Nora Kornblueh (1951-2008)

nora-kornblueh1

Nora Kornblueh

Sellóleikarinn Nora Sue Kornblueh bjó hérlendis og starfaði um árabil en hún var gift klarinettuleikaranum Óskari Ingólfssyni.

Nora fæddist í Bandaríkjunum 1951, nam sellóleik og lauk námi með BM gráðu, hún kom hingað til lands 1980 og lék hér með Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum kammersveitum, starfaði í Íslensku óperunni og Þjóðleikhúsinu, auk þess sem hún hélt tónleika með smærri hópum og sem einleikari. Þess má geta að tónskáldin Snorri Sigfús Birgisson og Hjálmar H. Ragnarsson sömdu sellóverk fyrir hana til flutnings. Sellóleik hennar má ennfremur heyra á nokkrum plötum, m.a. á plötunni Íslensk kammer og einleiksverk: Chamber and solo music from Iceland, þar sem þau Óskar og Snorri Sigfús leika verk þess síðast nefnda og Hjálmars H. Ragnarssonar.

Nora annaðist aukinheldur tónlistarkennslu og almenna kennslu en hún sérmenntaði sig síðar í kennslu barna með sértæka lestrarerfiðleika og helgaði sig þeim vettvangi, samhliða því fór minna fyrir tónlistinni hjá henni.

Nora lést árið 2008, aðeins fimmtíu og sjö ára gömul.

Efni á plötum