Guðmundur Haukur Jónsson (1949-)

Guðmundur Haukur

Tónlistarmaðurinn Guðmundur Haukur Jónsson var í nokkrum þekktum hljómsveitum á áttunda áratug síðustu aldar en hann var þá áberandi í hlutverki söngvara, síðar varð hann þekktari fyrir spilamennsku á Skálafelli á Hótel Esju. Hann hefur einnig sent frá sér sólóplötur.

Guðmundur Haukur er Reykvíkingur, fæddur 1949 og gerðist orgelleikari sextán ára í hljómsveit Arnþórs Jónssonar (Adda rokk) og félaga í Tónatríóinu. Hann starfaði með þeirri sveit um þriggja ára skeið en þá bauðst honum að taka við sönghlutverkinu af Sigursteini Hákonarsyni (Steina) í Dúmbó sextettnum frá Akranesi. Dúmbó sextettinn var þá orðinn nokkuð þekktur en Guðmundur starfaði með þeirri sveit þar til hún lagði upp laupana haustið 1969. Sveitin gaf ekki út plötu þann tíma sem hann söng með henni en tók hins vegar upp eitt lag sem rataði á safnplötuna Pop festival ´70, þar söng Guðmundur sem og annað lag sem hann flutti í eigin nafni við undirleik aðkeyptra breskra tónlistarmanna.

Guðmundur mun hafa verið á milli hljómsveita um skamman tíma en kom þó eitthvað fram með hljómsveitum Magnúsar Eiríkssonar, Uncle John‘s band (sem var eins konar undanfari Mannakorna) og Blúskompaníinu, en svo kom að því sumarið 1970 að hann gerðist liðsmaður hljómsveitarinnar Roof tops sem þótti nokkuð sér á báti, lék sálarkennda tónlist sem svo þyngdist nokkuð þegar á leið. Um þetta leyti hafði Guðmundur sungið inn á tveggja laga plötu sem til stóð að Tónaútgáfan gæfi út, sú plata var tilbúin til útgáfu en af einhverri ástæðu kom hún þó aldrei út. Lögin voru erlend en við texta Guðmundar sjálfs, en hann hafði þá einnig samið texta fyrir Ara Jónsson sem kom út á lítill plötu.

Guðmundur sem á þessum tíma var orðinn menntaður kennari, var í samfloti með hljómsveitinni Trúbrot til London snemma vors 1971 og hljóðritaði þá fjögur erlend lög við eigin texta við undirleik breskra tónlistarmanna, þrjú þeirra laga komu síðan út nokkru síðar á vegum Tónaútgáfunnar en platan vakti ekki mikla athygli og fékk reyndar fremur slaka dóma í Vikunni. Haustið 1972 kom út tveggja laga plata með Roof tops þar sem Guðmundur átti annað lagið og báða textana, þá hafði hann sjálfur um tíma verið að vinna að breiðskífu sem kom síðan út um líkt leyti og hét einfaldlega Guðmundur Haukur en hefur alltaf gengið undir nafninu „Gula platan“ þar sem umslag plötunnar er með þeim áberandi lit. Þegar platan var endurútgefin árið 2006 hafði hún einmitt fengið þann titil formlega, á endurútgáfunni er að finna eitt aukalag og hér er giskað á að um sé að ræða fjórða lagið sem hljóðritað hafði verið í Lundúnaferðinni vorið ´71 en aðeins þrjú lög höfðu komið út á smáskífunni sem gefin var út í kjölfarið. Guðmundur samdi öll lög og texta á plötunni sem gefin var út af útgáfufyrirtækinu Scorpion, en naut aðstoðar félaga sinna í Roof tops í hljóðfæraleiknu, auk Gunnars Þórðarsonar, Pétur Steingrímssonn hljóðritaði. Platan hlaut varla nema sæmilega dóma í Morgunblaðinu en þokkalega í Tímanum. Segja má að lítill hluti upphafslags plötunnar, Nú er komið frí, hafi notið nokkurra vinsælda nokkrum árum síðar því að árið 1982 sendi hljómsveitin Upplyfting frá sér lagasyrpuna Í sumarskapi sem naut mikilla hylli og var mikið spiluð, í þeirri syrpu koma fyrir hendingarnar úr laginu: Er þú fórst mér frá / ég gat vart mér setið á / ég vildi ekki að þú færir frá mér. Margir þekkja þessar textalínur án þess beinlínis að átta sig á því hvaðan þær koma. Einnig má geta þess að lagið Hjá þér var notað í júgóslavnesku heimildamyndinni „Pohvala Islandu“ eftir Boro Drascovic, sem gerð var 1973.

