Skúli Einarsson (1955-2021)

Skúli Einarsson

Skúli Einarsson, iðulega kenndur við Tannstaðabakka í Hrútafirði var öflugur í tónlistar- og félagsmálum Vestur-Húnvetninga og kom að tónlist með margvíslegum hætti. Eitt frumsamið lag í flutningi hans kom út á safnplötu á tíunda áratug síðustu aldar.

Skúli var fæddur (1955) og uppalinn á Tannstaðabakka í Staðarhreppi og fyrstu skref sín í tónlistinni steig hann sem trommuleikari með skólahljómsveit Héraðsskólans á Reykjum í Hrútafirði um 1970. Trommur voru framan af hans aðal hljóðfæri og þegar hann fluttist suður yfir heiðar átti hann eftir að leika á trommur með sunnlenskum hljómsveitum eins og Hljómsveit Gissurar Geirs og Hljómsveit Stefáns P. en með þeim sveitum lék hann á fjölda dansleikja á Suðurlandi á áttunda áratugnum, einnig lék hann með hljómsveitinni Helfró. Þess má geta að Skúli var um nokkurra ára skeið eigandi frægasta trommusetts landins, sem Gunnar Jökull hafði átt og m.a. notað við upptökur á Trúbrots-plötunni …lifun. Settið er nú til sýnis í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.

Skúli nam söðlasmíði og starfrækti um tíma söðlasmíðaverkstæði á Selfossi en þegar foreldrar hans brugðu búi um miðjan níunda áratuginn fluttist hann ásamt eiginkonu sinni norður í átthaganna og bjó þar síðan. Þau hjónin ráku þar bú á Tannstaðabakka og sinnti Skúli einnig félags-, réttinda- og baráttumálum bændastéttarinnar samhliða bústörfum, auk þess var hann framarlega í öllu menningar- og tónlistarlífi í sveitinni, lék á ótal tónlistarhátíðum og tónleikum og starfaði einnig með hljómsveitum, fyrst með Lexíu sem þá var þegar orðin þekkt sveit en svo með smærri árshátíðar- og þorrablótssveitum eins og Húnabandinu, Dúett og SMS-tríóinu – einnig rak hann hljómsveit um tíma í eigin nafni. Skúli lék bæði á trommur og á gítar í þeim sveitum og var reyndar ómissandi þáttur á skemmtunum í sýslunni sem gítarleikari og stjórnandi fjöldasöngs. Skúli kom að og hélt utan um jólatónleika sem haldnir voru í Húnavatnssýslum um árabil undir yfirskriftinni Jólahúnar en á þeim skemmtunum var blönduð söng- og tónlistardagskrá í umsjá heimamanna.

Skúli tók upp á því kominn á miðjan aldur að nema söng og var það eina formlega tónlistarnámið sem hann fór í, hann kom þá oft fram sem einsöngvari og söng einnig í söngkvartettnum Átakskvartettnum, þá söng hann oft einsöng með Karlakórnum Lóuþrælum (sem hann var einnig meðlimur í) og munaði ekki um að leika á trommur á plötuupptökum með kórnum að auki. Skúli sendi frá sér og söng frumsamið lag og ljóð á safnplötunni Lagasafnið 1: Frumafl sem kom út 1992 en einnig má heyra söng hans á smáskífu sem Hljómsveit Marinós Björnssonar sendi frá sér nokkru síðar.

Skúli lést haustið 2021 eftir erfið veikindi, aðeins sextíu og sex ára gamall.