Afmælisbörn 9. júní 2017

Bertha Biering

Glatkistan hefur þrjú afmælisbörn á skrá í dag sem eitthvað hafa með tónlist að gera:

Guðni Már Henningsson útvarpsmaður með meiru, ljóðskáld og tónlistarmaður er sextíu og fimm ára í dag. Guðni Már hefur starfað við vinsældir hjá Ríkisútvarpinu í áratugi og hefur náð eins konar trúnaðarsambandi við marga af þeim hlustendum sem hlusta á næturútvarp hans. Hann hefur einnig starfað í hljómsveitunum Tass og Rasp auk þess að gefa út plötuna Líf ásamt Birgi Henningssyni, sem vel að merkja er ekki bróðir hans.

Bertha Biering söngkona á stórafmæli en hún er sjötug í dag. Bertha kom ung fram á sjónarsviðið sem efnileg söngkona en söngferill hennar var þó fremur stuttur. Hún söng með hljómsveitum eins og J.J. quintet, E.M. sextett og Sextett Óla Ben, auk þess sem hún söng bakraddir á nokkrum smáskífum á sjöunda áratugnum.

Ásgeir Sverrisson harmonikkuleikari og hljómsveitarstjóri hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2008. Ásgeir (f. 1928) starfrækti lengstum eigin gömludansasveit, Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar ásamt eiginkonu sinni Sigríði (Siggu Maggý) Magnúsdóttur söngkonu. Ásgeir var einnig í öðrum hljómsveitum en þeirra á meðal má nefna E.K. kvartettinn, Hljómsveit Carls Billich, Hljómsveit Aage Lorange og Hljómsveit Óskars Cortes.