Einar Vigfússon (1927-73)

Einar Vigfússon sellóleikar 19621

Einar Vigfússon

Einar Vigfússon var einn af fremstu sellóleikurum þjóðarinnar um árabil en hann féll frá á sviplegan hátt langt fyrir aldur fram.

Einar var fæddur 1927, lærði fyrst á selló hér heima og vakti snemma athygli fyrir færni sína á hljóðfærið. Hann fór í framhaldsnám til London og kom heim úr námi 1949, þá tuttugu og tveggja ára gamall. Fjöldi verkefna beið hans hér, hann varð þegar sellóleikari útvarpshljómsveitarinnar og fyrsti sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá stofnun 1950 og nánast til æviloka, hann gegndi einnig stöðu konsertmeistara um tíma. Hann lék lengi með Strokkvartett Tónlistarskólans og Kvartett Björns Ólafssonar og kom oft fram með þeim opinberlega. Hann var því tíður gestur í útvarpssal og hafa einhverjar upptökur varðveist með honum hjá Ríkisútvarpinu og einnig danska ríkisútvarpinu, engar þeirra hafa þó verið gefnar út svo kunnugt sé. Samhliða þessu kenndi hann á selló og nutu margir þekktir sellóleikarar kennslu hans um lengri og skemmri tíma, s.s. Gunnar Kvaran og Hafliði Hallgrímsson svo einhverjir séu nefndir. Einar Vigfúss er því réttilega nefndur einn frumkvöðla í sellóleik á Íslandi. Einar sinnti einnig félagsstörfum fyrir Félag íslenskra tónlistarmanna og Félag íslenskra hljómlistarmanna, var til dæmis gjaldkeri FÍH.

Einar hvarf af heimili sínu um nótt snemma hausts 1973 og röktu sporhundar slóð hans í sjóinn við Ægissíðu, lík hans fannst hins vegar aldrei. Hann hafði þá átt í einhverjum veikindum, svo að hann gat ekki leikið á sellóið og var talið að einhvers konar þunglyndi af þess völdum hafi valdið því að hann hafi tekið líf sitt. Honum var líst sem sérlunduðum listamanni sem lifði fyrir tónlistina, hann hafi til að mynda átt erfitt með að samræma heimilisskyldur og tónlistarlífið eins og það var orðað, og þetta hafi hreinlega orðið honum um megn. Minningarathöfn var haldin um Einar árið eftir (vorið 1974) og um svipað leyti flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verk eftir Jón Nordal sem tónskáldið samdi til minningar um hann.