Oddfellowhúsið [tónlistartengdur staður] (1932-79)

Oddfellowhúsið í upprunalegu útgáfunni

Margir Íslendingar sem komnir eru vel yfir miðjan aldur muna eftir dansleikjum í Oddfellowhúsinu við Vonarstræti en í húsnæðinu voru reknir veitinga- og skemmtistaðir um árabil, fyrst Tjarnarcafé og síðan Tjarnarbúð.

Það var Oddfellow reglan lét byggja húsið sem stendur við Vonarstræti 10 í miðbæ Reykjavíkur og var það vígt í lok árs 1932, það var Þorleifur Eyjólfsson sem hafði teiknað húsið í kjölfar samkeppni en talað hefur verið það sem hið fyrsta sem bar stefnu fúnkisma skýru merki. Húsið var upphaflega byggt með flötu þaki og útsýnisturni en síðar var ris byggt ofan á það og turninn hækkaður, það var reyndar gert án vitundar Þorleifs.

Húsið er á fjórum hæðum og var neðsta hæðin notuð undir veitinga- og skemmtistaði, þar var fljótlega farið að halda dansleiki en einnig voru samkomur af annars konar tagi haldnar í húsinu, stofnfundir fjölmargra félaga hafa t.a.m. verið haldnir þar. Á þessum fyrstu árum hússins léku fjölmargar hljómsveitir fyrir dansi þar, m.a. hljómsveitir Aage Lorange og Jose Riba.

Það var svo sumarið 1943 sem Loftleiðir tók við rekstrinum á jarðhæðinni og hóf að reka þar Tjarnarcafé (Tjarnarkaffi) en sá staður starfaði allt til ársins 1964. Á því ríflega tveggja áratuga skeiði léku margar af þekktustu og vinsælustu hljómsveitum landsins á staðnum og nægir þar að nefna Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Gunnars Ormslev og síðast en ekki síst KK-sextettinn en það var einmitt í Tjarnarcafé sem Elly Vilhjálms kom í fræga söngprufu sumarið 1953 á vegum KK-sextetts og varð ein þekktasta söngkona íslenskrar tónlistarsögu í kjölfarið.

Oddfellowhúsið í dag

Haustið 1964 tóku feðgarnir Ragnar Jónsson og Jón Ragnarsson sonur hans við rekstri staðarins og gekk hann eftir það undir nafninu Tjarnarbúð, margir kölluðu hann þó áfram Tjarnarcafé. Þeir feðgar ráku staðinn í um fimm ár og ekki virðist hafa verið mikið um opið skemmtanahald á þeim árum en þeim mun meira um einkasamkvæmi, árshátíðir og þess háttar samkomur. Jazzklúbbur Reykjavíkur var þarna um tíma með uppákomur fyrir tilstuðlans Þráins Kristjánssonar, og léku þar t.a.m. fjölmargir erlendir djassleikarar þar í bland við íslenska. Eftir 1968 varð Tjarnarbúð opinn skemmtistaður með lifandi tónlist og þannig var hann rekinn fram á sumarið 1977 en staðnum var svo endanlega lokað sumarið 1979. Fjölmargar þekktar hljómsveitir léku í Tjarnarbúð síðasta áratuginn og m.a. má þar nefna sveitir eins og Eik, Icecross, Pelican og Roof tops, síðust hljómsveita þar til að koma fram var líklega HLH flokkurinn sumarið 1979. Húsið var jafnframt alltaf vettvangur funda, basara, bingóa og annarra samkoma.

Þess má geta að Tjarnarbúð varð vettvangur frægs fundar sem haldinn var þann 21. desember 1968 en að honum stóð fólk sem var að mótmæla stríðinu í Víetnam, eftir fundinn stóð til að fara blysför um miðbæinn en þá sló í brýnu milli mótmælenda og lögreglu sem stigmögnuðust og í kjölfarið tveimur dögum síðar urðu alvarlegri átök sem síðar hefur verið kallaður Þorláksmessuslagurinn og telst meðal alvarlegustu uppákomum sem hér á landi hafa orðið.

Oddfellow-reglan er auðvitað enn í dag eigandi hússins og er þar með daglega starfsemi en hér er einungis fjallað um það tímabil er í húsinu voru reknir vinsælir skemmtistaðir með lifandi tónlist.