Afmælisbörn 10. júlí 2022

Didda Sveins

Níu afmælisbörn í tónlistargeiranum koma við sögu Glatkistunnar á þessum degi:

Helgi Björnsson söngvari og leikari er sextíu og fjögurra ára gamall í dag. Helgi varð fyrst þekktur er hann gekk til liðs við ísfirsku hljómsveitina Grafík en áður hafði hann verið í hljómsveitinni Berb. Í kjölfarið hófst farsæll söngferill Helga og eftir að hafa verið í Næturgölunum frá Venus, stofnaði hann ásamt öðrum Síðan skein sól (síðar SSSól). Helgi hefur leikið á sviði og í kvikmyndum og sungið á plötum tengt því en einnig hefur hann gefið út sólóefni, plötur með Reiðmönnum vindanna og sungið með Astral sextett, svo fátt eitt sé nefnt. Hann er enn að senda frá sér efni, virðist hvergi nærri hættur og fór mikinn í heimatónleikahaldi á meðan Covid-19 samkomubanninu stóð.

Stefán Karl Stefánsson leikari  (f. 1975) hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2018. Þrátt fyrir að vera fyrst og fremst leikari er söng hans einnig að finna á nokkrum plötum, einkum tengdum Latabæ en eins og allir vita gegndi Stefán lykilhlutverki í þeim mæta bæ sem Glanni glæpur. Hann söng sem gestur á nokkrum plötum, á plötum sem geyma tónlist úr leikritum og kvikmyndum en gaf einnig út grínplötuna Í túrrett og moll árið 2009.

Jónbjörn Birgisson sem ýmist leikur á gítar eða bassa í hljómsveitinni Pink street boys er þrjátíu og þriggja ára gamall í dag. Pink street boys hefur sent frá sér nokkrar plötur og er þekkt fyrir hráa spilamennsku og hávaða, en Jónbjörn hefur einnig leikið með sveitum eins og The Killjoy.

Guðmundur Haukur Jónsson söngvari og hljómborðsleikari er sjötíu og þriggja ára í dag. Hann hefur leikið og sungið með ýmsum þekktum og óþekktum hljómsveitum í gegnum tíðina og má þar nefna sveitir eins og Blues company, Uncle John‘s band, Alfa beta, Ástandið, Dúmbó sextett, Næturgalarnir, Roof tops, Tónatríóið og Karma. Guðmundur Haukur hefur einnig gefið út sólóplötur.

Skafti Sigþórsson tónlistarmaður átti einnig þennan afmælisdag en hann lést 1985. Skafti sem var fæddur 1911 lék á fiðlu og saxófón með fjölda sveita hér á árum áður og meðal annarra má nefna Hljómsveit Aage Lorange, Hljómsveit Carls Billich, Hljómsveit Henna Rasmus og Blue boys, svo fáeinar séu nefndar.

Þá hefði Þorvaldur Friðriksson harmonikkuleikari frá Eskifirði ennfremur átt afmæli á þessum degi en hann lést 1996. Þorvaldur (f. 1923) þótti einnig liðtækur söngvari og söng í kórum eystra en hann samdi einnig lög sem sum hver rötuðu inn á plötu, Lögin hans Valda, sem fjölskylda hans gaf út að honum látnum.

Sigurður Ísólfsson

Söngkonan og fegurðardrottningin Sigurbjörg Sveinsdóttir átti einnig afmæli þennan dag en hún var fædd árið 1941. Sigurbjörg eða Didda Sveins eins og hún var ævinlega kölluð söng með ýmsum danshljómsveitum bæði hér heima og á Spáni ásamt eiginmanni sínum, Eyþóri Þorlákssyni gítarleikara um árabil. Didda starfaði einnig sem flugfreyja og í því starfi sínu lést hún í hörmulegu flugslysi á Sri Lanka árið 1978.

Sigurður Guðni Ísólfsson organisti og kórstjórnandi (1908-1992) átti þennan afmælisdag einnig. Sigurður var af miklum tónlistarættum og starfaði við Fríkirkjuna í Reykjavík í um hálfa öld sem organisti og kórstjórnandi en hann vann einnig að félagsmálum tónlistarmanna, kenndi tónlist og lék inn á orgel á fjölda hljómplatna um ævi sína.

Að síðustu er hér nefndur Garðar Karlsson (1947-2001) tónlistarmaður og kennari en hann lék með fjölda hljómsveita á sínum tíma s.s. Pónik og Töktum og söng með kórum fyrir norðan þar sem hann bjó og starfaði. Garðar samdi aukinheldur fjöldann allan af lögum sem komið hafa út en plata var síðan gefin út að honum látnum, sem hafði að geyma lög eftir hann.

Vissir þú að skósmiðurinn Gísli Ferdinandsson spilaði flautusólóið í laginu Nú liggur vel á mér?