út.

Næstu árin var Eyþór mikið á Spáni en kom heim reglulega og starfrækti þá Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar, það var því ekki fyrr en haustið 1961 sem tríó Eyþórs tók til starfa á nýjan leik, þá lék sveitin í Þjóðleikhúskjallaranum um veturinn 1961-62 og voru meðlimir þess þá auk Eyþórs, píanóleikarinn Sigurður Þ. Guðmundsson og gítarleikarinn Trausti Thorberg, eiginkona Eyþórs, Sigurbjörg Sveinsdóttir (Didda Sveins) var söngkona tríósins.

Eftir vetrarstarfið í Leikhúskjallaranum fór Eyþór enn til Spánar og haustið eftir tók Hljómsveit Eyþórs aftur til starfa, þar með voru dagar tríósins taldir.

Árið 2000 á sjötugs afmæli Eyþórs var sett saman djasstríó í hans nafni sem var skipað Guðmundi Steingrímssyni trommuleikara og Birgi Bragasyni bassaleikara auk Eyþórs.

Efni á plötum