Berti Möller (1943-2007)

Berti Möller 1960

Berti Möller var einn af ástsælustu söngvurum rokkáranna á Íslandi en hann söng með fjölmörgum sveitum á ferli sínum, sú þekktasta var Lúdó sextett.

Bertram Henry Möller (skírður Bertam Henry Mallet) fæddist 1947 í Reykjavík en þar ólst hann upp í Vesturbænum. Hann átti íslenska móður en enskan föður sem gegndi hér herþjónustu, og þaðan kemur skýringin á nafni hans.

Berti hafði snemma áhuga á tónlist og lærði m.a. á gítar hjá frænku sinni, Ástu Stefánsdóttur gítarkennara. Hann spilaði þó á píanó ásamt því að syngja í sinni fyrstu hljómsveit, Rock boys sem kom fram aðeins einu sinni, veturinn 1956-57 en hann var þá aðeins fjórtán ára gamall. Berti söng í öllum þeim sveitum sem hann átti eftir að starfa með en hann lék einnig á hin ýmsu hljóðfæri í þeim s.s. gítar, píanó og bassa.

Næsta sveit Berta var Júpiter (1958) en hann staldraði ekki lengi við í henni (að svo stöddu), þess í stað var hann einn af þeim sem stofnuðu hljómsveitina Plútó kvintettinn sem síðar gekk undir nafninu Lúdó-sextett eða Lúdó og Stefán. Með Lúdó starfaði Berti í um eitt ár en um haustið 1959 söng hann um skamman tíma með Úranus sextett og síðan Diskó sextett áður en hann gekk til liðs við Falcon sextettinn sem var í raun sama sveit og gengið hafði áður undir nafninu Júpiter. Berti söng með Falcon þar til í lok ársins 1960 að þeir félagar breyttu nafni sveitarinnar í Sextett Berta Möller og léku undir því nafni til vorsins 1962 þegar sú sveit lagði upp laupana.

Lítið fór fyrir Berta um nokkurra mánaða skeið á tónlistarsviðinu þar sem hann fór á sjóinn en haustið 1962 kom hann aftur í land og hóf þá að starfa með Hljómsveit Árna Elfar sem hann var með um veturinn í Glaumbæ. Næsta vor (1963) bauð Svavar Gests honum að ganga til liðs við hljómsveit sína en hún naut þá mikilla vinsælda og hafði m.a. gefið út nokkrar smáskífur. Berti og söngkonan Anna Vilhjálms tóku þá við sönghlutverkinu af Ragnari Bjarnasyni sem þá hvarf á braut til Danmerkur. Þau sungu svo saman inn á tvær plötur með hljómsveitinni en þær komu út 1964. Á þeim plötum er m.a. að finna lögin Heimilisfriður og Ef þú giftist mér sem þau Anna sungu saman en lögin nutu mikilla vinsælda. Þessi útgáfa lék mikið á Hótel Sögu sem þá var nýtekið til starfa en haustið 1964 ákvað Svavar að skipta út söngvurunum og ráða þau Ragnar og Elly Vilhjálms til starfa.

Berti við dagskrárgerðarstörf

Við þessar mannabreytingar í sveitinni ákvað Berti að nóg væri komið í bili af söng og spilamennsku og skömmu síðar hóf hann störf hjá lögreglunni í Reykjavík. Áður hafði hann verið um eitt ár í prentnámi en ekki lokið því, en þarna fann hann fjöl sína utan tónlistarinnar og átti eftir að starfa við löggæslustörf í áratugi, fyrst í umferðarlögreglunni og síðar í rannsóknarlögreglunni, 1970-71 starfaði hann reyndar hjá Sameinuðu þjóðunum í New York en að öðru leyti var hann fyrst og fremst lögreglumaður.

Berti var um tíma lítið tengdur tónlistarheiminum en hann var þó um tíma í Hljómsveit Elfars Berg (sem hafði verið með honum í Lúdó sextett) á seinni hluta sjöunda áratugarins en ekki sem fastráðinn söngvari. Árið 1966 söng hann lagið Anna Maja í Danslagakeppni Útvarpsins og kom það út á plötu, það naut nokkurra vinsælda og heyrist enn spilað stöku sinnum.

Á árunum 1972-74 lék hann hins vegar með hljómsveitinni Robots á Keflavíkurflugvelli en sú var eins konar útibú frá hljómsveit Elfars Berg og var í raun Lúdó sextettinn, um tíma kölluðu þeir félagar sig Þyrna áður en þeir tóku upp gamla nafnið Lúdó sextett eða Lúdó og Stefán.

Sveitin gaf út tvær breiðskífur (1976 og 77) sem nutu mikilla vinsælda, einkum fyrri platan, og starfaði hún til vors 1978. Segja má að hljómsveitaferli Berta hafi að mestu verið lokið þá, sveitin kom reyndar saman aftur í nokkur skipti og síðast um aldamótin en leiðir hans og sveitarinnar skildu áður en plata kom út með henni árið 2004. Berti átti nokkra texta á plötunum tveimur sem komu út á áttunda áratugnum.

Þegar tónlistarshow til heiðurs gamla rokkinu voru sett á svið á Broadway og fleiri skemmtistöðum á níunda og tíunda áratugnum var jafnan kallað til Berta Möller og söng hann á mörgum slíkum rokksýningum, t.a.m. Rokk-festivali í Þórscafé, Rokk ´93 á Hótel Íslandi, Rokkstjörnum Ísland á Broadway o.fl. Einnig hélt hann sjálfur uppi heiðri gamla rokksins með útvarpsþáttum á Rás 2 og Aðalstöðinni, sem nutu mikilla vinsælda.

Berti Möller lést árið 2007 á sjötugs aldri.

Efni á plötum