Þorvaldur Friðriksson (1923-96)

Þorvaldur Friðriksson

Þorvaldur Friðriksson var alþýðutónlistarmaður sem starfaði alla tíð á Eskifirði, hann samdi lög og eftir andlát hans gaf fjölskylda hans út plötu með lögum hans.

Þorvaldur fæddist 1923 á Eskifirði, hann var sjálfmenntaður harmonikkuleikari og hafði líklega einnig lært eitthvað á orgel á æskuheimili sínu. Hann starfaði alla tíð sem sjómaður og verkamaður á heimaslóðum en lék á harmonikku á böllum um allan Austfirðingafjórðunginn, ýmist einn eða með öðrum harmonikkuleikurum. Þorvaldur var einnig góður söngmaður, söng m.a. í karlakórnum Glað og kirkjukórum á staðnum, og jafnvel einn þegar svo bar undir í jarðarförum og brúðkaupum. Hann samdi ennfremur fjölmörg lög, m.a. lag sem flutt var við vígslu félagsheimilsins Valhallar á Eskifirði.

Þorvaldur lést haustið 1996 en sjö árum síðar gaf fjölskylda hans út plötuna Lögin hans Valda í tilefni af því að þá hefði hann orðið áttræður. Á plötunni er að finna sextán lög sem synir Þorvaldar (sem nokkrir hafa fengist við tónlist) fluttu ásamt aðstoðarmönnum en þar er einnig að finna tvö lagabrot með söng Þorvaldar sjálfs og Kristínar Pétursdóttur eiginkonu hans.

Efni á plötum