Hljómar [1] (1963-69 / 1973-74 / 2003-08)

Hljómar 1963

Hljómsveitin Hljómar frá Keflavík er án nokkurs vafa allra stærsta hljómsveitarnafn íslenskrar tónlistarsögu, sveitin starfaði undir því nafni í raun ekki nema í sex eða sjö ár samtals og lengst um tvö ár samfleytt en ól af sér fleiri sveitir eins og Thor‘s Hammer, Trúbrot og Lónlí blú bojs sem allar urðu risastór nöfn í sögunni einnig, auk þess sem sveitin markar upphaf gæfuríks tónlistarferils hjá Gunnari Þórðarsyni og Rúnari Júlíussyni, og kom Engilbert Jensen, Shady Owens og Pétri Östlund á tónlistarkortið fyrir lífstíð. Þá störfuðu einnig með sveitinni þekktir söngvarar eins og Björgvin Halldórsson og Einar Júlíusson um hríð. Hljómar marka jafnframt ýmis tímamót í sögu íslenskrar popptónlistar, sveitin varð fyrst bítlasveita til að senda frá sér plötur, bæði smáskífu og breiðskífu auk þess sem meðlimir sveitarinnar sömdu sjálfir efni sitt að miklu leyti á plötum sínum – og brutu þannig blað í sögunni hérlendis. Þá er enn ógetið allra stórsmellanna sem sveitin sendi frá sér en hér má nefna klassíska smelli eins og Bláu augun þín, Fyrsti kossinn, Heyrðu mig góða, Sveitapiltsins draumur, Þú og ég, Ég elska alla, Ástarsæla, Er hann birtist og Lífsgleði.

Hljómar voru fráleitt fyrsta bítlasveit Íslands eins og margir vilja halda fram og hún var alls ekki stofnuð sem bítlasveit en hún var klárlega sú fyrsta sem eitthvað kvað að og sló í gegn á réttum tíma og á réttum stað. Tildrög að stofnun sveitarinnar voru þau að Eggert Valur Kristinsson trommuleikari, Einar Júlíusson söngvari og Gunnar Þórðarson gítarleikari sem þá voru á aldrinum 18 til 21 árs (Gunnar yngstur) höfðu (ásamt fleirum) verið í Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík en sú sveit hafði þá verið starfandi um nokkurra ára skeið og naut vinsælda í Keflavík og reyndar víðar – vorið 1963 hafði Guðmundur ákveðið að leggja sveitina niður og því voru þremenningarnir svolítið í lausu lofti. Keflvíkingar voru mjög meðvitaðir um rokkstrauma sem bárust um heiminn enda voru þeir í næsta nágrenni við herinn á Keflavíkurflugvelli sem var glugginn til útlanda bæði í þeim skilningi að þaðan var flogið til og frá landinu og einnig að þar var rekin útvarpsstöð sem miðlaði nýjustu tónlistinni ólíkt Ríkisútvarpinu, og reyndar var þar einnig rekin sjónvarpsstöð – Kanasjónvarpið svokallaða á meðan enn voru nokkur ár í að íslenskt ríkissjónvarp tæki til starfa. Í þessu umhverfi voru Hljómar stofnaðir.

Heimildir eru aðeins mismunandi með hvaða hætti sveitin var stofnuð en það var líklega þannig að Eggert spurði Gunnar snemma sumars 1963 hvort hann væri til í að stofna með sér hljómsveit sem yrði með aðeins öðruvísi tónlist en hljómsveit Guðmundar hafði verið en þá var suður-amerísk latino tónlist aðeins að komast í tísku og það var eitthvað sem þeim hugnaðist, Gunnar var til í það og þeir fengu til liðs við sig Erling Björnsson gítarleikara og Einar söngvara sem hafði starfað með þeim í hljómsveit Guðmundar. Fáir bassaleikarar á þeirra reki voru á lausu í Keflavík en svo fór að Gunnar stakk upp á Rúnari Júlíussyni vini sínum og jafnaldra sem hafði reyndar aldrei spilað á bassa en Gunnar sagðist geta kennt honum handtökin. Rúnar var til í það og þar með var hljómsveitin stofnuð en tók þó ekki til starfa strax því Eggert fór til Englands þar sem hann dvaldi um sumarið og þar sá hann m.a. hina einu sönnu Bítla – The Beatles þar sem þeir léku um sumarið í Bournemouth og það voru fyrstu kynni hljómsveitarmeðlima af þeirri sveit.

Hljómar og Karl 1963

Þegar Eggert kom heim síðsumars hófu þeir félagar að æfa á fullu í samkomuhúsi Kvenfélags Njarðvíkur – Krossinum og það mun hafa verið þar sem nafnið á sveitina kom til, Eggert lagði til þrjú nöfn, Strengir, Tónar og Hljómar og síðast talda nafnið varð ofan á efti atkvæðagreiðslu en Rúnar setti sig upp á móti því. Sveitin fór ekki þá latino leið sem lagt var upp með í upphafi heldur amerískt og breskt rokk (m.a. gítarrokk í anda The Shadows) auk sex laga af Bítlaplötunni Please please me sem Eggert hafði þá kynnt þeim en bítlalögin tóku þeir í syrpu og það átti eftir að skipta máli.

Þeir félagar komu að máli við þá sem höfðu með ráðningar hljómsveita að gera í Krossinum og fengu það í gegn að leika þar um veturinn 1963-64 en fyrsti dansleikur sveitarinnar fór þar fram þann 5. október sem síðan þá hefur markað eins konar upphaf Hljóma og er sú dagsetning oft sögð vera stofndagur sveitarinnar sem er auðvitað ekki rétt, þar fyrir utan var frumraun sveitarinnar á dansleik sem haldinn var á vegum keflvískra skáta í september en sá dansleikur fór fram í litla sal Stapa sem þá var í byggingu.

Sú saga hefur oft verið sögð af Rúnari að á fyrstu dansleikjunum hafi hann snúið baki við áhorfendurna sökum feimni sinnar en ástæðan mun hafa verið sú að Gunnar var að segja honum til og því hafi hann snúið þannig – þeir félagar sögðu síðar reyndar að þeir hefðu allir verið mjög feimnir.

Hljómar voru í upphafi í eins konar hljómsveitarbúningum, Eggert hafði keypt skyrtur á mannskapinn úti í Englandi og móðir Rúnars saumaði á þá vesti, og þannig komu þeir fram í Krossinum þegar þeir komu fyrst fram þar. Húsið var fullt á þessum fyrsta opinbera dansleik sveitarinnar og þegar þeir fluttu bítlasyrpuna ætlaði allt um koll að keyra en þetta var um það leyti sem bítlamanían svokallaða var að hefja innreið sína og Keflvíkingar voru að sjálfsögðu fyrstir til að meðtaka þann trylling. Sveitin hlaut þannig fljúgandi start og kveikti bítlaæðið hér á landi, orðsporið breiddist út og sveitin lék á unglingadansleikjum í Reykjavík og Hafnarfirði í kjölfarið, á skólaböllum gagnfræðinga og menntskælinga svo sveitin varð fljótt þekkt meðal unga fólksins.

Hljómar frá Keflavík

Ekki leið á löngu þar til fyrstu mannabreytingar urðu á Hljómum, Einar Júlíusson fór í hálskirtlatöku í upphafi árs 1964 og við söngnum tók Karl Hermannsson sem var jafnaldri þeirra Gunnars og Rúnars, reyndar kom einnig til greina söngkona að nafni Birna Guðmundsdóttir en Karl varð fyrir valinu og var sveitin gjarnan auglýst undir heitinu Hljómar og Karl. Karl var knattspyrnumaður og lék með ÍBK rétt eins og Rúnar, og voru þeir fastamenn í liðinu sem var öflugt á þessum árum og varð reyndar Íslandsmeistari í knattspyrnu 1964.

