Garðar Karlsson [2] (1947-2001)

Garðar Karlsson

Garðar Karlsson var tónlistarmaður sem starfaði mestmegnis á Norðurlandi, mest í Eyjafirðinum en einnig í Mývatnssveit, ein plata liggur eftir með tónlist hans en hún var gefin út að honum látnum.

Garðar (f. 1947) lærði húsgagnasmíði og starfaði við það fag framan af, t.d. sem smíðakennari en hann aflaði sér síðan kennslu- og skólastjóraréttinda og var t.d. skólastjóri við Skútustaðaskóla í Mývatnssveit. Hann var þá jafnframt tónlistarkennari en hann lék á fjölda hljóðfæra þótt gítarinn muni hafa verið aðal hljóðfæri hans.

Hann hafði leikið með hljómsveit á unglingsárunum á Akureyri sem bar nafnið Pónik en sú sveit innihélt einnig m.a. Jörund Guðmundsson (síðar skemmtikraft) og Bjarka Tryggvason söngvara, Pónik gekk síðar undir nafninu Taktar. Síðar kom Garðar við sögu norðlensks tónlistarlífs með ýmsum hætti, hann var einn af þeim sem setti Karlakór Eyjafjarðar á stofn, söng með kórnum og var stundum meðal undirleikara kórsins sem og Dísukórsins svokallaða.

Garðar samdi fjölmörg lög og af ýmsu tagi en kórar hafa flutt nokkur þeirra, þ.á.m. Karlakór Eyjafjarðar og reyndar einnig Karlakór Selfoss sem flutti tvö laga hans á plötu sem kórinn gaf út. Hann samdi ásamt fleirum tónlist fyrir leikritið Kvennaskólaævintýrið (e. Böðvar Guðmundsson) sem Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit setti á svið 1995 og einnig var hann einhverju sinni tónlistarstjóri við sýningu Freyvangsleikhússins, þá samdi Garðar einnig ljóð en sá þáttur var ekki eins áberandi hjá honum við sköpun tónlistarinnar.

Garðar átti við veikindi að stríða um aldamótin 2000 en hann var þá farinn að huga að útgáfu plötu með frumsömdum lögum. Honum auðnaðist ekki að ljúka við hana en hann lést árið 2001. Fjölskylda hans með dóttur hans Huldu Björk Garðarsdóttur sópransöngkonu fremsta í flokki, lauk við gerð plötunnar og hún kom út 2003 undir titlinum Vorperla: sönglög. Hulda Björk og Óskar Pétursson frá Álftagerði í Skagafirði sungu lögin á plötunni (alls ellefu) við undirleik Daníels Þorsteinssonar píanóleikara. Lögin eru sem fyrr segir eftir Garðar en ljóðin komu úr ýmsum áttum. Einnig kom þá út nótnahefti með lögum hans. Stefnt hafði verið á að gefa út aðra plötu með lögum Garðars en svo virðist sem sú hugmynd hafi ekki orðið að veruleika.

Þess má geta að Karlakór Eyjafjarðar gaf árið 2003 út plötuna Gestaboð en það er einmitt titill eins laga Garðars og var það að finna á plötunni.

Minningarsjóður var stofnaður um Garðar árið 2006 til að styrkja efnilega tónlistarnemendur Tónlistarskóla Eyjafjarðar til frekara náms.

Efni á plötum