Afmælisbörn 29. september 2022

Óli Ágústsson

Sex afmælisbörn koma við sögu á skrá Glatkistunnar í dag:

Óli Ágústsson söngvari er áttatíu og sex ára gamall í dag, hann var einn þeirra fyrstu sem lagði rokksöng fyrir sig á Íslandi á seinni hluta sjötta áratug síðustu aldar. Hann var iðulega kallaður Óli rokkari eða Óli Presley en hann sérhæfði sig í lögum Elvis Presley, síðar varð hann áberandi í tónlist trúarlegs eðlis en hann veitti meðal annars hvítasunnusöfnuðinum Samhjálp forstöðu.

Bassaleikarinn og söngvarinn góðkunni Pálmi Gunnarsson er sjötíu og tveggja ára gamall í dag, sá hefur komið harla víða við á sínum ferli. Þar má fyrst nefna blómlegan sólóferil en einnig samstarf með Magnúsi Eiríkssyni og fleirum í Mannakornum, Friðryk, Póker, Brunaliðið, Blúskompaníið, Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og Icy hópurinn en í því síðast talda var Pálmi einmitt í fyrsta Eurovision hópnum margfræga sem söng Gleðibankann árið 1986.

Ari Agnarsson tónlistarmaður er sextíu og tveggja ára gamall í dag, hann hefur leikið á flest hljóðfæri frá harmonikkum til trommusetta í hljómsveitum eins og Rósinni okkar, Misgenginu og Mandala. Ari hefur ennfremur unnið við upptökur á plötum hljómsveitarinnar Plútó sem skipuð er fötluðum einstaklingum en hann hefur einmitt starfað hjá Fjölmennt við tónlistarkennslu.

Birgir Þórarinsson eða bara Bigga veira er fimmtíu og fjögurra ára gamall í dag. Hann er einn af fremstu tónlistarmönnum okkar í dans-, ambient- og technogeiranum og hefur starfað með sveitum eins og T-World og Gus Gus en með síðarnefndu sveitinni hefur hann starfað frá upphafi og var einn af stofnendum hennar.

Tónlistarmaðurinn Hjörvar Hjörleifsson á fjörutíu og níu ára afmæli í dag. Hjörvar á að baki þrjár sólóplötur, þar af eina undir nafninu Stranger en hann hefur jafnframt starfað með fjölda hljómsveita sem söngvari og gítarleikari í gegnum tíðina. Þetta eru hljómsveitir eins og Los gums, Los, Monotone, Guði gleymdir og Mozart var ýktur spaði.

Jóhannes G. Jóhannesson tónlistarmaður (1901-88) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann kom að ýmsum hliðum tónlistarinnar, hann lék á harmonikku bæði einn og með hljómsveitum, samdi tónlist og annaðist einnig hljóðfæraviðgerðir. Hann varð svo frægur að leika inn á fyrstu plötu á Íslandi sem hafði að geyma „danstónlist“ en það var árið 1933.

Vissir þú að óperusöngkonurnar Ingveldur og Sigurveig Hjaltested voru systur?