Í byrjun mars 1964 brast svo á með sannkölluðu Hljómaæði þegar haldnir voru miðnæturtónleikar í Háskólabíói þar sem fimm hljómsveitir komu fram, auk Hljóma léku þar JJ & Einar, Sóló og Tónar auk Savanna tríósins sem var verulega á skjön við hinar sveitirnar með þjóðlagatónlist sína. Blaðamenn fjölluðu um tónleikana af litlum skilningi, kunnu best að meta Savanna tríóið og áttu varla orð til að lýsa hneykslun sinni á ungdómnum, bæði bítlahljómsveitunum og áhorfendum – hæðni var þar helsta stílbragðið og t.a.m. segir blaðamaður Alþýðublaðsins í umfjöllun sinni: „Goðin komu í ljós og hófu að syngja og spila. Syngja sagði ég. Það á víst að heita söngur.“ Og litlu síðar: „Ókyrrð þeirra [Hljóma] minnti mig á strák, sem er að leika sér, er í spreng en gefur sér ekki tíma til að skreppa frá.“ Fáeinum dögum síðar voru aftur haldnir tónleikar – að þessu sinni tvennir í Austurbæjarbíói þar sem sömu sveitir komu fram og þar með hóf bítlaæðið endanlega innreið sína á Íslandi með tilheyrandi hávaða, fettum, grettum, hárlubbum og öðru sem fylgdi og fyllti eldri kynslóðirnar (og blaðamenn) óhug.

Sigurganga Hljóma hófst, sveitin spilaði mikið um vorið í Reykjavík, í Sigtúni (síðar Nasa) og Iðnó, og þeir félagar voru þá þegar farnir að semja eigin tónlist, Gunnar lögin og Karl texta. Þeir höfðu kynnst Ámunda Ámundasyni sem var á sama aldri og þeir og þeir félagar réðu hann sem umboðsmann sveitarinnar, strax um páskana réði hann þá norður til Akureyrar fyrir fimmfalt verð sem áður hafði verið sett upp því staðahaldarar fyrir norðan skynjuðu stemminguna og að þessi sveit myndi trekkja að enda voru Bítlarnir nú búnir að slá almennilega í gegn í Bretlandi, sú bylgja hafði borist hingað til lands og Hljómar bættu fleiri Bítlalögum við prógrammið, sveitin lék á fimm dansleikjum fyrir norðan um páskana.

Hljómar

Þegar Einar hafði ætlað að snúa aftur eftir kirtlatökuna var sveitin gjörbreytt tónlistarlega séð og þeir sáu ekki ástæðu til að Einar tæki aftur við söngvarahlutverkinu, Karl söng reyndar ekki lengi eftir það með sveitinni því hann hætti fljótlega til að einbeita sér að knattspyrnunni og svo námi sínu og þá voru þeir bara fjórir eftir – rétt eins og The Beatles, Gunnar, Rúnar, Erlingur og Eggert. Þar sem sveitin var nú söngvaralaus skiptu Gunnar og Rúnar með sér söngnum og mæddi nú mun meira á þeim en áður.

Hljómar fóru hamförum á böllum um landsbyggðina sumarið 1964, fyrst fóru þeir um vestan- og norðanvert landið og svo Austurland – Ólafsvík, Patreksfjörður, Bolungarvík, Ísafjörður, Búðardalur, Blönduós, Siglufjörður, Akureyri, Vopnafjörður og Fáskrúðsfjörður voru meðal áfangastaða auk allra félagsheimilanna í sveitunum, sagan segir að sveitin hafi leikið sextíu og níu kvöld í röð um sumarið og um verslunarmannahelgina var hún í Húsafelli – samt sem áður hafði Rúnari tekist að skjótast milli dansleikja til að leika með ÍBK í fótboltanum og var hann valinn í landsliðið um þetta leyti en náði þó aldrei að spila landsleik.

Eftir þessa miklu sumartörn lék sveitin síðsumars á höfuðborgarsvæðinu á nýjan leik en fór svo í stutt frí og notuðu tækifærið til að fara til fyrirheitna landsins – Bretlands og kynna sér tónlistarstraumana þar, sveitinni hlotnaðist þar sá heiður að leika nokkur lög í Cavern klúbbnum fræga í Liverpool þar sem Bítlarnir sjálfir höfðu margsinnis leikið. Enn urðu breytingar á sveitinni eftir Bretlandsferðina því Eggert varð eftir og fór í nám, þetta hafði verið vitað fyrirfram og hinir þrír höfðu þegar gert ráðstafanir og ráðið inn í sveitina Engilbert Jensen sem trommuleikara og söngvara en hann hafði einmitt verið í Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar áður og var nokkru eldri en þeir hinir. Þar með var komin sú skipan á Hljóma sem hefur verið þekktust, Engilbert, Rúnar, Erlingur og Gunnar en sá síðast taldi var eins konar leiðtogi sveitarinnar, pikkaði upp lögin og leiðbeindi hinum, og var aukinheldur farinn að semja nokkuð sjálfur. Sveitin var nú orðin betri og þéttari og var einnig skipuð þremur vönum söngvurum og reyndar sungu þeir allir – jafnvel fjórraddað svo hún var mjög sterk hvað sönginn varðar.

Þeir félagar léku á stórum bítlatónleikum í Háskólabíói og Austurbæjarbíói um haustið en léku einnig töluvert fram að áramótum úti á landsbyggðinni með þessa nýju skipan og það sama var eftir áramótin, sveitin hafði feikinóg að gera og þeir voru orðnir atvinnumenn í faginu rétt rúmlega tvítugir og með rífandi tekjur og fyrir vikið munu eldri menntaðir tónlistarmenn ekki hafa verið sérlega sáttir við stöðu mála, sem dæmi um tekjur þeirra sagði Gunnar frá því síðar í blaðaviðtali að hann hefði keypt sér bíl eftir ball í Aratungu.

Hljómar í Cavern club í Liverpool

Í upphafi árs 1965 stóð Vísir fyrir því sem kallaðist „Bítlakeppni“ en það var könnun til að sjá hvað bítlasveit væri vinælustu meðal ungra lesenda blaðsins, Hljómar sigruðu þá keppni með miklum yfirburðum og í febrúar hituðu þeir Hljóma-liðar upp fyrir bresku bítlasveitina The swinging blue jeans. Um svipað leyti fór sveitin í hljóðver í fyrsta sinn á vegum Svavars Gests og SG-hljómplatna (þeir höfðu þá reyndar áður flutt nokkur frumsamin lög í Ríkisútvarpinu) en um var að ræða tvö lög eftir Gunnar sem voru hljóðrituð af þeim Pétri Steingrímssyni og Jóni Þór Hannessyni í útvarpssal Ríkisútvarpsins. Þetta voru lögin Bláu augun þín og Fyrsti kossinn en textana við lögin samdi Ólafur Gaukur Þórhallsson, þeir voru ekki komnir svo langt að Svavar Gests treysti þeim til að gera sómasamlega texta sjálfir og hann setti það skilyrði fyrir plötuútgáfunni að sungið yrði á íslensku.

Reyndar urðu enn breytingar á sveitinni meðan á upptökum stóð því Pétur Östlund gekk til liðs við hana í stað Engilberts, hann var þá reyndar orðinn kunnur djasstrommari þótt hann væri ungur að árum – hann var enn einn sem hafði gengið í gegnum Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar í Keflavík. Engilbert var ekki sáttur við hlutskipti sitt að þurfa að víkja fyrir Pétri en féllst þó á að syngja Bláu augun þín sem í kjölfarið varð stórsmellur reyndar rétt eins og Fyrsti kossinn. Platan kom svo út þann 12. mars og telst vera fyrsta íslenska bítlaplatan og við það tækifæri áritaði hljómsveitin plötuna í Fálkanum á Laugavegi. Eins og vænta mátti sló skífan í gegn og upplagið, fimm þúsund eintök seldist fljótlega upp en platan var ekki endurútgefin fyrr en þremur árum síðar og var þá búin að vera ófáanleg í langan tíma. Skífan hlaut góða dóma í Morgunblaðinu en það er athyglisvert að sjálfur Svavar Gest ritaði þann dóm.

