Sigurbjörn Þorgrímsson (1976-2011)

Sigurbjörn Þorgrímsson

Tónlistarmaðurinn Sigurbjörn Þorgrímsson var einn af helstu frumkvöðlum í raf- og danstónlist á Íslandi og sendi frá sér plötur undir ýmsum nöfnum. Hann lést langt um aldur fram, aðeins þrjátíu og fimm ára gamall.

Sigurbjörn var fæddur á Höfn í Hornafirði en fluttist til höfuðborgarsvæðisins um sjö ára aldur. Hann var tiltölulega ungur farinn að fikta við að búa til tónlist með tölvum og árið 1990 varð dúett þeirra Þórhalls Skúlasonar Ajax stofnaður en þeir voru þá einungis fjórtán ára gamlir og með þeim allra fyrstu sem prófuðu sig áfram með tónlist búna til á tölvur, sú tónlist þeirra hefur verið skilgreind sem hardcore reifdanstónlist. Ajax sendi frá sér smáskífu m.a. í Bretlandi og vakti lagið Ruffige nokkra athygli með sveitinni en með sanni má segja að hér sé á ferð fyrsta íslenska danstónlistarplatan og er hún því tímamótaplata hérlendis og kveikja og hvati þess að safnplatan Icerave var gefin út en þar átti sveitin nokkur lög. Ajax gekk einnig undir nafninu Feður Flintstones.

Árið 1994 byrjaði Sigurbjörn að nota listamannsnafnið Biogen og gekk þá ýmist undir því nafni eða Bjössi Biogen, undir Biogen nafninu sendi hann frá sér nokkrar plötur en sú tónlist var meira í ambient stílnum, þá hefur hann einnig gefið út efni undir nöfnunum Babel og Aez en tónlist hans undir öllum þessum nöfnum má ennfremur finna á fjölda safnplatna innlendra sem erlendra.

Sigurbjörn vann með ýmsum öðrum tónlistarmönnum og varð reyndar mörgum hvati til að gera raftónlist, hafði þannig áhrif á aðra unga tónlistarmenn og smitaði út frá sér með eigin áhuga, hann vann þó einnig með eldri tónlistarmönnum eins og t.d. Tryggva Hansen og hljómsveit hans, Seiðbandinu sem sendi frá sér plötur og svo í tilraunasveit með Sjón og fleirum sem gekk undir nafninu Níund. Hér má einnig nefna samstarf hans við myndlistakonuna Ráðhildi Ingadóttur en þau blönduðu saman mynd- og tónlist á sýningu hennar á Kjarvalsstöðum en Sigurbjörn vann einnig sjálfur síðar videolist og myndbandagerð.

Bjössi Biogen

Sigurbjörn var jafnframt hluti af Weirdcore hópnum, hópi tónlistarfólks sem stóð fyrir ýmsum uppákomum s.s. tónleikum og útgáfustarfsemi. Hann kom t.a.m. fram tengt því á fyrst raftónlistarkvöldinu sem haldið var á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni, auk þess sem hann kom margsinnis fram á hvers kyns tónleikum, t.d. þar sem hann flutti tónlist undir sýningum á gömlum kvikmyndum Fritz Lang o.fl. Sigurbjörn var einn þeirra sem komu fram á tónleikum í tengslum við kvikmyndina Popp í Reykjavík en af einhverjum ástæðum eyðilögðust hljóð- og myndupptökurnar og kemur hann því ekki fyrir í myndinni.

Aðeins ein plata kom út í nafni Sigurbjörns sjálfs, platan Byogene sem var fimm laga stuttskífa sem æskufélagi hans úr Ajax, Þórhallur Skúlason gaf út undir Thule útgáfumerkinu en þeir höfðu stofnað útgáfuna saman. Plötur hans undir Biogen, Babel og Aez nöfnunum skipta þó einhverjum tugum en auk þeirra má nefna fjölda remixa sem hann vann fyrir tónlistarfólk eins og Múm, Sigur rós og Stjörnukisa.

Sigurbjörn Bjössi Biogen lést í febrúar 2011 aðeins þrjátíu og fimm ára gamall en hann hafði þá glímt við andleg veikindi um tíma sem um leið höfðu haft áhrif á tónlistarsköpun hans. Hans var minnst með minningartónleikum nokkrum vikum síðar og síðan þá hafa verið gefnar út nokkrar plötur undir Biogen nafninu með safnefni, s.s. áður óútgefnu efni.

Efni á plötum