Guðmundur Haukur Jónsson

Guðmundur söng með Roof tops þar til um miðjan áttunda áratuginn að hún lagði upp laupana, árið 1974 kom út breiðskífan Transparency með sveitinni sem fékk litla kynningu þar sem lögin voru á ensku en þá var eins konar stefna hjá Ríkisútvarpinu (einu útvarpsstöð landsins) að leika ekki íslenska tónlist með enskum textum, Guðmundur samdi um helming textanna á plötunni og eitt laga hennar.

Þegar Roof tops hætti störfum lék Guðmundur með Næturgölunum / The Nightingales um tíma en stofnaði síðan dansleikjasveit sem var af allt öðrum toga en Roof tops, það var léttpoppsveitin Alfa beta sem lék eingöngu léttar ábreiður og þegar sú sveit sendi frá sér plötuna Velkomin í gleðskapinn árið 1977 hafði hún mestmegnis að geyma þess konar tónlist, erlend lög frá sjötta áratugnum með íslenskum textum sem margir voru eftir Guðmund en þar var reyndar einnig að finna tvö frumsamin lög eftir hann.

Alfa beta starfaði í tæplega áratug og síðan um skamma hríð starfaði Guðmundur með hljómsveitinni Karma en samhliða þeirri spilamennsku vann hann að öðrum verkefnum, hann lék t.d. á hljómborð með Ríó tríóinu sem fór í tónleikareisu sumarið 1977 en Ágúst Atlason meðlimur þeirrar sveitar var með Guðmundi í Alfa beta, þá var Guðmundur einnig farinn að kenna við Orgelskóla Yamaha og fór reyndar í nám til Svíþjóðar hjá fyrirtækinu. Síðan stofnaði hann eigin tónlistarskóla, Tónskóla Guðmundar sem hann starfrækti um árabil og samhliða því gaf hann út kennsluefni undir útgáfumerkinu Alfa beta, sem reyndar gaf einnig út tónlist – þ.á.m. endurútgáfuna á „gulu plötunni“ og svo þær plötur sem hann átti eftir að senda frá sér auk annarra platna sem komu út á vegum útgáfunnar, þar kom hann jafnframt eitthvað lítillega við sögu sem söngvari og hljóðfæraleikari en einnig á plötum t.d. með Hjördísi Geirsdóttur og á jólaplötu í samstarfi við Birgi Gunnlaugsson og Dansskóla Hermanns Ragnars Stefánssonar.

Guðmundur á Roof tops árunum

Guðmundur var líklega þekktastur á níunda og tíunda áratugnum sem „mubla“ á Hótel Esju þar sem hann átti eftir að starfa með skemmtara á Skálafelli frá árinu 1983. Þar starfaði hann næstu áratugina, lang oftast einn síns liðs með skemmtara og míkrafón að vopni en stundum einnig ásamt öðrum tónlistarmönnum s.s. Hjördísi Geirs, Þresti Þorbjörnssyni, Hallbirni Hjartarsyni, Viðari Jónssyni og Kristbjörgu Löve svo nokkur nöfn séu nefnd, hann skemmti einnig á öðrum sambærilegum veitinga- og skemmtistöðum og stundum úti á landsbyggðinni, jafnframt á jólatrésskemmtunum og hvarvetna sem þörf var á slíkum skemmtikrafti. Á nýrri öld minnkaði hann smám saman við sig á þessum vettvangi en hann var þó við slíka spilamennsku fram á annan áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Sólóplötu-útgáfusögu Guðmundar var þó ekki lokið, árið 1985 sendi hann frá sér kassettu sem bar titilinn BARa vinsæl lög en hún innihélt tuttugu og eitt þekkt íslensk og erlend lög leikin á skemmtara og sungin af honum sjálfum, litlar upplýsingar er að finna um þessa útgáfu en kassettan var gefin út af útgáfufyrirtækinu Alfa beta, sem fyrr segir. Og þá gaf Guðmundur út plötuna Hjartatromp í tilefni af fimmtugs afmæli sínu árið 1999 en hún hafði að geyma tólf frumsamin lög hans. Platan hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu.

Guðmundur hefur á síðustu árum ekki mikið komið að tónlist, að minnsta kosti ekki í eins miklum mæli og fyrrum.

Efni á plötum