Þessi nýja útgáfa Hljóma lék mestmegnis í Reykjavík og næsta nágrenni til að byrja með, m.a. á stórtónleikum í Háskólabíói en með vorinu lék sveitin meira á landsbyggðinni og fór t.a.m. um sumarið í mánaðartúr um landið en kom svo til Reykjavíkur um mánaðamótin júní-júlí áður en sveitin fór aftur á túr og lék m.a. á Landsmóti UMFÍ sem haldið var á Laugarvatni.

Um sumarið kom út önnur smáskífa með Hljómum sem unnin var undir sömu formerkjum og sú fyrsta en að þessu sinni voru lögin fjögur en þrjú þeirra samdi Gunnar (Ertu með, Kvöld við Keflavík og Minningin um þig), Erlingur samdi það fjórða (Ef hún er nálægt mér). Textana sömdu Ómar Ragnarsson og Ólafur Gaukur. Platan varð til að styrkja sveitina í sessi sem vinsælasta hljómsveit landsins en aðeins eitt laganna getur þó talist til stórsmella sveitarinnar, það var lagið Ertu með. Á umslagi plötunnar skartar Rúnar húfu sem hann hafði keypt af ungum hafnfirskum aðdáanda sem bar nafnið  Björgvin Halldórsson en sá átti eftir að koma við sögu sveitarinnar síðar.

Síðsumars bárust þær fréttir að til stæði að gera kvikmynd um Hljóma en þetta þótti stórfrétt á þeim tímum sem nánast engin hefð var fyrir kvikmyndagerð á Íslandi enda var Ríkissjónvarpið ekki einu sinni komið til sögunnar á þessum tímapunkti, kvikmyndagerðamaðurinn Reynir Oddsson sannfærði þá félaga um að taka þátt í verkefninu þar sem öllu yrði til tjaldað og það myndi skila þeim bæði heimsfrægð og milljónum í tekjur.

Hljómar 1964

Vinsældir sveitarinnar voru miklar og þegar tímaritið Fálkinn birti skoðanakönnun sem hafði verið gerð meðal lesenda kom í ljós að Hljómar sigruðu þar með miklum yfirburðum, þar hafnaði Rúnar í öðru sæti sem besti söngvarinn en aðeins fyrri söngvari sveitarinnar Einar Júlíusson hlaut fleiri atkvæði, hann var þá söngvari Pónik. Þess má geta að þegar Rúnar keppti með ÍBK við tyrkneska liðið Fenerbahce í Evrópukeppni meistaraliða um haustið sungu ungar stúlkur á áhorfendapöllunum „Áfram Hljómar“.

Um líkt leyti kom bandarískur félagi þeirra Hljóma af herstöðinni á Keflavíkurflugvelli þeim í samband við EMI útgáfurisann í Bretlandi og gerðist um leið umboðsmaður þeirra á erlendri grundu, það hafði aldrei verið ætlun þeirra félaga að fara í útrás en þarna gafst tækifæri til frægðar og frama erlendis og í kjölfarið fór af stað tímabundið ferli þar sem meiktilraunir settu svip sinn á tónlist og sögu sveitarinnar. Haraldur Ólafsson í Fálkanum var þeim innan handar í samskiptum við útgáfufyrirtækið og borgaði undir ferð þeirra til Lundúna í nóvember 1965 og í kjölfarið var þeim boðinn plötusamningur við EMI og níu lög eftir Gunnar við enska texta Péturs trommuleikara voru hljóðrituð í Lansdowne hljóðverinu.

Tónlistin varð töluvert öðruvísi en Hljómar höfðu til þessa unnið, mun hrárri og nokkuð þyngri og ljóst að ef sveitin ætlaði sér stóra hluti erlendis þyrfti hún að skipta um nafn – tillagan Thor‘s hammer varð fyrir valinu þrátt fyrir að Gunnar leiðtogi sveitarinnar setti sig upp á móti því (sér umfjöllun um Thor‘s hammer má lesa hér). Þrátt fyrir að meðlimir sveitarinnar væru aldrei með neina óraunhæfa drauma um frægð og frama er ekki hægt að segja það sama um blaðamenn dagblaða þess tíma sem blésu allt upp sem viðkom „meikinu“, og reynslulitlir tónlistarmennirnir sögðu hluti í viðtölum sem betur hefðu verið ósagðir svo lesendur og aðdáendur sveitarinnar trúðu því staðfastlega að Hljómar/Thor‘s hammer römbuðu á barmi heimsfrægðar.

Á meðan Thor‘s hammer tímabilinu stóð var spilamennska undir Hljóma-nafninu að miklu leyti lögð til hliðar, fyrsta smáskífa Thor‘s hammer kom út í mars 1966 og hafði að geyma lögin Memory / Once, undir Parlophone merkinu en skífan kom út bæði á Íslandi og í Bretlandi. Sveitin kom reyndar fram á nokkrum dansleikjum undir Hljómafninu en einnig undir Thor‘s hammer nafninu – m.a. á tónleikum ásamt bresku sveitinni Sorrow. Um svipað leyti stóð til að fjörutíu mínútna kvikmynd Reynis Oddssonar yrði frumsýnd en hún hafði þá fengið nafnið Umbarumbamba og fjallaði um ferð hljómsveitarinnar á sveitaböll á Suðurlandi og hafði m.a. verið tekin á balli í félagsheimilinu Hvoli. Framleiðslu myndarinnar seinkaði hins vegar og varð fremur til að vekja upp meiri eftirvæntingu aðdáenda sveitarinnar en þegar myndin var svo loks frumsýnd um miðjan júní kom í ljós illskiljanleg þrettán mínútna löng stuttmynd þar sem hljómsveitin fór m.a. um klædd víkingabúningum á hestbaki. Umbarumbamba gekk í fáeina daga sem aukamynd í bíóhúsum borgarinnar og hvarf síðan af yfirborðinu, og menn hafa helst sem minnst um hana talað enda stórtapaði hljómsveitin stórfé á verkefninu sem þeir höfðu lagt umtalsverðar upphæðir í.

