Afmælisbörn 18. júlí 2018

Fritz Weisshappel

Afmælisbörn dagsins í íslensku tónlistarlífi eru þrjú talsins á skrá Glatkistunnar en þau eru öll látin:

Fyrstan skal nefna Fritz (von) Weisshappel píanóleikara. Hann var Austurríkismaður, fæddur 1908, og kom hingað til lands 1928. Fritz starfaði lengstum sem undirleikari bæði hjá einsöngvurum og kórum, t.a.m. starfaði hann sem undirleikari Karlakórs Reykjavíkur í áratugi og lék inn á fjölda platna hjá kórnum, sem og plötum fjölmargra annarra listamanna. Hann  var einnig virkur í félagsmálum tónlistarmanna, var í stjórn FÍH um tíma og starfaði einnig sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Fritz lést 1964.

Guðmundur Guðmundarson (1920-2009) var ekki beinlínis tónlistarmaður en hann samdi fjölda ljóða og texta sem tónlistarmenn færðu í lög sín. Guðmundur samdi m.a. gamanvísur fyrir revíuna Bláu stjörnuna en nokkrar þeirra komu út á plötu með Brynjólfi Jóhannessyni leikara. Einnig samdi hann texta við lög sem barnabarn hans, Katla María söng á plötu 1979 og urðu feikivinsæl. Hann var einnig einn eigenda Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur um tíma.

Nora (Sue) Kornblueh sellóleikari (f. 1951) hafði þennan afmælisdag einnig, hún var bandarísk en flutti til Íslands 1980 með eiginmanni sínum, Óskari Ingólfssyni klarinettuleikara. Hér starfaði hún við sellókennslu og lék einnig víða, t.d. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kaldalónstríóinu á tónleikum, og á plötur. Nora lést 2008 aðeins 57 ára gömul.