Afmælisbörn 15. júní 2024

Halldór Pálsson

Í dag eru fimm afmælisbörn á listanum:

Athafnamaðurinn Sigurjón Sighvatsson (iðulega kallaður Kútur hér áður fyrr) á sjötíu og tveggja ára afmæli í dag. Sigurjón var þekktur bassaleikari á tímum bítla og blómabarna og lék þá í hljómsveitum eins og Kjörnum, Mods, Falcon, Flowers, Ævintýri, Brimkló og Þokkabót áður en hann hélt til náms í Bandaríkjunum þar sem hann hefur verið með annan fótinn síðan, m.a. sem framleiðandi kvikmynda og sjónvarpsefnis.

Máni Svavarsson tónlistarmaður er fimmtíu og sjö ára gamall í dag. Máni (sonur Svavars Gests og Ellyjar Vilhjálms) vakti athygli fyrir tónlist sína þegar hann sigraði fyrstu Músíktilraunirnar ásamt hljómsveit sinni DRON en síðar starfaði hann sem hljómborðsleikari og forritari með sveitum eins og Pís of keik, Cosa Nostra, Housebuilders og Tweety auk þess að vera viðloðandi tónlist í kvikmyndum og í sjónvarpsþáttum eins og Latabæ, sem hann samdi tónlistina fyrir.

Þorleifur Gíslason saxófónleikari átti afmæli á þessum degi en hann lést 2023. Þorleifur (fæddur 1944) var kunnur saxófónleikari, lék inn á ógrynni hljómplatna auk þess að starfa með ýmsum hljómsveitum sem sumar hverjar voru djasstengdar – þar má nefna sveitir eins og Big band ´81, Flat 5, J.J. Quintet, Lúdó sextettinn, Tískuljónin, Pónik og Furstana.

Saxófónleikarinn Halldór Pálsson er sjötíu og átta ára gamall í dag. Halldór hefur lengst af búið og starfað í Svíþjóð en hann lék með fjölda hljómsveita hér heima áður en hann fór utan, hér má nefna Pónik, Hljómsveit Svavars Gests, Hljómsveit Ólafs Gauks og Lúdó sextett svo aðeins nokkrar séu nefndar. Þá hefur hann jafnframt leikið inn á mikinn fjölda platna og gefið út í eigin nafni einnig.

Og hér er að síðustu nefndur tónlistarmaðurinn og gagnrýnandinn Ríkarður Örn Pálsson (1946-2021) en hann hefði átt afmæli á þessum degi. Ríkarður var lengi gagnrýnandi og blaðamaður á Morgunblaðinu en hann var jafnframt tónlistarmaður og tónskáld og skildi eftir sig eina plötu með frumsömdu efni, Medio tutissimus ibis: tónlist eftir Ríkarð Örn Pálsson, sem kom út árið 2006. Hann var kontrabassaleikari og starfaði m.a. um tíma með Þremur á palli þótt hann væri þar ekki fastur liðsmaður.

Vissir þú að á plötu Dónadúettsins sem kom út árið 2009 var að finna lag sem hét Sætar stelpur borða líka hor.