Stormar [1] (1963-69 / 1998-2017)

Stormar frá Siglufirði

Bítlasveitin Stormar var líklega fyrsta siglfirska hljómsveitin sem eitthvað lét að sér kveða fyrir utan Gauta en sveitin naut mikilla vinsælda fyrir norðan og gerðist reyndar svo fræg að koma suður og leika fyrir Reykvíkinga og nærsveitunga í Glaumbæ.

Tvennar sögur fara af því hvenær Stormar voru stofnaðir, heimildir segja bæði 1963 og 64 en fyrrnefnda árið er líklega rétt, fyrsta útgáfa af sveitinni sem stofnuð var upp úr Los Banditos var líklega skipuð þeim Hallvarði Óskarssyni trommuleikara, Theódóri Júlíussyni söngvara, Gesti Guðnasyni gítarleikara og Ómari Haukssyni bassaleikara. Þeir voru þá allir á grunnskólaaldri og léku fyrst um sinn mest á skólaböllum en síðar víðar á Siglufirði og nágrannabyggðum. Á þessum fyrstu árum sveitarinnar lék sveitin oft á dansleikjum ungtemplara fyrir norðan og var jafnvel talað um hana sem bindindishljómsveit í fjölmiðlum.

Einhverjar mannabreytingar urðu í Stormum, þannig tók Árni Jörgensen líklega við bassanum af Ómari en hér er giskað á að Ómar hafi fært sig yfir á gítar, einnig komu við sögu sveitarinnar þeir Rafn Erlendsson trommuleikari, Jósep Blöndal píanóleikari (faðir Smára Tarfs Jósepssonar gítarleikara) og Friðbjörn Björnsson gítarleikari (faðir Björns Jr. Friðbjörnssonar), Rúnar Egilsson hefur einnig verið nefndur í því samhengi en ekki liggur fyrir á hvað hann spilaði.

Stormar leika á bryggjunni á Siglufirði

Sumarið 1966 urðu Siglfirðingarnir svo frægir að fara suður til Reykjavíkur til að leika í Glaumbæ sem þá var vinsælasti skemmtistaður landsins, sveitin lék líklega einnig í Lídó og í Breiðfirðingabúð um svipað leyti svo segja má að þeir félagar hafi þá fengið sinn skerf af fimmtán mínútna frægð, við svo bættist að sveitin kom fram í Ríkissjónvarpinu á allra fyrstu dögum þess en það hóf göngu sína þá um haustið. Til er frægt myndband með sveitinni þar sem þeir leika fyrir dansi á bryggjunni á Siglufirði en ekki liggur fyrir hvort um sömu upptöku er að ræða og sýnd var í sjónvarpinu.

Stormar munu hafa hætt störfum árið 1969, menn voru þá komnir með fjölskyldur og tíndust hver í sína áttina svo ekki var útlit fyrir að þeir myndu spila saman á nýjan leik. Það átti þó eftir að gerast árið 1991 eftir tuttugu og tveggja ára pásu að sveitin kom saman á nýjan leik, tveimur árum síðar var hún fengin til að leika á Síldarævintýrinu á Siglufirði um verslunarmannahelgina en svo virðist sem ekki hafi orðið framhald á samstarfinu eftir það í bili.

Stormar 1998

Það var svo sumarið 1998 að Stormar komu saman til að minnast þess að þrjátíu og fimm ár voru liðin frá stofnun sveitarinnar og þrjátíu ár síðan hún hætti, og í framhaldinu átti hún eftir að starfa nokkuð samfleytt næstu árin. Meðlimir hennar þá voru þeir Árni gítarleikari, Friðbjörn gítarleikari, Hallvarður trymbill, Jósep píanóleikari, Ómar bassaleikari og Theódór söngvari og gítarleikari svo sveitin var æði fjölmenn. Þeir félagar höfðu nógu gaman af tiltækinu til að halda áfram störfum og næstu árin átti hún eftir að spila í fáein skipti á hverju ári, oft t.d. á Siglóböllum á veitinga- og skemmtistaðnum Broadway. Lengra leið á milli gigga þegar liðið var á nýja öld en svo bætti hún aftur í og lék t.d. árlega um tíma í félagsheimilinu Ketilási þar sem aldurstakmarkið var 45 ár. Stormar störfuðu líklega til ársins 2017 og létu þá við svo búið.

Ekki liggur fyrir hvort sveitin vann einhvern tímann með frumsamið efni en líklega hefði þá ekki þurft mikið til að Svavar Gests eða aðrir plötuútgefendur hefðu litið til þeirra með plötuútgáfu í huga.