Glámur og Skrámur (1971-)

Glámur og Skrámu með Röggu Gísla

Glámur og Skrámur ásamt Röggu Gísla

Þeir félagar Glámur og Skrámur eru vel kunnir fyrir framlag sitt í íslenskri leikbrúðusögu en þeir, og einkum Skrámur heyrast í útvarpi fyrir hver jól.

Saga þeirra Gláms og Skráms nær aftur til 1970 þótt þeir hafi ekki birst landsmönnum fyrr en snemma árs 1971, forsagan var sú að Andrés Indriðason hafði skrifað nokkra leikþætti fyrir Stundina okkar sem þá eins og nú, var á daskrá Sjónvarpsins á sunnudagseftirmiðdögum.

Leikþættir þessir höfðu að geyma tvo grallara, Glám og Skrám og voru þeir bræður, Haraldur og Þórhallur Sigurðssyni (Halli og Laddi) fengnir til að ljá þeim rödd og ásýnd (Gunnar Baldursson hannaði brúðurnar), en þeir bræður störfuðu hjá stofnuninni á þessum upphafsárum sjónvarps á Íslandi. Þess má geta að þeir Halli og Laddi höfðu starfað saman með hljómsveitinni Föxum þegar hér var komið sögu, en höfðu ekki slegið í gegn sem skemmtikraftar – þetta varð hins vegar upphaf þess. Glámur og Skrámur urðu þar með til en fyrirmyndir þeirra voru að einhverju leyti að finna í persónum Sesame street, vinsælu amerísku barnaefni.

Glámur og Skrámur birtust semsé eftir áramótin 1970/71 í Stundinni okkar með uppeldishlaðin fræðsluinnslög og voru líka skemmtilegir, í raun allt aðrir karakterar en síðar heyrðust á jólaplötum. Þeir félagar nutu strax mikilla vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar og fengu sitt pláss í barnatímanum allt til vorsins 1975 en þá tók annað efni við. Ekki var þó almenningur alsáttur með það efni (leikbrúður) sem kom í staðinn og svo fór að Glámur og Skrámur komu aftur til sögunnar í Stundinni okkar haustið 1977.

Í millitíðinni, fyrir jólin 1976 hafði komið út jólaplatan Jólastjörnur þar sem ýmsir kunnir listamenn létu ljós sitt skína, þar á meðal Halli og Laddi í gervi Gláms og Skráms. Á plötunni fluttu þeir jólalagasyrpuna Jólahvað? hvar þeir afbökuðu ýmsa kunna jólaballaslagara og gerðu grín að jólasveininum við miklar vinsældir barna (og fullorðinna), þar með höfðu þeir stimplað sig endanlega inn og varð ekki aftur snúið enda þekkja allir landsmenn ennþá syrpuna góðu.
Járnið var hamrað á meðan það var heitt og barnaplatan Glámur og Skrámur í sjöunda himni leit dagsins ljós 1979 (endurútgefin á geislaplötu 1992), það var Hljómplötuútgáfan sem gaf plötuna út og Andrés samdi handrit að eins konar söngleik um ferðalag sem þeir félagar fara í og heimsækja Sælgætisland, Þykjustuland og Ólíkindaland svo dæmi séu tekin. Laddi og Ragnhildur Gísladóttir sömdu tónlistina, útsettu og stýrðu upptökum, og platan sló rækilega í gegn. Hún fékk góða dóma í Dagblaðinu, Tímanum, Morgunblaðinu, Lesbók Morgunblaðsins og Þjóðviljanum en slakari í Helgarpóstinum. Mörg laganna, Tannpínupúkinn (hann er tannlaus greyið), Þetta er mikið namminamm og Söngur súkkulaðiprinsessunnar nutu gríðarlegra vinsælda.

Fyrir jólin 1984 birtist Skrámur en nú einn á ferð á plötu HLH flokksins, Jól í góðu lagi, þegar lagið Skrámur skrifar jólasveininum gerði allt vitlaust, og hann minnti aftur á sig ári síðar á sólóplötu Ladda þar sem hann söng um Tóta tölvukall ásamt félaga sínum, Eiríki Fjalar. Og enn og aftur við miklar vinsældir. Í þessum tveimur lögum birtist nýr ímynd dúkkunnar, ímynd sem hafði að geyma kæruleysistöffaratýpu af Skrámi mengaðan af slæmu málfari útbíað enskuslettum, gjörólíkan þeirri fyrirmyndarútgáfu með sitt uppeldisgildi sem Andrés hafði skapað mörgum árum fyrr.

Þegar útvarpsstöðin Bylgjan leitaði til Ladda með að gera stutta þætti með þeim Glámi og Skrámi haustið 1993 sem síðan voru fluttir á stöðinni, fór Andrés fram á lögbann á Glám og Skrám enda leit hann svo á að hann ætti höfundarréttinn af þeim auk þess sem honum þótti ímynd þeirra hafa beðið hnekki. Einhver skoðanaskipti urðu um málið í fjölmiðlum eins og gera mátti ráð fyrir og var deilan kölluð forræðisdeilan um Glám og Skrám af gárungunum. Hún var ekki til lykta leidd fyrr en 1995 og var þá lögbanninu aflétt, niðurstaðan var sú að Andrés ætti vissulega höfundarréttinn en litið var svo á að Halli og Laddi hefðu skapað persónurnar og þar með raddirnar.

Lög Gláms og Skráms heyrast enn reglulega í útvarpi enda hafa þau fyrir margt löngu skapað sér sígildi, þau hafa einnig ratað á fjölmargar safnplötur fyrr og síðar, s.s. Jólagleði (1983), Barnagull (1986), Barnalög (1993), Nokkur bestu barnalögin (1997), Stóra barnaplatan (1997), Jólagleði: jólalög barnanna (2000), Stóra barnaplatan (2000), Pottþétt barnajól (2001), Litla barnaplatan (2002), Stóra barnaplatan 3 (2002) og safnplata Ladda, Jóla hvað? (2007), svo nokkur dæmi séu tekin.

Að lokum má geta þess að hljómsveitin Skítamórall gaf út lagið Tannpínupúkann á plötu sinni Súper, sem út kom 1996.

Efni á plötum