Stolía (1994-99)

Stolía

Hljómsveitin Stolía vakti nokkra athygli um miðjan tíunda áratug síðustu aldar en hún varð þá í öðru sæti Músíktilrauna og sendi frá sér tíu laga breiðskífu tveimur árum síðar sem hlaut góða dóma gagnrýnenda, sveitin galt hins vegar fyrir það að spila instrumental tónlist og hlaut fyrir vikið litla sem enga spilun á útvarpsstöðvum landsins.

Stolía var úr Hafnarfirði og var hluti af þeirri tónlistarvakningu sem þá var í Firðinum en sveitir eins og Botnleðja, Bubbleflies, Woofer, Stæner og Súrefni svo nokkrar séu nefndar voru þá töluvert áberandi. sveitin var stofnuð árið 1994 sem tríó en birtist fyrst á sjónarsviðinu vorið 1995 í Músíktilraunum Tónabæjar þar sem hún komst alla leið í úrslitin og hafnaði þar í öðru sæti á eftir öðru hafnfirsku tríói, Botnleðju. Meðlimir Stolíu voru þá Jóhann Gunnarsson bassaleikari, Einar Logi Sveinsson gítarleikari og Arnar Þór Gíslason trommuleikari, þess má svo geta að bróðir Arnars, Haraldur Freyr var einmitt trymbill sigursveitarinnar Botnleðju. Tónlist Stolíu, eins konar fusion rokk féll því vel í kramið hjá dómnefnd Músíktilraunanna (og áhorfendum) því auk þess að landa öðru sætinu fengu þeir Arnar og Jóhann verðlaun sem bestu trommu- og bassaleikarar keppninnar.

Stolía

Í kjölfar Músíktilraunanna spilaði Stolía heilmikið á tónleikum um sumarið, m.a. á Rykkrokktónleikunum en minna fór fyrir henni veturinn á eftir. Næstu tvö árin má segja að Stolía hafi leikið nokkuð stöðugt en vorið 1996 átti sveitin tvö lög á safnplötunni Drepnir sem hafði að geyma efni með hafnfirsku tónlistarfólki.

Stolía mun á einhverjum tímapunkti hafa bætt við sig manni, heimild hermir að það hafi verið Benjamín J. Kline sem lék á þverflautu og fleiri blásturshljóðfæri í sveitinni og einnig hafi hann sungið. Hann mun hafa verið um tveggja ára skeið í Stolíu. Í hans stað kom hins vegar hljómborðsleikarinn Unnar Bjarnason snemma árs 1997 en síðar það ár sendi Stolía frá sér sína fyrstu og einu breiðskífu, plötuna Flýtur vatn sem Rafn Jónsson og R&R músík gáfu út. Skífan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og mjög góða í DV og endaði reyndar ofarlega í ársuppgjöri síðarnefnda blaðsins um áramótin.

Árið 1998 héldu þeir félagar eitthvað áfram að leika á tónleikum en náðu aldrei almennilega eyrum fólksins enda söngvaralausir, þeir munu þó hafa farið til Hollands til að leika fyrir þarlenda um sumarið og um svipað leyti átti sveitin tvö lög á safnplötunni Flugan. Veturinn 1998-99 fór minna fyrir Stolíu, þeir spiluðu þó töluvert um sumarið 1999 en smám saman fjaraði undan sveitinni og hún virðist hafa hætt störfum þá um haustið, og þar með lauk sögu hennar.

Efni á plötum