Stormar [3] (1971-78)

Stormar

Hljómsveitin Stormar starfaði um árabil mest allan áttunda áratug síðustu aldar á höfuðborgarsvæðinu, sérhæfði sig í gömlu dönsunum og lék einkum í Templarahöllinni og slíkum stöðum.

Stormar voru líklega stofnaðir um mitt ár 1971 og um haustið voru þeir farnir að leika fyrir dansi í Templarahöllinni við Eiríksgötu. Næstu mánuðina var sveitin eins konar húshljómsveit þar en á næstu árum lék sveitin einnig í veitingahúsinu við Lækjarteig, Glæsibæ og Hótel Borg þar sem einkum var leikið fyrir fólk af eldri kynslóðinni en sveitin mun einnig hafa komið fram á stöðum eins og Glaumbæ. Svo virðist sem Stormar hafi jafnframt leikið á dansleikjum á landsbyggðinni yfir sumartímann, að minnsta kosti nokkur sumur. Stormar störfuðu af því er virðist samfleytt allt til ársins 1978 en hætti þá, sveitin var endurvakin um vorið 1983 en virðist ekki hafa starfað lengi.

Storma skipuðu þeir Júlíus Sigurðsson saxófón- og cordovoxleikari (rafmagnsharmonikka), Þorkell Snævar Árnason gítarleikari, Garðar Karlsson gítarleikari, Guðjón Ingi [?], Ólafur Benediktsson trommuleikari og Lárus Hjaltested bassaleikari en að öllum líkindum störfuðu þeir ekki allir á sama tíma í sveitinni, og gott væri að fá frekari upplýsingar um það.