Gleðjist! Fagnið! Dómkórinn flytur Jólaóratoríuna í Hallgrímskirkju

Víða um lönd finnst fólki engin jól koma nema það fái að heyra Jólaóratoríu Jóhanns Sebastíans Bach. Dómkórinn í Reykjavík ætlar að afstýra þeirri tómleikatilfinningu með því að flytja þetta dásamlega verk í Hallgrímskirkju laugardaginn 24. nóvember kl. 17:00. Kórinn fær til liðs við sig tuttugu manna hljómsveit og fjóra einsöngvara: Hallveigu Rúnarsdóttur sópran, Hönnu Dóru Sturludóttur alt, Benedikt Kristjánsson tenór og Jóhann Kristinsson bassa.

Bach samdi þetta verk á sínum tíma til flutnings í Tómasarkirkjunni í Leipzig um jólin 1734. Það er í sex þáttum og var flutt við jafnmargar messur um jól og fram á þrettándann. Samanlagt tekur verkið um þrjá tíma í flutningi og frekar sjaldgæft að það sé flutt í heild sinni á tónleikum. Dómkórinn flytur að þessu sinni fjóra þætti, númer 1, 3, 5 og 6, en þeir eru um það bil tveir tímar að lengd.

Auk einsöngvaranna bætist kórnum liðsauki um 20 söngvara svo alls verða hátt í 100 manns að verki í Hallgrímskirkju að meðtöldum stjórnandanum Kára Þormar dómorganista og konsertmeistaranum Unu Sveinbjarnardóttur. Þarna gefst því góður kostur að koma sér í jóla- og aðventuskapið eins og segir í upphafsorðum verksins: Gleðjist! Fagnið!

Miðar á tónleikana fást á Tix.is og kosta 5.900 krónur. Þeir verða einnig seldir við innganginn ef einhverjir verða eftir þá.