Jóhannes G. Jóhannesson [1] (1901-88)

Jóhannes G. Jóhannesson1

Jóhannes G. Jóhannesson

Jóhannes G. Jóhannesson (hinn eldri) var lagahöfundur, harmonikkuleikari og hljóðfæraviðgerðarmaður en meðal verka hans var harmonikkusmíði.

Jóhannes Gunnar Jóhannesson fæddist 1901 á Tjörnesi í Suður-Þingeyjasýslu en fluttist ungur ásamt fjölskyldu sinni til Patreksfjarðar þar sem hann bjó fram á fullorðinsár. Á Patreksfjarðarárum sínum eignaðist Jóhannes sína fyrstu harmonikku en hann var þá einungis sex ára gamall, hann byrjaði að leika á dansleikjum um fermingu en lærði þó aldrei að lesa eða skrifa nótur.

Jóhannes fluttist suður á höfuðborgarsvæðið um átján ára aldur og starfaði um tíma við ullarverksmiðjuna á Álafossi, þar lék hann oft á starfsmannaskemmtunum og -dansleikjum. Hann lærði bifvélavirkjun og starfaði við þá iðn lengi vel einnig.

Jóhannes lék ennfremur með hljómsveitum sem margar hverjar sérhæfðu sig í gömlu dönsunum, þar á meðal má nefna Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar og Hljómsveit Jónatans Ólafssonar en hann starfrækti einnig ásamt Færeyingnum Guðmundi Hansen J.H. kvintettinn um árabil.

Toppnum á tónlistarferlinum var þó líklega náð þegar hann lék á harmonikku ásamt P.O. Bernburg Orkester (sem var hljómsveit undir stjórn Poul Bernburg) á þriggja laga 78 snúninga plötu sem kom út 1933 en það var fyrsta útgefna hljómplatan á Íslandi sem hafði að geyma „danstónlist“ en fram að því höfðu einungis komið út plötur með þyngri tónlist.

En Jóhannes var einnig hljóðfærasmiður og rak um árabil eigið viðgerðarverkstæði á Mánagötu, það var hans aðalstarf um átta ára skeið. Fáeinum árum síðar smíðaði hann við annan mann nokkrar harmonikkur úr plasti sem voru m.a. til sýnis á iðnsýningu sem haldin var haustið 1952, þær nikkur hlutu nafnið Tónalín.

Jóhannes var ennfremur lagahöfundur og samdi fjölda söng- og dægurlaga, hann tók t.a.m. þátt í danslagakeppnum S.K.T. og vann til einhverra verðlauna fyrir lagasmíðar sínar. Einhver þeirra komu út og t.d. söng Erla Þorsteins lög eftir hann (t.d. Á góðri stund og Stungið af) sem komu út á plötum á sjötta áratugnum. Finnski harmonikkuleikarinn Tatu Kantomaa sem bjó hérlendis í nokkur ár gaf út plötuna Kveðju (2008) en hún hafði að geyma sautján lög eftir Jóhannes.

Jóhannes bjó í Borgarnesi síðustu æviár sín en lék lítið á harmonikku á efri árum vegna liðagigtar, hann var á þeim árum gerður að heiðursfélaga Harmonikuunnenda Vesturlands (HUV).

Jóhannes lést 1988.

Efni á plötum