Sigfús Arnþórsson (1957-)

Sigfús E. Arnþórsson

Nafn tónlistarmannsins Sigfúsar E. Arnþórssonar lætur ekki mikið yfir sér en hann starfaði með fjölda hljómsveita hér fyrrum, samdi eitt vinsælasta dægurlag sem gefið hefur verið út hér á landi og hefur einnig sent frá sér sólólplötu.

Sigfús Eiríkur Arnþórsson er fæddur í Köldukinn í Suður-Þingeyjasýslu (1957) en ólst að einhverju leyti upp á Seyðisfirði þar sem hann komst í tæri við tónlist í fyrsta sinn, hann lærði á píanó og hóf að semja sjálfur tónlist um tólf ára aldur eða um það leyti sem hann fluttist til Akureyrar ásamt fjölskyldu sinni.

Á Akureyri hófst hljómsveitaferill Sigfúsar, hann starfaði þar fyrst sem unglingasveitinni Skýborg en síðan hljómsveitinni Anus. Hann gerðist farandverkamaður um tíma á áttunda áratugnum, bæði hér á Íslandi en einnig í Svíþjóð en kom stöku sinnum aftur til Akureyrar og kom þá fram sem píanóleikari, lék stundum með hljómsveitum en einnig dinner á veitingastöðum o.þ.h.

Á níunda og tíunda áratugnum var Sigfús ýmist á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu en mest þó fyrir norðan, hann lék með fjölmörgum hljómsveitum eins og Flugfrakt, Skarr, Klassík, Namm, Tíglum, Árný trúlofast og Möðruvallamunkunum en með tveimur síðast töldu sveitunum samdi hann lög sem komu út með þeim, þá skemmti hann stundum ásamt Ingjaldi bróður sínum á barnaskemmtunum um jólin fyrir norðan undir nafninu Gott í skóinn.

Í upphafi níunda áratugarins samdi Sigfús sitt þekktasta lag, lagið Endurfundir fyrir hljómsveitina Upplyftingu en það var titillag annarrar plötu þeirrar sveitar og sló eftirminnilega í gegn sumarið 1981. Lagið hefur margsinnis komið út á safnplötum í gegnum tíðina og einnig hefur hljómsveitin Í svörtum fötum gert laginu skil á plötu. Þá átti hann lag í úrslitum Landslagskeppninnar 1989 og hefur einnig í seinni tíð m.a. verið með í Sjómannalagskeppni Rásar 2.

Sigfús hefur komið að tónlist með margs konar hætti, hann annaðist dagskrárgerð bæði á Hljóðbylgjunni á Akureyri og á Rás 2, rak plötubúð á Akureyri og flutti hingað til lands og hélt utan um tónleika The Boys vorið 1994, unga íslenska bræður sem slegið höfðu í gegn í Noregi.

Í kringum aldamótin fluttist Sigfús til Bretlands og hefur verið í London meira og minna síðan þá, hann kom reyndar aftur til Íslands og var hér um tíma, og gaf þá út plötuna Græn ský þar sem hann fékk til liðs við sig nokkra þekkta tónlistarmenn, hún var ellefu laga og hafði að geyma frumsamin lög. Hann hafði þá ekki fengist við tónlist um tíma. Eftir því sem næst verður komist býr Sigfús enn í Bretlandi.

Haustið 2021 sendi Sigfús frá sér aðra ellefu laga plötu með frumsömdu efni en hún ber titilinn Sigfus Eric.

Efni á plötum