Á forsíðu Póstsins

Sveitin lék undir Hljómanafninu um vorið og sumarið, og fór t.a.m. í tveggja mánaða reisu um norðan- og austanvert landið við mikla aðsókn – sú ferð var ekkert endilega skipulögð með miklum fyrirvara heldur var sveitin bókuð að einhverju leyti jafnóðum, t.d. léku Hljómar sjö kvöld í röð á Raufarhöfn en þar var mikið líf í kringum síldarævintýrið og nokkur þúsund manns störfuðu þar og skemmtu sér í troðfullu Raufarhafnarbíóinu eins og gamla samkomuhúsið þar var kallað. Á þessum tíma var Rúnar orðinn þekktur fyrir að stökkva upp á hátalaraboxin með alls kyns æfingar og þurfti ekki mikið að hvetja hann til þess, Egill Ólafsson og Stuðmenn gerðu þessu skil síðar í kvikmyndinni Með allt á hreinu en reyndar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Um líkt leyti og Umbarumbamba var frumsýnd kom út samnefnd tvöföld smáskífa með Thor‘s hammer sem hafði að geyma sex lög á ensku fyrir breskan markað, lagið If you knew var kunnuglegt en það hafði áður komið út á smáskífu Hljóma undir titlinum Ertu með, en önnur lög skífunnar höfðu ekki komið út áður – Erlingur söng eitt laganna (I don‘t care). Platan gekk þó fremur illa í Bretlandi og ekki varð meira úr plötuútgáfu þar í landi en fjölmiðlamenn ýttu undir væntingar um heimsfrægð með því að flytja fregnir af fyrirhugaðri Bandaríkjaferð sveitarinnar sem að sögn var verið að skipuleggja. Þegar þær vonir brustu ásamt plötusölunni í Bretlandi reyndi á samstarfið og mórallinn í sveitinni varð erfiður vegna þessa mótlætis, það varð til þess að Pétur trymbill sagði skilið við sveitina undir lok árs 1966 og Engilbert kom aftur inn í hana sem söngvari og trommuleikari en hann hafði þá starfað með Óðmönnum um tíma – sem Pétur gekk einmitt til liðs við. Sveitin tók enn upp Hljómanafnið í bili og lék á bítlatónleikum í Austurbæjarbíói ásamt fleiri sveitum og svo nokkrum dansleikjum undir því nafni eftir nokkurt hlé, vinsældir hennar höfðu þá dalað töluvert enda höfðu Hljómar  nú ekki sent frá sér nýtt efni undir því nafni um tíma, og aðrar sveitir tekið við keflinu, Hljómar höfðu þó endurheimt fyrri vinsældir um vorið með aukinni spilamennsku.

Thor‘s hammer ævintýrinu var þó ekki lokið og snemma á árinu 1967 bárust þær fregnir að sveitinni hefði boðist útgáfusamningur við CBS Columbiu vestanhafs og flaug Gunnar til Bandaríkjanna til að hljóðrita þrjú lög með session leikurum, hann fór svo ásamt Rúnari og Engilbert til London til að syngja inn á upptökurnar nokkru síðar.

Thor’s hammer

Á sama tíma vann sveitin að breiðskífu undir Hljóma-nafninu en sú skífa var hljóðrituð í London snemma um haustið á fimmtán tímum yfir þriggja daga tímabil og kostuð af SG-hljómplötum, á þeirri plötu hafði tónlist Hljóma eðlilega tekið skrefið aftur frá framsæknu rokki á kunnuglegar bítlaslóðir og sungu m.a.s. fjórraddað á henni sem þótti ótrúlegt af hljómsveit. Það þarf ekki að taka fram að þessi fyrsta plata (sem bar nafn sveitarinnar) var fyrsta breiðskífa bítlahljómsveitar hér á landi og reyndar fyrsta breiðskífa hljómsveitar almennt og m.a.s. í stereo.

Um svipað leyti og breiðskífan kom út í nóvember kom einnig út smáskífan Show me you like me / Stay með Thor‘s hammer á vegum CBS Columbia í Bandaríkjunum en sú útgáfa gerði ekki neitt fyrir sveitina, smáskífan komst ofarlega á vinsældalista í Michigan en þar við sat og útrásarævintýrinu var lokið í bili. Hljóma-breiðskífan sló hins vegar í gegn hér heima og sveitin hafði nú endanlega tryggt sér allar mögulegar vinsældir sem í boði voru enda spiluðu þeir félagar mikið í kjölfarið og fengu einnig eigin sjónvarpsþátt, Ríkissjónvarpið hafði tekið til starfa haustið 1966 og þá hafði staðið til að Hljómar fengju sitt pláss í dagskránni en Thor‘s hammer ævintýrið hafði þá frestað þeim fyrirætlunum.

Sjö af tólf lögum breiðskífunnar voru af erlendum uppruna og þeirra á meðal voru California dreamin sem hafði hlotið titilinn Sveitapiltsins draumur, Love hurts (Þú ein) og Bítlalagið Nowhere man sem nú hét Einn á ferð, en hin fimm lögin voru íslensk og þrjú þeirra eftir Gunnar, Heyrðu mig góða, Þú og ég og Syngdu, einnig voru þarna lög eftir Þóri Baldursson (Miðsumarnótt) og Rúnar Gunnarsson söngvara Dáta (Peningar) en textarnir voru eftir Ómar Ragnarsson, Ólaf Gauk og Þorstein Eggertsson – enn var Hljómum ekki treyst til að gera eigin texta. Segja má að öll lög plötunnar hafi orðið vinsæl en til að nefna einhver þeirra sérstaklega má nefna Þú og ég, Sveitapiltsins draumur, Heyrðu mig góða, Miðsumarnótt, Æsandi fögur og Þú ein.

Hljómar 1965

Hljóma-platan var eins og vænta mátti með mikla yfirburði þegar kom að uppgjöri dagblaðanna við áramótin 1967-68, hún var plata ársins að mati Tímans og í uppgjöri Morgunblaðsins sem byggði á kosningu lesenda sigraði platan með miklum yfirburðum – hlaut 796 atkvæði (af rúmlega 800) í fyrsta sæti en næsta plata hlaut 9 atkvæði. Engilbert var þar kjörinn besti söngvarinn með tíu sinnum fleiri atkvæði en sá sem hafnaði í öðru sæti og Gunnar Þórðarson var kjörinn besti sólógítarleikarinn með 783 atkvæði þar sem Ólafur Gaukur hafnaði í öðru sæti með 17 atkvæði – slíkir voru yfirburðirnir. Erlingur og Rúnar voru jafnframt kosnir bestu rythmagítarleikarinn og bassaleikarinn og Engilbert varð í þriðja sæti sem trommuleikari en þann flokk sigraði Pétur Östlund. Umslag plötunnar hlaut einnig verðskuldaða athygli en það var myndskreytt af ungum listamanni Hilmari Helgasyni en hann átti einnig eftir að myndskreyta umslag næstu smáskífu sveitarinnar. Hljóma-platan hefur síðan 1967 margoft verið endurútgefin á vínyl- og kassettuformi, og kom svo loks út á geisladiskaformi árið 1992.

Á nýju ári (1968) stóð til að þrjár vinsælustu hljómsveitir landsins, Hljómar, Óðmenn og Flowers færu í samstarf við tónskáldið Atla Heimi Sveinsson og hljóðfæraleikara úr Sinfóníuhljómsveit Íslands með tónleikahald í huga, ekkert varð úr því samstarfi af einhverjum ástæðum en sveitirnar þrjá unnu saman á öðrum vettvangi, t.d. léku þær allar á fegurðarsamkeppninni Fulltrúi ungu kynslóðarinnar sem jafnframt var vinsældakosning hljómsveita – sem Hljómar sigruðu með nokkrum yfirburðum. Sveitin fór svo til Svíþjóðar í mars sem fulltrúi Íslands á samnorræna popphátíð undir Thor‘s hammer nafninu en þar lék sveitin fyrir tilstilli Þráins Kristjánssonar sem þá hafði tekið verið umboðsmennsku fyrir sveitina. Í ævintýrinu í kringum gerð myndarinnar Umbarumbamba hafði sveitin verið klædd í víkingabúninga og slíkt var aftur á dagskrá þegar að Svíþjóðarferðinni kom, gæruskinn og lopi áttu að undirstrika þjóðlega íslenska hætti og það þótti í alvöru fýsilegast til að kynna land og þjóð með þeim hætti á erlendum vettvangi – þetta gekk svo langt að sveitin blandaði íslensk rímnastef við tónlist sína þarna á hátíðinni. Þrátt fyrir það fékk sveitin ágæta dóma ytra.

