Afmælisbörn 15. júní 2020

Sigurjón Sighvatsson

Í dag eru tvö afmælisbörn á listanum:

Athafnamaðurinn Sigurjón Sighvatsson (iðulega kallaður Kútur hér áður fyrr) er sextíu og átta ára gamall. Sigurjón var þekktur bassaleikari á tímum bítla og blómabarna og lék þá í hljómsveitum eins og Kjörnum, Mods, Falcon, Flowers, Ævintýri, Brimkló og Þokkabót áður en hann hélt til náms í Bandaríkjunum þar sem hann hefur verið með annan fótinn síðan, m.a. sem framleiðandi kvikmynda og sjónvarpsefnis.

Máni Svavarsson tónlistarmaður er fimmtíu og þriggja ára gamall í dag. Máni (sonur Svavars Gests og Ellyjar Vilhjálms) vakti athygli fyrir tónlist sína þegar hann sigraði fyrstu Músíktilraunirnar ásamt hljómsveit sinni DRON en síðar starfaði hann sem hljómborðsleikari og forritari með sveitum eins og Pís of keik, Cosa Nostra, Housebuilders og Tweety auk þess að vera viðloðandi tónlist í kvikmyndum og í sjónvarpsþáttum eins og Latabæ, sem hann samdi tónlistina fyrir.