
Guðmundur Ingólfsson
Nafn Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík hefur ekki farið hátt hin síðari ár í hinu tónlistarlegu samhengi en sé málið skoðað í víðu samhengi mætti segja að hann hafi breytt ýmsu í íslenskri tónlistarsögu þótt með óbeinum hætti sé.
Guðmundur fæddist 1939 að öllum líkindum í Vestmannaeyjum þar sem hann mun hafa búið framan af ævi sinni, þar starfaði hann með hljómsveit sem ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um. Þegar hann fluttist frá Vestmannaeyjum til Keflavíkur (líklega um miðjan sjötta áratuginn) hóf hann að starfrækja sveit í eigin nafni þar sem hann var sjálfur gítarleikari.
Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar (um tíma Saxon kvintettinn) aflaði sér fljótlega mikilla vinsælda á heimaslóðum og fór reyndar mjög víða á starfstíma sínum (1958-63), starfaði m.a. þrjú sumur í síldinni á Siglufirði og lék einnig á dansleikjum víða um Suðurland yfir sumartímann en var mestmegnis á heimaslóðum á Suðurnesjunum aðra árstíma.
Fjölmargir síðar þekktir tónlistarmenn úr Keflavík stigu sín fyrstu skref með sveit Guðmundar, Þórir Baldursson, Einar Júlíusson, Engilbert Jensen, Pétur Östlund og Gunnar Þórðarson sem allir urðu stór nöfn á bítlatímanum léku með honum, flestir kornungir og þegar Guðmundur ákvað vorið 1963 að leggja sveitina niður tóku yngri meðlimir hennar sig til, þeir Gunnar og Einar ásamt Eggerti Kristinssyni (sem einnig var í hljómsveit Guðmundar) og stofnuðu Hljóma, þekktustu íslensku bítlasveitina. Þeir fengu til liðs við sig Rúnar Júlíusson og þá var sveitin fullskipuð en síðar komu fyrrnefndir Engilbert og Pétur einnig við sögu Hljóma. Það má því segja með óyggjandi hætti að Guðmundur hafi haft áhrif á tónlistarsöguna með því að fóstra þessa ungu og upprennandi tónlistarmenn (hann var að vísu ekki nema fáeinum árum eldri en þeir), og síðan með því að leggja sveit sína niður sem varð til þess að Hljómar urðu að veruleika. Þess má einnig geta að Guðmundur mun hafa sagt Gunnari eitthvað til við gítarinn.
Guðmundur starfaði ekki mikið við tónlist eftir þetta, hann lék með hljómsveitinni Bluebirds á Keflavíkurflugvelli og einnig með The Americans en sú sveit var einvörðungu skipuð bandarískum hermönnum fyrir utan hann (og kallaðist reyndar með hann innanborðs The Americans plus one).
Guðmundur hætti að spila í kringum 1970 og hóf þá að sinna fagi sínu af fullum krafti en hann er smiður að mennt, það var svo á tíunda áratugnum sem gítarinn var tekinn fram aftur og hann hóf að leika aftur með hljómsveitum sem ýmist ganga undir nafninu Málbandið, Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar eða Poppband Keflavíkurkirkju, e.t.v. er þetta allt sama sveitin. Þessar sveitir hafa mestmegnis verið að spila fyrir eldri borgara á Suðurnesjunum en Guðmundur hefur jafnframt komið að harmonikkusamfélaginu í Keflavík sem gítarleikari hin síðustu ár.