
Söngfélagið Glóð
Söngfélagið Glóð starfaði um nokkurra ára skeið frá því um miðbik áttunda áratugar fram undir lok níunda áratugar síðustu aldar í Austur-Húnavatnssýslu.
Það var Sigrún Grímsdóttir frá Saurbæ í Vatnsdal sem hafði forgöngu um stofnun söngfélagsins haustið 1975 en hún var þá organisti við Undirfells- og Þingeyrakirkjur og stjórnaði kirkjukórunum þar, en uppistaðan í Glóð kom einmitt úr þeim kórum. Söngfélagið sem innihélt rétt ríflega þrjátíu manns starfaði um nokkurra ára skeið og söng eitthvað opinberlega, m.a. á Húnavöku vorið 1977.
Glóð virðist ekki hafa verið mjög virkt eftir 1977, að minnsta kosti ekki á opinberum vettvangi – það var þó ekki lagt niður fyrr en haustið 1988.














