Þegar heim kom gekk sveitin aftur undir nafninu Hljómar og þannig fór hún á kunnuglegar dansleikaslóðir um vorið, í maí kom út fjögurra laga smáskífa á vegum SG og hafði að geyma lögin Þú varst mín, Bara við tvö, Vertu ekki hrædd og Kvöld eftir kvöld. Tvö laganna voru erlend en hin tvö eftir Gunnar en á plötunni nutu þeir aðstoðar félaga úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, um svipað leyti var fyrsta smáskífa sveitarinnar endurútgefin en hún hafði þá verið ófáanleg nánast frá útgáfudegi um vorið þremur árum áður. Þarna höfðu Hljómar starfað við tónlist einvörðungu í fjögur ár – sem atvinnumenn.

Hljómar í sjónvarpsal á forsíðu Vikunnar

Þeir félagar voru um þetta leyti að undirbúa upptökur á nýrri breiðskífu svo engin stór plön voru uppi um að fara um landið um sumarið, Hljómar léku þó eitthvað á dansleikjum og m.a. í Húsafelli um verslunarmannahelgina, eftir einn slíkan dansleik snemma sumars komst sveitin í fréttirnar eftir róstursamt ball í Sandgerði þar sem allt fór úr böndunum en þar brutust út allsherjar slagsmál og urðu töluverðar skemmdir á innanstokksmunum og reyndar einnig húsinu sjálfu í látunum. Hljómsveitinni var kennt um – að hafa ekki hætt að spila þegar þeir áttu að gera það og Þjóðviljinn tók jafnvel svo djúpt í árinni að segja að sveitin hefði beinlínis staðið fyrir slagsmálunum.

En um sumarið 1968 komu upp atvik sem áttu eftir að hleypa illu blóði í samstarf áðurnefndra þriggja stærstu hljómsveita landsins – Hljóma, Óðmanna og Flowers, og reyndar áttu þær vendingar sem urðu í kjölfarið eftir að gjörbreyta landslaginu í poppinu, og hafa töluverð áhrif á íslenska tónlistarsögu síðar. Í byrjun júlí bárust þær fregnir að sveitinni stæði til boða þriggja mánaða túr um Bandaríkin undir Thor‘s hammer nafninu en það var að undirlagi hermanns á Keflavíkurflugvelli sem var að ljúka herskyldu sinni þar, Hljóma-liðar bitu samstundis á agnið og fannst kjörið að bæta við tveimur nýjum liðsmönnum af því tilefni til að styrkja hljómsveitina, annars vegar með Shady Owens, 19 ára íslensk-amerískri söngkonu sem hafði þá getið sér gott orð með Óðmönnum og hins vegar með Gunnari Jökli Hákonarsyni, trommuleikara sem hafði þá starfað í Bretlandi við góðan orðstír en komið heim og lék með Flowers. Þessi áform Hljóma fóru eðlilega afar illa í aðra liðsmenn Óðmanna og Flowers og fengu Hljómar það óþvegið í blaðaviðtölum, ekki leið reyndar á löngu uns mönnum varð ljóst að ekkert yrði úr þessu tónleikaferðalagi vestra þegar ekkert spurðist meira til hermannsins og Hljómar hefðu látið hafa sig af fíflum, í leiðinni hurfu síðustu vonir um að slá í gegn á heimsvísu hjá sveitinni. En skaðinn var skeður hjá Óðmönnum og Flowers, Pétur Östlund hætti í Óðmönnum og sveitin hætti störfum, samstarfið í Flowers stóð um tíma tæpt en sveitin lifði átökin af – í bili. Shady gekk hins vegar til liðs við Hljóma þar sem Óðmenn voru hættir og kom hún fyrst fram með þeim á dansleik að Hvoli, en nokkur ólga var í poppgeiranum um tíma og sú ólga átti eftir að magnast ári síðar þegar framhald varð á atburðarásinni. Þess má geta að Erlingur gítarleikari hafði nú tekið við umboðsmennsku fyrir hljómsveitina.

Shady hafði ekki verið lengi í Hljómum þegar sveitin fór til Lundúna síðsumars á vegum Svavars Gests og hljóðritaði nýja breiðskífu, þetta varð önnur breiðskífa sveitarinnar og var tekin upp á átta rásir fyrst íslenskra platna en í sömu ferð komu Hljómar fram í sjónvarpsþættinum To-day á Thames Television. Platan varð reyndar mun dýrari í vinnslu en Svavar hafði gert ráð fyrir og þegar til kom endaði samstarf Hljóma við SG-hljómplötur með málaferlum sem sveitin tapaði og um leið nokkrum fjármunum. Á plötunni sem aftur bar nafn hljómsveitarinnar eins og sú fyrri voru tólf lög en lögin á fyrri hlið skífunnar voru öll eftir Gunnar Þórðarson á meðan hin hliðin hafði að geyma erlend lög, allir textar plötunnar voru eftir Þorstein Eggertsson. Tónlistin var nú orðin ögn hippalegri og því nokkuð breytt frá bítlapoppi fyrstu plötunnar en sveitin naut aðstoðar nokkurra breskra session leikara, m.a. bæði blásara- og strengjasveita en hljómsveitin annaðist sjálf allar útsetningar.

Hljómar með augum skopteiknara Spegilsins

Hljóma-platan kom út í nóvember, hún fékk strax góðar viðtökur og seldist í um 4500 eintökum, fékk góða dóma t.d. í Tímanum og Morgunblaðinu, og lög eins og Ástarsæla, Ég elska alla, Lífsgleði og Er hann birtist urðu gríðarlega vinsæl og hafa orðið að sígildum Hljóma-smellum, öll eftir Gunnar – platan var ekki endurútgefin fyrr en 1994 þegar hún kom út á geislaplötu, og svo árið 2017 á vínyl. Í uppgjöri dagblaðanna um áramótin 1968 var skífan kjörin plata ársins í sameiginlegri samantekt Morgunblaðsins og Tímans, og sveitin hafði fest sig rækilega í sessi á nýjan leik eftir Thor‘s hammer ævintýrið og uppákomuna í tengslum við Ameríkutúrinn. Í kjölfarið var sveitin enn kosin besta hljómsveitin á samkomu Ungu kynslóðarinnar og í mars lék sveitin við opnun skemmtistaðar fyrir ungt fólk sem þá var verið að vígja undir nafninu Tónabær en áður hafði Lídó verið í húsinu.

Strax á vormánuðum 1969 voru uppi áætlanir um að gefa út þriðja breiðskífuna þar sem Gunnar myndi semja allt efni en ný plön og framhald af uppákomunni frá því árið á undan komu í veg fyrir það. Óðmenn höfðu sem fyrr segir hætt störfum en sættir höfðu orðið milli Hljóma og Flowers og þarna snemma um vorið kviknaði sú hugmynd milli Gunnars og Rúnars úr Hljómum annnars vegar og Gunnar Jökuls trommuleikara og Karls J. Sighvatssonar orgelleikara úr Flowers hins vegar að stofna nýja hljómsveit – eins konar súpergrúppu úr sveitunum tveimur. Hugmyndin varð síðan að veruleika í maí þegar hljómsveitin Trúbrot var formlega stofnuð og var þá skipuð Gunnari Þ. á gítar, Rúnari bassaleikara, Gunnari Jökli trommuleikara og Karli orgelleikara auk Shady Owens sem söng, Erlingur gítarleikari var ráðinn umboðsmaður sveitarinnar. Samruni sveitanna tveggja olli eins konar sprengingu í íslensku tónlistarlífi og margir aðdáendur Hljóma og Flowers sneru baki við hina nýju sveit að minnsta kosti fyrst um sinn. Þegar upp er staðið hafði þessi uppákoma líklega jákvæð áhrif á íslenska popptónlist og -menningu, „afgangurinn“ úr hljómsveitunum tveimur stofnaði hins vegar tvær aðrar hljómsveitir – Ævintýri og Tilveru sem báðar náðu töluverðum vinsældum, og sú fyrrnefnda markar reyndar upphaf blómaskeið Björgvins Halldórssonar sem tónlistarmanns.

