Garðar Karlsson [1] (1942-2011)

Garðar Karlsson

Flugvirkinn Garðar Karlsson (f. 1942) var kunnur gítarleikari á sjöunda áratug liðinnar aldar og starfaði þá með nokkrum danshljómsveitum. Þekktustu sveitirnar sem hann lék með voru Hljómsveit Finns Eydal, Hljómsveit Svavars Gests og Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar en með þeim lék hann inn á fjölmargar vinsælar plötur sem söngvarar eins og Ragnar Bjarnason, Elly Vilhjálms Helena Eyjólfsdóttir o.fl. komu við sögu á. Einnig lék hann með sveitum eins og City sextett, Diskó sextettnum og Hljómsveit Elfars Berg.

Um 1970 hætti Garðar opinberri spilamennsku um tíma en um áratug síðar birtist hann aftur með hljómsveitinni Thaliu sem var húshljómsveit í Þjóðleikhúskjallaranum, á tíunda áratug síðustu aldar var hann síðan aftur nokkuð áberandi á dansstöðum bæjarins, lék um tíma með Stuðbandinu og Garðari en myndaði svo dúett annars vegar með Önnu Vilhjálms, hins vegar með Kristbjörgu Löve (Diddu Löve) undir nafninu Klappað og klárt, þá kom hann stundum einn fram með skemmtara. Garðar var einnig söngmaður og söng hann með karlakórnum Fóstbræðrum um árabil.

Garðar Karlsson lést árið 2011.