Glaumbær [tónlistartengdur staður] (1961-71)

Glaumbær [auglýsing 1964]

Auglýsing frá 1964

Glaumbær er einn fárra skemmtistaða á Íslandi sem hefur fengið á sig allt að goðsagnakenndan blæ, þangað sóttu þúsundir gesta í hverri viku til að skemmta sér við undirleik vinsælustu hljómsveita samtímans þar til staðurinn varð eldi að bráð í árslok 1971.

Húsið sem hét Herðubreið frá upphafi var byggt við Fríkirkjuveg (í sumum tilfellum sagt vera við Skothúsveg) af athafnamanninum Thor Jensen í upphafi 20. aldarinnar og var lengi nýtt sem íshús eða þar til framsóknarflokkurinn eignaðist það um miðjan sjötta áratuginn. Hann var þar með aðsetur og skrifstofur í einhvern tíma en svo fór að húsið var leigt undir þá starfsemi sem það var síðan kunnugt fyrir, hvers kyns menningarstarfsemi s.s. leikhús, veitinga- og skemmtistaður. Þá gekk það undir nöfnum eins og Nýtt leikhús, Fjósið og Stork-klúbburinn áður en félagarnir Ragnar Þórðarson og Theódór Ólafsson leigðu húsið allt og nefndu Glaumbæ, haustið 1961.

Glaumbær var strax innréttaður upp á nýtt með glæsilegum hætti, þar sem boðið var upp á marga smærri sali og herbergi með ótal göngum og ranghölum innan húss, húsinu var þá skipt í megin atriðum upp í þrennt, Glaumbæ, Káetuna og Næturklúbbinn en staðurinn var rekinn sem veitingahús á daginn og kvöldin en síðan umbreyttist hann í skemmtistað þegar leið á kvöldið.

Glaumbær naut strax mikilla vinsælda og varð Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar þeirrar heiðurs aðnjótandi að verða fyrst sveita til að spila í húsinu, þá var Cole Porter söngvari hennar og síðar einnig Sigrún Jónsdóttir. Aðrar hljómsveitir fylgdu í kjölfarið og algengt var að tvær sveitir léku þar sama kvöld, á sinni hverri hæðinni en húsið er þrjár hæðir.

Sigurbjörn Eiríksson (oft kenndur við Vetrargarðinn og síðar við Klúbbinn) sem var umsvifamikill í næturlífinu, keypti reksturinn á Glaumbæ vorið 1963 en þá hafði orðið eitthvert ósætti milli Ragnars og Theódórs, þau kaup urðu reyndar að fullu ekki til lykta leidd fyrr en löngu síðar, reyndar var Sigurbjörn dæmdur um þetta leyti fyrir ávísanafals og kom til greina að ógilda þann samning er þeir Ragnar höfðu gert.

Og Sigurbjörn var áfram umdeildur eftir að hann eignaðist Glaumbæ, ítrekað kom í ljós að staðurinn hleypti miklu fleiri gestum inn í húsið en það hafði leyfi fyrir, grófasta þekkta dæmið var tólf hundruð manns en staðurinn hafði einungis leyfi fyrir um fimm hundruð og fimmtíu manns, og var Glaumbær sviptur svokölluðu framlengingarleyfi að minnsta kosti tvisvar en það þýddi að ekki mátti hafa opið lengur en til miðnættis. Einnig varð staðurinn þekktur fyrir á tímabili að hátt hlutfall gesta var undir þeim aldri sem leyfilegur var í húsinu. Þegar þau mál komu upp voru bæði fjölmiðlar og almenningur tilbúin að verja hagsmuni Glaumbæjar með þeim rökum að aðrir staðir væru sambærilegir hvað gestafjölda og unga gesti varðaði, og því væri um einhvers konar einelti gagnvart Sigurbirni og Glaumbæ að ræða, af hálfu lögreglu og yfirvalda.

Glaumbær brennur

Glaumbær brennur í desember 1971

Glaumbær naut mikilla vinsælda sem fyrr segir og þangað sóttu Reykvíkingar og nærsveitungar í miklum mæli um árabil, reyndar hefur verið talað um Glaumbæjarkynslóðina í þessu samhengi en á þeim tíu árum sem staðurinn starfaði hefur gestafjöldinn sjálfsagt verið nokkur hundruð þúsund. Enn fremur munu skemmtikraftar þeir sem komu fram í húsinu skipta þúsundum, þar er um að ræða fjölda íslenskra og erlendra skemmtikrafta allt frá söngvurum og dönsurum til vinsælla hljómsveita.

Rekstraraðilar komu í veg fyrir stöðnun með fjölbreyttri dagskrá og haustið 1969 voru gerðar viðamiklar breytingar á húsinu sem urðu aðeins til að auka vinsældir hans, tveimur árum síðar var síðan söngleikurinn Hárið settur upp í Glaumbæ en nokkrum dögum eftir að sýningum lauk, þann 4. desember 1971 dundi ógæfan yfir. Um tveimur tímum eftir að staðurinn lokaði varð leigubílstjóri sem átti leið um Fríkirkjuveginn, var við eld á efstu hæð hússins og þegar slökkviliðið hafði lokið sér af snemma morguns var allt innanhúss ónýtt enda innvols timburklætt þótt húsið sjálft væri steinsteypt. Í brunanum missti m.a. hljómsveitin Náttúra öll sín hljóðfæri en sveitin hafði geymt þau í húsinu eftir að hafa leikið í sýningu á Hárinu. Eldsupptök voru rakin til sígarettuglóðar í sófasetti en fyrr um kvöldið höfðu dyraverðir slökkt glóð í sófasetti á þeim stað sem eldurinn kom upp, það hefur þá ekki dugað til.

Dúmbó og Steini - Glaumbær

Dúmbó og Steini notuðu Glaumbæ á plötuumslag

Fljótlega komu upp kröfur frá „Glaumbæjarkynslóðinni“ um að staðurinn yrði endurbyggður og opnaður á nýjan leik sem fyrst, sú umræða var í raun í gangi í tvö ár eftir brunann og sýndist sitt hverjum – íbúar í nágrenni hússins voru því fegnastir þegar ákveðið var að ekki yrði ráðist í opnun Glaumbæjar á nýjan leik.

Hins vegar stóð lengi á að ákveða hvað ætti að gera við húsið, ýmsir vildu rífa það en friðunarsjónarmið komu í veg fyrir það enda var húsið gamalt, sögufrægt og glæsilegt. Borgin hafði einhvern tímann ráðgert að kaupa húsið og á sínum tíma þegar verið var að leita að hentugu húsnæði undir Ríkissjónvarpið (sem tók til starfa 1966) hafði Herðubreið einmitt komið til greina. Það varð þó úr að ákveðið var að húsið yrði nýtt undir Listasafn Íslands, og hófust framkvæmdir við það loks 1976 eftir að húsið hafði legið undir skemmdum í nokkur ár. Þar með lauk óvissunni um Glaumbæ og um leið sögu þessa vinsælasta skemmtistaðar Íslandssögunnar.