Hljómar í London 1968

Hljómar störfuðu fram að mánaðamótum júní-júlí, lék þá á unglingadansleik í Tónabæ og svo síðar um kvöldið í Glaumbæ og hætti svo störfum en Trúbrot lék á sínum fyrstu tónleikum fáeinum dögum síðar. Sögu Hljóma virtist þar með vera lokið og um sumarið 1969, um líkt leyti og sveitin lagði upp laupana kom út bók eftir Ómar Valdimarsson blaðamann sem hét einfaldlega Saga Hljóma en bókina hafði hann verið að vinna mánuðina á undan. Bókin kom út í 5000 eintaka upplagi og um helmingur þess seldist upp á næstu vikum en hreyfðist svo ekki eftir það, upplagið lenti á uppboði og hvarf og því var bókin fljótt ófáanleg. Það fannst ekki fyrr en mörgum áratugum síðar eins og síðar verður vikið að.

Trúbrot (sjá nánar hér) starfaði um þriggja ára skeið, tók hipparokkið sem þá var að ryðja sér til rúms hér á landi upp á arma sína, varð vinsælasta hljómsveit landsins næstu árin og gaf út nokkrar plötur en tíðar mannabreytingar og óeining innan sveitarinnar reið henni loks að fullu snemma vors 1973.

Þegar rykið hafði sest eftir Trúbrots-ævintýrið síðsumars 1973 bárust fréttir af því að Gunnar, Rúnar og Engilbert væru að byrja aftur að starfa saman sem tríó undir Hljómanafninu og væru að vinna með tónlist sem væri í anda amerísks kántrís eða „country & western“ eins og það var þá kallað. Þar með voru þrír fjórðu af hinum eiginlegum Hljómum komnir saman á nýjan leik en Erlingur var þar hvergi nærri enda hafði hann hætt öllum hljóðfæraleik, hins vegar bættist fljótlega í hópinn gítarleikarinn Birgir Hrafnsson sem þá hafði starfað með sveitum eins og Svanfríði og Ævintýri en var um þetta leyti einnig í hljómsveitinni Change sem nokkrir Íslendingar starfræktu í Englandi.

Hinir nýju Hljómar ætluðu upphaflega einungis að starfa fram að áramótum 1973-74 en þess í stað héldu þeir samstarfinu áfram, fóru á fullt í spilamennsku og léku m.a. á æskuslóðum í Ungó í Keflavík en komu einnig fram t.d. í sjónvarpsþættinum Ugla sat á kvisti sem Jónas R. Jónsson fyrrum söngvari Flowers stjórnaði. Þeir félagar fóru jafnframt til Massachusetts í Bandaríkjunum í lok árs til að hljóðrita tíu laga breiðskífu sem frumsömdu efni á ensku svo segja má að tónlistin hafi verið komið mjög langt frá hinum upprunalegu bítla-Hljómum, með í för var Björgvin Halldórsson sem hafði verið í Ævintýri með Birgi en hann átti að syngja eitt lag sem gestasöngvari – en lögin urðu reyndar tvö. Fjöldi bandarískra aðstoðarmanna komu að upptökunum á plötunni. Í uppgjöri Vikunnar fyrir árið 1973 voru Hljómar eðlilega ekki í efsta sætinu yfir vinsælustu hljómsveitir landsins þar sem þeir höfðu ekkert gefið út – þrátt fyrir það hafnaði sveitin í þriðja sætinu en hlutu hins vegar titilinn „Bjartasta vonin“.

Hljómar 1973

Björgvin hafði verið í hljómsveit sem kallaðist Brimkló en var þarna í upphafi árs 1974 að hætta í þeirri sveit á sama tíma og Birgir gítarleikari vildi hætta í Hljómum til að einbeita sér að því ævintýri sem Change var að fara í gegnum í Bretlandi, það var því eðlilegt að fjölmiðlar veltu því upp hvort Björgvin myndi ekki ganga í Hljóma. Þeir Hljóma-liðar fóru aftur til Bandaríkjanna til að klára vinnslu plötunnar og ganga um leið frá tveggja laga smáskífu sem kæmi út á undan, og í þeirri ferð var afráðið að Björgvin yrði einn af meðlimum sveitarinnar, sveitin hafði fyrir vikið líklega aldrei verið jafn vel sett söngvaralega séð með þá fjórmenninga innanborðs. Björgvin hafði lítillega gutlað á gítar sjálfur en Gunnar tók hann í kennslustundir svo hann varð fljótlega gjaldgengur sem rythmagítarleikari með söngnum. Í þessari síðari Ameríkuför hljóðritaði Rúnar einnig tveggja laga skífu í eigin nafni.

Reyndar komu Hljómar „hinir gömlu“ aftur saman og tóku gamla slagara, þ.e. Gunnar, Rúnar, Engilbert og Erlingur á afmælishátíð sem haldin var í febrúar 1974 í tilefni af fimm ára afmæli Tónabæjar en Hljómar höfðu einmitt verið fyrsta hljómsveitin sem lék þar fimm árum áður. Og þess má geta að Hljómar léku undir á tveggja laga plötu sem gefin var út í febrúar til styrktar Handknattleikssambandi Íslands (HSÍ) sem þá var að senda landslið á heimsmeistaramótið í handbolta, fyrra lag þeirrar skífu söng landsliðið sjálft en Ómar Ragnarsson söng hitt lagið sem bar nafnið Lalli varamaður.

Samhliða hinum nýju Hljómum sem gengu reyndar einnig undir nafninu Hljómar 74, stofnuðu þeir Gunnar og Rúnar hljómplötuútgáfuna Hljóma sem átti eftir að starfa um hríð og gefa út plötur sveitarinnar og annarra. Og fyrsta platan sem gefin var út undir merkjum hinnan nýju Hljóma-útgáfu var smáskífa Hljóma – Let it flow / Slamat djalan mas en á þeirri skífu samdi Gunnar fyrrnefnda lagið en Rúnar hið síðara. Í kjölfarið kom svo út breiðskífan út um vorið og hlaut nafnið Hljómar ´74, sveitin hafði þá þegar spilað nokkuð af efninu opinberlega m.a. á stórum popptónleikum í Háskólabíói þar sem sveitin var meðal fleiri, og þar fékk tónlistin ágætar viðtökur. Gunnar samdi sex af lögunum tíu á nýju plötunni en Rúnar fjögur og þótti koma nokkuð sterkur inn sem lagahöfundur en hann hafði aðeins lítillega komið að lögum Trúbrots. Lög eins og Tasko tostada, Let it flow og Slamat djalan mas urðu nokkuð vinsæl og platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í Vikunni, Alþýðublaðinu og Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar en hún þótti skorta stórslagara á borð við þá sem sveitin hafði áður sent frá sér og höfðu ensku textarnir þar hugsanlega einhver áhrif því efnið hlaut ekki eins mikla spilun í Ríkisútvarpinu fyrir vikið og platan seldist ekki nándar nærri nógu vel – aðeins í um 2500 eintökum. Ætlunin var að svara því með nýrri plötu með textum á íslensku með haustinu en af því varð þó ekki. Sveitin lék heilmikið um sumarið og tók nokkuð virkan þátt í hátíðarhöldum í tilefni af 1100 ára landsnámsafmæli Íslands – þess ber e.t.v. best merki á umslögum platnanna sem eru skreytt fánalitunum og á ljósmyndum þar sem þeir félagar voru myndaðir í kjólfötum annars vegar á Þingvöllum fyrir smáskífuna og hins vegar á tröppum ráðherrabústaðsins við Tjarnargötu fyrir breiðskífuna.

