Hallgrímur Guðsteinsson (1965-)

Hallgrímur Guðsteinsson

Nafn tónlistarmannsins Hallgríms Guðsteinssonar hefur ekki farið mjög hátt en ein smáskífa hefur litið ljós í hans nafni, hann hefur þó komið víða við í tónlistnni.

Hallgrímur Guðsteinsson er fæddur árið 1965 og bjó fyrstu æviár sín á Suðureyri við Súgandafjörð en flutti með fjölskyldu sinni suður á höfuðborgarsvæðið, og bjó hann í Kópavogi á unglingsárum sínum þegar pönkbylgjan reis hvað hæst þar. Þar hafði hann tekið þátt í hæfileikakeppni þar sem hann flutti frumsamið píanóverk en fljótlega var hann kominn í pönksveitina Hyskið sem var meðal frumsveita í pönkinu. Sú sveit átti síðar eftir að gefa út efni m.a. á kassettu en aðal hljóðfæri Hallgrím í gegnum tíðina hefur verið bassi.

Hallgrímur sneri baki við pönkið, menntaði sig sem vélstjóri en var aðeins viðloðandi tónlistina áfram, hann hefur m.a. starfað með Sváfni Sigurðarsyni og öðrum gömlum félögum úr Kópavoginum og komið við sögu á plötum hljómsveitarinnar Kol (sem var eins konar afsprengi Hyskisins) og Sváfnis sjálfs, þá kom hann einnig lítillega við sögu á plötu Stellu Hauks.

Hallgrímur flutti aftur vestur til Suðureyrar þar sem hann gegndi um tíma starfi skipaskoðunarmanns, tók þar þátt í félags- og menningarlífi Súgfirðinga (m.a. í leikfélaginu) en ekki liggur fyrir hversu mikið hann tók þátt í tónlistarstarfinu vestra. Hann kom þó fram ásamt fleirum með tónlistaratriði í kirkjunni á Suðureyri árið 2008 og um svipað leyti kom út tveggja laga smáskífa með tveimur frumsömdum lögum hans, sem Eyrún Arnarsdóttir og Egill Ólafsson syngja. Með á þeirri skífu er að finna þekkta tónlistarmenn auk ofangreindra, þá Eyþór Gunnarsson píanóleikara og Tómas M. Tómasson bassaleikara, sjálfur lék Hallgrímur á gítar á skífunni sem ber nafnið Grímsævintýr.

Upp úr því virðist hann vera fluttur aftur suður á höfuðborgarsvæðið og varð aftur virkari á tónlistarsviðinu s.s. með hljómsveitinni Gæðablóðum (sem slagverksleikari) og einnig var hann viðloðandi Lame dudes, þá tók hann þátt sem hljóðfæraleikari í uppfærslu á söngleik sem settur var á svið á Grand rokk. Siðustu árin hefur Hallgrímur verið búsettur á Akranesi en hann hefur starfað við álverið á Grundartanga, árið 2022 sendi hann frá sér frumsamið jólalag sem birtist í jóladagatalinu „Skaginn syngur inn jólin“ sem nýtur töluverðra vinsælda uppi á Skaga.

Efni á plötum