Sigurbjörn Eiríksson [annað] (1925-97)

Sigurbjörn Eiríksson

Sigurbjörn Eiríksson var umsvifamikill athafnamaður og áberandi í skemmtanalífi Íslendinga um árabil en hann rak nokkra af vinsælustu skemmtistöðum landsins um áratuga skeið.

Sigurbjörn var fæddur (1925) og uppalinn á Fáskrúðsfirði en fluttist á höfuðborgarsvæðið og þar hóf hann að láta að sér kveða í kringum 1960 þegar hann tók við rekstri Vetrargarðsins í Tívolíinu í Vatnsmýrinni af Helgu Marteinsdóttur (kennda við Röðul) en hann hafði verið starfsmaður hjá henni um árabil, við dyravörslu og fleira.

Smám saman stækkaði veldi Sigurbjörns í skemmtanabransanum, hann hætti með Vetrargarðinn og árið 1963 tók hann við rekstri Glaumbæjar og gerði hann að stærsta og vinsælasta skemmtistað landsins. Síðar kom einnig til sögunnar Klúbburinn við Borgartún auk fleiri staða en hann stóð jafnframt í annars konar rekstri, s.s. andarækt, hrossarækt og fleira.

Í Vetrargarðinum var ævinlega lifandi tónlist á boðstólum og sömu sögu má segja um Glaumbæ þar sem margar af vinsælustu hljómsveitum þess tíma léku fyrir dansi, hljómsveitir eins og Hljómar, Óðmenn og Dúmbó & Steini en síðast talda sveitin sendi síðar frá sér óð um staðinn. Glaumbær sem með tímanum hefur fengið á sig goðsagnakenndan stimpil (enda hefur heil kynslóð verið kennd við staðinn) brann hins vegar síðla árs 1971 og frægt er að þá missti hljómsveitin Náttúra öll sín hljóðfæri og græjur. Í Klúbbnum við Borgartún léku sömuleiðis margar af vinsælustu hljómsveitum landsins, Haukar, Júdas og fleiri, en bæði Glaumbær og Klúbburinn voru á mörgum hæðum.

Sigurbjörn var umdeildur og fékk dóma fyrir ávísanamisferli, söluskattsvik og bókhaldsóreiðu en hann sat einnig einnig undir ámæli fyrir að hleypa alltof mörgum gestum inn á staði sína og að gæta ekki nógu vel að aldri gesta sinna, sem fengu margir afgreiðslu á börum staðanna án þess að hafa til þess aldur. En hann var svo einnig saklaus færður í gæsluvarðhaldi í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svokallaða þegar reynt var að fá koma sök á hann í því máli, og fékk hann skaðabætur ásamt þremur öðrum. Hann jafnaði sig aldrei almennilega á því máli og var ekki alveg heilsuhraustur eftir það, hann stóð þó áfram í alls kyns rekstri en dró sig smám saman í hlé frá skemmtanabransanum.  Sigurbjörn lést haustið 1997 eftir nokkur veikindi.

Þess má og geta að lagið Hveitibjörn með Stuðmönnum (af plötunni Tívolí (1976)) mun vera um Sigurbjörn og hafa meðlimir sveitarinnar bæði sagt það beint og að Hveitibjörn standi fyrir braskara og svindlara almennt.