Hljómar 74

Þeir félagar stóðu fyrir útihátíð í Húnaveri aðra helgina í júlí ásamt Haukum og léku svo í Vatnsfirði um verslunarmannahelgina en um haustið varð lengra á milli dansleikja hjá sveitinni. Hljómar léku þó áfram fram í desember, létu staðar numið við svo búið með áramótaballi en fyrr um haustið hafði smáskífa komið út á vegum Hljóma-útgáfunnar með leynihljómsveit sem bar nafnið Lónlí blú bojs. Menn þurftu ekki að vera mjög glöggir til að átta sig á að þar voru á ferð sjálfir Hljómar og í hönd fór tímabil þar sem léttmetisslagarar þeirrar sveitar, erlend lög við íslenska texta Þorsteins Eggertssonar slógu öll met í vinsældum.

Hljómar voru því opinberlega hættir en haustið 1975 kom reyndar út jólaplata á vegum Hljómaútgáfunnar sem hlaut titilinn Gleðileg jól og var tímamótaplata (fyrsta jólaplatan með léttum jólalögum sem ekki var ætluð börnum) þar sem sveitin flutti þrjú lög, Undrastjarna, Hvers barn er það og Jólasveinninn minn. Síðast talda lagið er löngu orðið sígilt jólalag í meðförum Hljóma en einnig sungu Björgvin (Snæfinnur snjókarl og Hvít jól), Rúnar (Hátíð í bæ og Friður á jörð) og Engilbert (Heims um ból) lög á plötunni, svo að segja má að Hljómar séu þar alls ráðandi hvað söng varðar að minnsta kosti.

En sögu Hljóma var þarna lokið í bili og sé ferill þeirra Gunnars og Rúnars (og e.t.v. Engilberts líka) skoðaður til tíu ára þarna á undan mætti segja að þeir hafi borið höfuð og herðar yfir aðra í íslenskri popptónlist með Hljómum / Thor‘s hammer, Trúbroti og svo Lónlí blú bojs. Leiðir skildu hjá þeim fóstbræðrum Gunnari og Rúnari þegar Hljóma-útgáfunni var slitið eftir ágreining nokkru síðar en báðir áttu sólóferil og léku með fjölda vinsælda hljómsveita næstu áratugina, Engilbert sendi einnig frá sér sólóplötu og feril Björgvins þekkja líka allir. Pétur Östlund hefur mest alla tíð búið og starfað í Svíþjóð og Erlingur hafði lagt gítarinn á hilluna sem fyrr segir.

Þó svo að Hljómar væru hættir störfum poppaði sveitin þó stöku sinnum upp á næstu árum og áratugum, sumarið 1978 kom sveitin t.a.m. saman og lék á dansleik í Aratungu tengdum Landsmóti hestamanna á Skógarhólum en sama ár kom einnig út safnplata á vegum SG-hljómplatna sem bar titilinn Hljómar 1965-68: Lög Gunnars Þórðarsonar, og hafði að geyma tónsmíðar Gunnars eins og titillinn gefur til kynna.

Hljómar 1974

Árið 1980 komu Hljómar saman (Gunnar, Rúnar, Engilbert og Erlingur) og léku á Menningarvöku Suðurnesjamanna í Stapa um páskana ásamt hljómsveitunum Óðmönnum og Júdasi, og þar komu einnig fram með hljómsveitinni fyrrum söngvarar sveitarinnar þeir Einar Júlíusson og Karl Hermannsson en sá síðarnefndi hafði þá ekki sungið opinberlega síðan hann hætti í sveitinni vorið 1964. Sveitin birtist svo aftur um sumarið á SATT kvöldi og svo á dansleikjum á Reyðarfirði um verslunarmannahelgina. Tveimur árum síðar tóku Hljómar lagið á 50 ára afmælishátíð FÍH og lagið Fyrsti kossinn kom svo út á tónleikaplötu sem gefin var út í kjölfarið, á þeim tónleikum var sveitin skipuð Gunnari, Rúnari, Engilbert, Pétri Östlund og Magnúsi Kjartanssyni sem lék sem gestur en hann hafði einmitt verið í Trúbroti.

Árið 1983 kom sveitin fram í fyrsta sinn á tónlistarhátíð á Hótel Íslandi, einni af fjölmörgum sem Ólafur Laufdal stóð fyrir og í kjölfarið kom sveitin fram á nokkrum slíkum hátíðum á níunda og tíunda áratugnum.

Og Hljómar voru auðvitað síður en svo gleymdir, þegar 25 ár voru liðin frá stofnun sveitarinnar árið 1988 var gerður veglegur útvarpsþáttur um sögu sveitarinnar og um svipað leyti gaf Taktur/Fálkinn (sem þá hafði eignast útgáfuréttinn af lögum sveitarinnar frá SG) út safnplötuna Gullnar glæður: Hljómar, sem hluti af samnefndri safnplötuseríu en sú plata var svo endurútgefin tíu árum síðar af Spori sem þá hafði eignast SG-katalóginn – þá hafði hún fengið titilinn Íslensku bítlarnir Hljómar frá Keflavík.

Árið 1997 var komið að því að heiðra minningu útrásar-útgáfu Hljóma þ.e. Thor‘s hammer en þá sendi Spor frá sér safnplötuna Umbarumbamba… and more, sú plata hafði að geyma öll útgefin lög Thor´s hammer og nokkur vel valin Hljómalög, og fjórum árum síðar (2001) kom út sambærileg plata á vegum bandarísku útgáfunnar Ace records sem bar nafnið Thor‘s Hammer from Keflavík … with love. Fleiri plötur hafa komið út erlendis með lögum sveitarinnar, If you knew: Icelandic punk & beat ´65-´67 kom út á vegum Ugly pop records árið 2013 og einnig hefur að minnsta kosti ein sjóræningja-útgáfa komið út með lögum sveitarinnar, Umbarumbamba sem var fjögurra laga smáskífa en á umslagi þeirrar plötu er reyndar að finna mynd af sænskri hljómsveit. Þess má jafnframt geta að plötur sveitarinnar, einkum tvöfalda smáskífualbúmið Umbarumbamba, hafa gengið kaupum og sölum dýru verði meðal plötusafnara og lög hennar hafa komið út á fjölmörgum safnplötum bæði hér heima og erlendis.

Endurreistir Hljómar 2003

Af Hljómum var það hins vegar að frétta að sveitin var enn og aftur endurlífguð snemma árs 2003 en tilefnið var þá fjörutíu ára afmæli sveitarinnar, fljótlega spurðist úr að sveitin hygði á útgáfu nýs efnis en Hljómar höfðu þá ekki sent frá sér plötu síðan 1974 og reyndar þurfti að fara allt aftur til 1968 ef um efni á íslensku væri að ræða. Þeir félagar, Gunnar, Rúnar, Engilbert og Erlingur sem hafði tekið gítarinn fram að nýju, hófu að koma fram strax um vorið og í byrjun sumars kom út lag með sveitinni á safnplötunni Halló halló halló en það var lagið Við saman, sem hlaut ágæta athygli og töluverða spilun á útvarpsstöðvunum. Sveitin fylgdi þessu nokkuð eftir með spilamennsku um sumarið og lék m.a. á Síldarævintýrinu á Siglufirði um verslunarmannahelgina. Síðla sumars sendu Hljómar svo frá sér annað lag, Mývatnssveitin er æði sem fékk sömuleiðis ágætar viðtökur, þá var orðið opinbert að breiðskífa væri á leiðinni um haustið og sveitin lék töluvert um haustið, m.a. á Ljósanótt í Keflavík en þá var afhjúpuð gangstéttarhella við Hafnargötuna í bænum sem tileinkuð var hljómsveitinni.

