Sigurbjörn Ingþórsson (1934-86)

Sigurbjörn Ingþórsson

Sigurbjörn Ingþórsson var meðal fremstu bassaleikara Íslands um langt árabil, lék bæði með danshljómsveitum og Sinfóníuhljómsveit Íslands og einnig inn á nokkrar plötur. Hann lést aðeins rúmlega fimmtugur að aldri.

Sigurbjörn eða Bjössi bassi eins og hann var iðulega nefndur, fæddist í Reykjavík sumarið 1934 en ólst upp á Selfossi. Þar komst hann í tæri við tónlistargyðjuna, þótti efnilegur og prófaði sig áfram á píanó, orgel og harmonikku og lék einnig á munnhörpu. Sigurbjörn mun hafa verið á fermingaraldri þegar hann hóf að leika fyrir dansi en ekki liggur fyrir hvort það var með hljómsveit eða e.t.v. einn síns liðs með harmonikku, hann hóf svo að leika með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar á Selfossi áður en hann flutti með foreldrum sínum til Reykjavíkur.

Í Reykjavík nam Sigurbjörn bassaleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík og fljótlega upp úr því fór hann að leika á bassa með hinum ýmsu danshljómsveitum og þótti þá strax meðal þeirra bestu í faginu. Hann mun þó hafa leikið fyrst á Akureyri með tríói Árna Elfar sumarið 1953 áður en hann lék með Kvintett Gunnars Ormslev en tók svo að leika með Hljómsveit Svavars Gests í Breiðfirðingabúð veturinn 1954-55.

Sumarið 1955 gekk Sigurbjörn til liðs við KK sextett og lék m.a. með þeirri sveit í Þýskalandsför þar sem leikið var í bandarískum herstöðvum, og árið 1956 byrjaði hann að starfa með Orion kvintett Eyþórs Þorlákssonar með Elly Vilhjálms sem söngkonu, sem lék mikið á Keflavíkuflugvelli og bauðst síðan að fara utan og leika í herstöðvum í Þýskalandi, Frakklandi og Marokkó þar sem sveitin dvaldist fram yfir áramót 1956-57. Og Sigurbjörn átti eftir að fara oftar utan til spilamennsku því 1957 fór hann með hljómsveit Gunnars Ormslev með Hauk Morthens sem söngvara á heimsmót æskunnar í Moskvu þar sem sveitin vann til verðlauna – upptökur frá þeirri ferð komu svo út löngu síðar á plötunni Gunnar Ormslev – Jazz í 30 ár (1983) en þar er einnig að finna fleiri upptökur þar sem Sigurbjörn kemur við sögu.

Árið 1958 fór Sigurbjörn aftur með hljómsveit Gunnars út til Danmerkur og Svíþjóðar um sumarið og fór svo sjálfur til Þýskalands þegar félagar hans héldu heim á leið, og hóf framhaldsnám í bassafræðum við Staatliche Hochschule für Musik í Hamborg. Þar var hann við nám næstu árin en kom heim í fríum til að spila, lék m.a. með hljómsveit Björns R. Einarssonar á Borginni, Tríói Kristjáns Magnússonar og hljómsveit Árna Elfar á Röðli auk þess sem hann lék með svokölluðum Heklukvartett á æskumóti í Austurríki, sambærilegu því sem haldið hafði verið í Sovétríkjunum. Tónlistarnámið var dýrt og þegar útlit var fyrir að hann þyrfti að hætta námi  þegar eitt ár var eftir af því tóku félagar hans úr bransanum sig til og héldu fyrir hann styrktartónleika í Austurbæjarbíói svo hann gat klárað nám sitt. Hann náði ennfremur að spila eitthvað með þýskum danshljómsveitum samhliða náminu til að endar næðu saman.

Sigurbjörn Ingþórsson

Að námi sínu loknu gekk Sigurbjörn til liðs við Sinfóníuhljómsveit Íslands og starfaði með henni í um tuttugu ár eða allt til 1980. Hann lék einnig framan af nokkuð með danshljómsveitum s.s. með Hljómsveit Sverris Garðarssonar í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll, með Hljómsveit Hauks Morthens og fór enn á ný á heimsmót æskunnar með þeirri sveit, fyrst til Finnlands 1961 og svo aftur til Sovétríkjanna ári síðar, það ár var hann svo kjörinn besti bassaleikarinn í uppgjöri Vikunnar.

Sigurbjörn lék einnig við önnur tækifæri, hann spilaði eitthvað á uppákomum hjá Musica Nova, og var heilmikið að spila á djasskvöldum þegar Jazzklúbbur Reykjavíkur starfaði, þá lék hann með þekktum djasstónlistarmönnum sem hingað komu – s.s. með bandaríska trompetleikaranum Donald Byrd og danska trommuleikaranum Alex Riel. Þá spilaði hann um tíma með Stórsveit FÍH.

Bassaleik Sigurbjörns má heyra á nokkrum útkomnum plötum með t.d. Róberti Arnfinnssyni, Helenu Eyjólfsdóttur, Hauki Morthens, Skapta Ólafssyni og Elly Vilhjálms, og má hér t.a.m. nefna lög eins og Allt á floti, Ó nema ég o.fl. með Skapta og Lítill fugl og 79 af stöðinni (Vegir liggja til allra átta) með Elly.

Sigurbjörn Ingþórsson lést sumarið 1986 eftir langvinn veikindi en hann var þá aðeins fimmtíu og tveggja ára gamall.