Einar B. Waage (1924-76)

Einar B. Waage

Einar B. Waage

Einar B. Waage kontrabassaleikari var einn af frumkvöðlunum í íslensku tónlistarlífi á tuttugustu öldinni og var síðar framarlega í félagsstörfum fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna.

Einar (Benediktsson) Waage fæddist 1924 en hann var af miklum tónlistarættum, móðir hans var Elísabet Einarsdóttir systir Einars, Sigurðar og Maríu Markan en allt var það mikið söngfólk. Af honum er einnig ýmist þekkt tónlistarfólk komið, t.a.m. dætur hans hálfsysturnar Elísabet Waage hörpuleikari og Elísabet Waage söngkona, og Gunnar Waage trymbill. Pétur Östlund trommuleikari var ennfremur sonur Maríu Markan móðursystur Einars.

Einar hafði tónlistargáfu og var snemma farinn að spila og syngja með hljómsveitum, hann var t.d. í Swingtríóinu 1940 aðeins sextán ára gamall og ári síðar var hann farinn að syngja og leika með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar. Hann var um þetta leyti þegar farinn að nema fiðluleik hjá Birni Ólafssyni og kontrabassaleik hjá Fritz Weisshappel en mun einnig hafa leikið á saxófón og jafnvel fleiri hljóðfæri. Hugur hans stefndi þó út til Bandaríkjanna til frekara nám og þangað fór hann og nam kontrabassafræðin hjá Frederick Zimmermann í Juilliard tónlistarháskólanum í New York, Einar var þar í miklu uppáhaldi hjá Zimmermann, sem var sjálfur fyrsti bassaleikari New York fílharmóníusveitarinnar.

Þegar Einar kom aftur heim til Ísland (1945) hóf hann að kenna kontrabassaleik og fljótlega varð ljóst að hann hefði fært bassaleikarastandardinn á hærra stig í landinu, síðar hefur hans verið minnst sem eins af frumkvöðlum íslensks tónlistarlífs ásamt Svavari Gests, Kristjáni Kristjánssyni (KK), Þórarni Guðmundssyni og fáeinum öðrum sem námu tónlist á erlendri grundu og færðu hana heim á æðra stig.

Hér heima lék hann síðan með ýmsum hljómsveitum, s.s. hljómsveitum Aage Lorange, Carls Billich, Josef Felzmann, Jónatans Ólafssonar og Baldurs Kristjánssonar svo einhverjar séu nefndar, Einar lék ennfremur með Útvarpshljómsveitinni 1946-50 (forvera Sinfóníuhljómsveitar Íslands) auk þess að vera fyrsti kontrabassaleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar hún var stofnuð 1950. Einar lék með Sinfóníuhljómsveitinni til dauðadags auk þess að gegna ýmsum störfum innan sveitarinnar eins og formennsku í starfmannafélagi hennar um tíma. Hann gegndi ýmsum öðrum félagsstörfum, s.s. fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), var til að mynda varaformaður þess um árabil. Hin síðari ár stundaði hann kaupmennsku samhliða tónlistarkennslu.

Einar lék inn á nokkrar 78 snúninga plötur á ferli sínum, flestar voru þær með söngvaranum Alfreð Clausen og komu út á sjötta áratugnum. Hann lék líka á plötum með Svavari Lárussyni, Sigurði Ólafssyni og Ingibjörgu Þorbergs. Þessi lög hafa mörg hver verið endurútgefin og heyrast á ýmsum safnplötum síðari tíma.

Einar lést haustið 1976 aðeins fimmtíu og tveggja ára gamall.