Stífgrím kombóið (1980-82)

Stífgrím

Stífgrím kombóið var angi af pönkvakningunni sem átti sér rætur í Kópavogi í kringum 1980 þó svo að sveitin tilheyrði strangt til tekið ekki pönkinu tónlistarlega séð, sveitin á sér nokkuð merka sögu.

Þeir Steinn Skaptason og Kristinn Jón Guðmundsson höfðu um tíma átt sér draum um að stofna hljómsveit sem væri í anda sjöunda áratugarins sem var ekki beinlínis í takti þess sem þá var að gerast í Kópavoginum en hljómsveitir eins og Fræbbblarnir og Snillingarnir höfðu þá verið að leika pönktónlist.

Þegar úr varð að þeir stofnuðu sveitina í apríl mánuði 1980 var tónlistin þó langt frá því að vera sixties en má miklu fremur flokka undir gjörningatónlist enda voru þeir félagar bara tveir, Steinn sem lék á trommur og önnur ásláttarhljóðfæri (reyndar lék hann á píanó í fyrstu skiptin sem sveitin kom fram) og Kristinn sem söng og sá um upplestur ljóða. Undir lokin lék Steinn svo einnig á bassa.

Stífgrím kombóið

Nafn sveitarinnar, Stífgrím má rekja beint til lífskúnstersins og fjöllistamannsins Stefáns Grímssonar sem þá var þegar orðinn litríkur karakter í Kópavoginum og fyrirmynd þeirra félaga, þess má geta að Stefán sá hinn sami rataði nokkrum árum síðar á plötuumslag hljómsveitarinnar S.h. draumur – Goð, sem einnig átti rætur sínar að rekja í Kópavoginn.

Stífgrím kom í fyrsta sinn fram nokkrum dögum eftir að dúóið var stofnað, í hæfileikakeppni sem haldin var í Kópavogi en sveitin mun hafa verið stofnuð gagngert til að taka þátt í henni, þar unnu þeir félagar til verðlauna fyrir besta frumsamda efnið.

Í kjölfarið kom sveitn fram á fjölmörgum tónleikum, mestmegnis í Kópavoginum en yfirleitt höfðu þeir aukamannskap sér til fulltingis þótt þeir væru í rauninni dúett. Hér má nefna Skúla Bjarnason gítarleikara, Svein Ólafsson víbrafónleikara, Tryggva Valgeirsson trommuleikara, Birgi Baldursson trommuleikara og Björk Guðmundsdóttur söngkonu og hljómborðs-, gítar-, flautu- og ásláttarleikara en þau tvö síðast töldu komu fram með Stífgrím á frægum maraþontónleikum sem SATT stóð fyrir haustið 1982 þar sem fjöldinn allur af hljómsveitum kom fram – sveitin lék þar eins og aðrar slíkar í sex klukkustundir og voru níutíu mínútur af þeim hljóðritaðar og hluti þess gerður aðgengilegur á Soundcloud-vefsíðunni löngu síðar. Á þeim upptökum má m.a. heyra cover-efni á borð við lagið Bereft sem Mogo Homo hafði flutt í Rokk í Reykjavík, Bítlalagið Lucy in the sky with diamonds og tvö lög með Lúdó & Stefáni, Ólsen Ólsen og Því ekki að taka lífið létt.

Stífgrím í New York

Dúóið var töluvert virkt á því tveggja ára skeiði sem hún starfaði og kom fram á þriðja tug tónleika og mun hafa viðhaft ýmis konar gjörninga á sviðinu sem sumir hverjir áttu fremur litla samleið með tónlist en meiri við pönk, þannig reif Steinn t.a.m. veggspjöld með myndum af frambjóðendum fyrir forsetakosningarnar sumarið 1980 og einhverjar fleiri umdeildar uppákomur áttu sér stað á tónleikum sveitarinnar.

Stífgrím kombóið starfaði þar til undir lok ársins 1982 en síðustu tónleikar sveitarinnar voru í Djúpinu við Hafnarstræti, þá skipuðu sveitina þau Kristinn Jón, Steinn og Björk (sem þá lék á gítar). Tveimur árum síðar (1984) var hljómsveitin Ást stofnuð upp úr Stífgrím og í raun var um sömu sveit að ræða en fjölmennari. Sú sveit starfaði þar til Kristinn Jón flutti til Bandaríkjanna en hann dvaldi í New York í þrjá áratugi, þegar hann kom aftur heim til Íslands laust eftir 2015 var Stífgrím endurreist árið 2017 og lék á fimm tónleikum næstu þrjú árin í Reykjavík og Ísafirði, m.a. á tónlistarhátíðinni Fullveldispönk.

Á sviði Hard Rock 2019

Töluvert af efni mun vera til hljóðritað frá tónleikum Stífgrím, þökk sé Trausta Júlíussyni og Stefáni Grímssyni, og eitt lag hefur ratað inn á safnútgáfu – það var „þekktasta“ lag sveitarinnar, Dansskóli Heiðars Ástvaldssonar á [Hrátt] Pönksafn sem kom út árið 2016 á vegum Erðanúmúsík, sú upptaka er frá tónleikum á Rútstúni í Kópavogi sumarið 1980 og skipuðu sveitina þá þeir Kristinn Jón, Steinn og Skúli.

Efni á plötum