Guðmundur Guðmundarson (1920-2009)

Guðmundur Guðmundarson

Guðmundur Guðmundarson var líklega þekktari fyrir skrif sín í Morgunblaðinu en flest annað sem hann tók sér fyrir hendur en hann var um árabil heildsali, rak um tíma sælgætisgerðina Lindu og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur en það sem snýr að tónlistinni var fyrst og fremst textagerð.

Guðmundur fæddist á Eyrarbakka árið 1920 og ólst þar upp yngstur níu systkina, hann flutti til Reykjavíkur og lauk námi við Verzlunarskóla Íslands og ævistarf hans snerist fyrst og fremst um þann geira eins og komið er á hér að ofan. Hann var um tíma meðeigandi að Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur (HSH) í Vesturveri (sem var á neðstu hæð Morgunblaðshallarinnar við Aðalstræti) á árunum 1947-64 og framkvæmdastjóri fyrirtækisins um tíma en fyrirtækið var einnig öflugt í plötuútgáfu um margra ára skeið. Ómar Ragnarsson gaf t.a.m. út fyrstu plötur sínar hjá fyrirtækinu og hann hefur talað um að Guðmundur hafi stóran þátt í að Gáttaþefur varð til í meðförum hans en Ómar gaf út þrjár vinsælar jólaplötur síðar undir því aukasjálfi, Guðmundur fékk Ómar og tvo aðra til að skemmta á svölum verslunarinnar fyrir gesti og gangandi í desember 1964 en fram að því hafði Ómar ekki vilja leika jólasvein.

Guðmundur var heilmikill hagyrðingur og samdi fjölda texta sem margir urðu vinsælir, þekktastur þeirra en líklega textinn um Bellu símamær (sem margir hafa reyndar eignað Lofti Guðmundssyni) í flutningi Öddu Örnólfs og síðar Bjarkar og Tríós Guðmundar Ingólfssonar en Guðmundur samdi einnig fjölmarga texta fyrir revíusýningar sem nutu mikilla vinsæla í kringum 1950, m.a. fyrir Bláu stjörnuna. Dómínó í flutningi Brynjólfs Jóhannessonar er dæmi um slíkt en það varð mjög vinsælt um það leyti, meðal annarra texta Guðmundar má nefna Kæri Jón, Já mín dóttir kæra, Vatnið og Hulda spann auk margra annarra en síðast talda lagið söng Haukur Morthens og var það íslensk útgáfa af laginu Walk the line með Johnny Cash. Löngu síðar samdi Guðmundur texta á heila plötu fyrir dótturdóttur sína, Kötlu Maríu þar sem hún söng spænsk barnalög en þau lög urðu mörg hver feikivinsæl, og svo fleiri texta á jólaplötu sem kom síðar út með henni.

Það var svo árið 1986 sem Guðmundur ritaði harðorða blaðagrein í Morgunblaðið undir yfirskriftinni Dýrkun ræfildóms og hortitta en þar gagnrýndi hann harðlega íslenska dægurlagatextagerð og svo reyndar ljóðagerð ungskáldanna almennt í fleiri greinum en hann var ötull talsmaður gamla formsins og vildi veg ljóðstafa og ríms sem bestan í íslenskri ljóða- og textagerð. Hann mætti heilmikilli andstöðu með skrifum sínum næstu árin og varði þau skrif sín svo úr varð heilmikil umræða um ljóðaformið. Þótt svo virtist sem um harðvítugar deilur væru að ræða vildi aðstandandi meina í minningargrein um Guðmund að hann hefði haft gaman að umræðunni og ritað greinar sínar meira í gamni en alvöru, honum tókst þó að minnsta kosti að skapa umræðu um efnið og eftirfarandi orð hans gefa ágæta mynd af skrifum hans: „Ótrúlega mörgum stendur geigur af leirskriðunum niður yfir blómstrandi hlíðar og gróðurreiti íslenskrar ljóðlistar“.

Guðmundur var öflugur í hvers kyns félagsstarfi sem hann tók sér fyrir hendur, hann var lengi í stjórn SÍBS og sinnti félagsstörfum m.a. fyrir Lions einnig en hann og Svavar Gests voru öflugir saman í því starfi.

Guðmundur lést árið 2009 á nítugasta aldursári.