The Icelandic all star (1955)

Nafnlaus hljómsveit sem síðar hlaut nafnið The Icelandic all star var sett saman fyrir jam session í Breiðfirðingabúð snemma árs 1955 en sveitina skipuðu þeir Gunnar Ormslev saxófónleikari, Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari, Kristján Magnússon píanóleikari, Sigurbjörn Ingþórsson bassaleikari og Bob Grauso trommuleikari.

Sá síðast taldi var Bandaríkjamaður sem dvaldi um tíma á Keflavíkurflugvelli og að lokinni dvöl hér á landi mun hann hafa gefið út tvær breiðskífur í litlu upplagi með upptökum úr Breiðfirðingabúð. Eitt laganna (Gunnar‘s blues) rataði síðar á tvöföldu plötuna Gunnar Ormslev – Jazz í 30 ár, sem gefin var út til minningar um Gunnar Ormslev árið 1983, en á þeirri plötu hafði sveitin hlotið nafn sitt.