Breiðskífan – Hljómar kom út í byrjun október, nánar tiltekið þann 5. október sléttum fjörutíu árum eftir að sveitin tróð fyrst upp í Krossinum og þar var við hæfi að blásið væri til blaðamannafundar í Listasafni Íslands sem áður hýsti Glaumbæ, útgáfutónleikar voru svo haldnir í Austurbæ (Silfurtunglinu) og einnig í Stapa en þeir tónleikar voru myndaðir og hljóðritaðir með útgáfu í huga. Um það leyti hafði týnda upplagið af bókinni Saga Hljóma komið í leitirnar, það hafði dagað uppi á háalofti hjá þeim sem hafði keypt það á uppboði og eintak af bókinni fylgdi með hluta af upplagi nýju plötunnar haustið 2003. Bókin hefur ekki verið í almennri sölu en fékkst að minnsta kosti um tíma í Rokksafni Íslands í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.

Flest laganna á plötunni voru eftir Gunnar en Rúnar átti einnig lög á henni, textarnir komu hins vegar úr ýmsum áttum. Þó svo að tónlistin félli ekki alveg að nútímanum og reynt var að nokkru leyti að endurskapa lagasmíðar og útsetningar sjöunda áratugarins þótti platan ágætlega heppnuð og hún hlaut prýðilega dóma í Morgunblaðinu og mun hafa selst mjög vel en um 5000 eintök munu hafa selst í forsölu – alls munu hafa selst um 9000 eintök af plötunni en útgáfufyrirtækið, Sonet var í eigu Óttars Felix Haukssonar. Hljómar léku töluvert um haustið og vöktu kynslóð sína af værum blundi sem flykktist á dansleiki með sveitinni, og Ríkssjónvarpið sýndi heimildarmynd eftir Ásgeir Tómasson um Hljóma síðla árs en hún kom svo út á dvd-disk ári síðar ásamt öðru efni.

Hljómar

Hljómar héldu sínu striki fram eftir nýju ári 2004 og nýttu sér athyglina en fleiri voru til að halda nafni sveitarinnar á lofti – t.d. setti leikfélag Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum upp söngleikinn Bláu augun þín en hann var byggður á lögum sveitarinnar. Önnur plata var hljóðrituð um vorið og til að kynda undir væntingarnar komu út tvö lög (Upp með húmorinn og Þar sem hamarinn rís) á safnplötunni Sólargeislar. Sveitin lék því áfram um sumarið bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni og um svipað leyti og platan leit dagsins ljós um haustið lék sveitin á tónleikum ásamt „Beach boys“ eða öllu heldur nokkrum tónlistarmönnum sem höfðu leikið með þeirri sveit á árum áður, það þótti reyndar ágætlega við hæfi því raddsetningar Hljóma hafa alltaf verið undir áhrifum frá bandarísku sveitinni og kannski sérstaklega á plötunni sem kom út 2003. Nýja platan bar nafn sveitarinnar rétt eins og hinar þrjár breiðskífurnar á undan og aftur annaðist Sonet útgáfuþáttinn, hún var unnin eftir svipaðri forskrift og platan á undan en Gunnar samdi öll lögin á henni, textarnir komu sem fyrr úr ýmsum áttum. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og ágæta í DV en seldist ekki eins vel og sú fyrri. Þetta sama haust kom svo út á vegum Sonet dvd-diskurinn Hljómar 1963-2003 með áðurnefndri heimildamynd og aukaefni frá ýmsum tímum en árið á undan hafði einnig komið út VHS spólan Hljómar: Fjörutíu ára afmælisútgáfa Hljóma 1963-2003, hún hafði að geyma m.a. afmælistónleika Hljóma frá því í október 2003.

Sveitin lagðist aftur í híði eftir þessa tveggja ára törn en þó ekki alveg því vorið 2005 héldu þeir Hljóma-liðar tónleika ásamt karlakórnum Heimi úr Skagafirði sunnanlands og norðan, þ.e. í Keflavík og á Sauðárkróki en einnig voru haldnir aukatónleikar á Akureyri, í kjölfarið lék sveitin lítillega en virðist hafa lagst aftur í dvala snemma sumars. Þetta sama ár var heimildamyndin Bítlabærinn Keflavík eftir Þorgeir Guðmundsson frumsýnd en þar kom hljómsveitin Hljómar óhjákvæmilega nokkuð mikið við sögu án þess þó að myndin væri beinlínis helguð þeim. Og safnplötuútgáfa með lögum sveitarinnar var hvergi nærri lokið, árið 2007 kom út tveggja platna safnplötupakki frá Sonet þar sem fyrri platan var helguð nýrra efni sveitarinnar (frá 2003 og 2004) en síðari platan var með eldri lögum, bæði undir Hljóma- og Thorðs hammer-nafninu, alls hafði platan að geyma fjörutíu lög og var útgáfan nokkuð vegleg en í bæklingi mátti lesa heilmikinn fróðleik um sveitina. Hér hafa ekki verið nefnd lög Hljóma sem komið hafa út á safnplötum í gegnum tíðina en þau lög skipta líklega hundruðum á tugum slíkra safnplatna.

Ári síðar eða í júní 2008 var lokatónn Hljóma sleginn með formlegum hætti en þá fór sveitin ásamt hópi af Íslendingum á vegum FTT (Félags tónskálda og textahöfunda) á Bítlaslóðir í Liverpool þar sem sveitin tróð upp í Cavern klúbbnum öðru sinni, og við það tækifæri settu meðlimir sveitarinnar punktinn yfir i-ið og sögðu sögu sveitarinnar lokið. Það má e.t.v. segja að sá tímapunktur hafi verið fullkominn því rúmlega ári síðar, haustið 2008 lést Rúnar Júlíusson og var íslensku tónlistarsamfélaginu mikill harmur. Það var þó ekki svo að Hljómar kæmu ekki saman aftur því sveitin lék á minningartónleikum um Rúnar í maí 2009 og síðan þá hefur hún birtst við hátíðleg tækifæri eins og á tónleikum sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu haustið 2013 til heiðurs Hljómum en þá voru 50 ár liðin frá stofnun sveitarinnar, Júlíus Freyr Guðmundsson sonur Rúnars hefur fyllt skarð föður síns við þessi tækifæri, það sama haust var tónlistardagskrá flutt á Ljósanótt undir sömu formerkjum.

Árið 2013 kom einnig út veglegt fjögurra platna safnpakki með lögum Hljóma undir yfirskriftinni Fyrsti kossinn: Hljómar í 50 ár, á vegum Senu. Tvær af plötunum höfðu að geyma efni hljómsveitarinnar undir Hljóma- og Thor‘s hammer-nafninu, sú þriðja var með lög Hljóma flutt af öðrum listamönnum og sú fjórða var dvd-diskur með heimildamyndinni Hljómar í 40 ár og úrvali efnis úr fórum Ríkissjónvarpsins.

Saga Hljóma er um margt merkileg, fyrir utan að vera saga einnar vinsælustu hljómsveitar landsins og hljómsveita sem hún ól af sér og mörkuðu íslenska tónlistarsögu, þá er hún á sama tíma stór hluti af sögu nokkurra af okkar fremstu popptónlistarmönnum s.s. Gunnars Þórðarsonar, Rúnars Júlíussonar og jafnvel Engilberts Jensen, Björgvins Halldórssonar, Shady Owens og Einars Júlíussonar. Hún markar einnig spor í bítlatónlistarsögu Keflvíkinga, kom Keflavík á tónlistarkortið svo eftir verður munað og Hljómahöllin hefði t.a.m. aldrei hlotið nafn sitt eða orðið til nema fyrir þessa hljómsveit. Þar fyrir utan var sveitin og meðlimir hennar öðrum hljómsveitum og tónlistarfólki hvatning til stórra verka og síðast en ekki síst hefur sveitin glatt kynslóðir Íslendinga með tónlist sinni en tugir laga hennar teljast til gullkorna íslenskrar dægurlagasögu.

Efni á plötum