Bertha Biering (1947-)

Bertha á forsíðu Fálkans

Bertha Biering var ein þeirra söngkvenna sem komu fram sjónarsviðið í kjölfar kynninga á ungum og efnilegum söngvurum eins og tíðkuðust á sjötta áratugnum og öndverðum þess sjöunda.

Bertha (f. 1947) var farin að syngja lítillega opinberlega tólf ára gömul en það var síðan snemma um vorið 1963 sem hún var „uppgötvuð“ á söngvarakynningu með Lúdó sextett, hún hafði þá gengið í gegnum KK-skólann svokallaða en Kristján Kristjánsson hafði staðið fyrir söngkennslu fyrir unga og efnilega söngvara.

Í kjölfarið söng Bertha lítillega um vorið 1963 á dansleikjum með Lúdó sextettnum, E.M. sextettnum og Hljómsveit Óskars Guðmundssonar áður en hún réði sig sem söngvara hjá Sextett Óla Ben um sumarið, sú sveit lék mestmegnis á dansleikjum á landsbyggðinni.

Um haustið kom hún lítillega við sögu á þremur hljómplötum sem komu út litlu síðar, tvær þeirra platna voru með Ómari Ragnarssyni og söng hún þar bakraddir ásamt Önnu Vilhjálms í lögunum Ég hef aldrei nóg og Sjö litlar mýs. Einnig söng hún raddir á frægri fjögurra laga jólaplötu Ellyjar Vilhjálms og Ragnars Bjarnaonar.

Bertha Biering, Sigrún Jónsdóttir. Elly Vilhjálms, Helena Eyjólfsdóttir og Anna Vilhjálms við upptökur

Vorið 1964 byrjaði Bertha að syngja með Hljómsveit Magnúsar Péturssonar í Klúbbnum og söng með þeirri sveit um sumarið, og um haustið tók Hljómsveit Karls Lilliendahl við spilamennsku á staðnum og söng hún þá með þeirri sveit um veturinn.

Bertha söng ennfremur með Hljómsveit Elfars Berg um skamman tíma en hvarf síðan af sjónarsviðinu um tíma enda bjó hún þá erlendis í nokkur ár. Hún birtist aftur árið 1970 og söng þá með J.J. Quintet um tveggja ára skeið en eftir það dró hún sig að mestu í hlé frá söngnum.

Bertha hefur þó á síðari árum margsinnis komið fram í tengslum við tónlistarsýningar tengdar gamla rokkinu, rokkshowum eins og Rokkstjörnur Íslands, Laugardagskvöld á Gili, American graffiti og Rokk og ról í 50 ár á veitingastaðnum Broadway og fleiri stöðum.