Stormsveitin [1] (1979-81)

Stormsveitin á sviði

Hljómsveit var starfrækt á höfuðborgarsvæðinu í kringum 1980 undir nafninu Stormsveitin, hún lék djassrokk eða eins konar djassbræðing en þá var nokkurs konar bræðingsvakning hérlendis og skemmst er að minnast Mezzoforte í því samhengi.

Stormsveitin var stofnuð vorið 1979 upp úr hljómsveitunum Reykjavík og Rokkóperu og voru meðlimir hennar sexmenningarnir Björn Thoroddsen gítarleikari, Ágúst Ragnarsson gítarleikari, Hjörtur Howser hljómborðsleikari, Brynjólfur Stefánsson bassaleikari, Einar Jónsson [blásari?] og Eyjólfur Jónsson trommuleikari. Sveitin lagði alla tíð áherslu á frumsamið efni sem var eins konar instrumental djassrokk sem fyrr er getið, og hljóðritaði reyndar nokkur slík sem þeir fóru með til Bandaríkjanna í því skyni að freista þess að fá útgefanda.

Stormsveitin

Sveitin lék heilmikið um sumarið 1979 en árið 1980 voru þeir Björn og Hjörtur eitthvað fjarverandi en þeir voru þá við nám í Bandaríkjunum, ekki er víst að sveitin hafi lagst í dvala á meðan – allavega spilaði hún töluvert. Stormsveitin starfaði þó ekki lengi og líklega voru þeir orðnir fjórir undir það síðasta. Stormsveitin starfaði annað hvort fram á haustið 1980 eða eitthvað fram á nýtt ár (1981), sveitin hafði þá leikið inn á tveggja laga plötu Jóns Rafns Bjarnasonar.