Afmælisbörn 21. janúar 2024

Svavar Knútur

Á þessum degi koma sex afmælisbörn við sögu:

Svavar Knútur Kristinsson er fjörutíu og átta ára gamall í dag. Hann hefur lengst af starfað sem trúbador en einnig sungið og spilað með hljómsveitum eins og Hraun!, Kaffi, Moonboots og Læðunum, nokkrar sólóplötur hafa aukinheldur komið út með honum. Svavar Knútur hefur verið í forsvari fyrir alþjóðlegu tónlistarhátíðina Melodica acoustic festival og verið öflugur í jólatónleikavertíðinni.

Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) hefði einnig átt þennan afmælisdag en hann samdi ógrynni ljóða sem tónlistarmenn hafa samið lög við, þeirra á meðal má nefna Kvæðið um fuglana (snert hörpu mína), Bréfið hennar Stínu, Til eru fræ og Konan sem kyndir ofninn minn. Einnig hafa nokkrar plötur komið út sem innihalda upplestur skáldsins á eigin efni.

Óðinn Valdimarsson söngvari (f. 1937) hefði aukinheldur átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2001. Óðinn söng með ýmsum hljómsveitum á árum áður s.s. Atlantic kvartettnum, KK-sextett, Hljómsveit Ingimars Eydal og Hljómsveit Guðjóns Pálssonar, og gerði mörg lög ódauðleg í flutningi sínum. Þar á meðal má nefna lög eins og Í kjallaranum, Einsi kaldi úr Eyjunum, Ég skemmti mér og síðast en ekki síst Er völlur grær (Ég er kominn heim), sem orðið er að hálfgerðum þjóðsöng Íslendinga.

Þá er Baldur Sigurðarson frá Ey (oft nefndur Ofur-Baldur) fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Baldur hefur leikið á hljómborð með ýmsum hljómsveitum og þeirra á meðal má nefna Góðir landsmenn, Hljómsveit hússins, Langbrók, Dora, Greip, Óðs manns æði og Tutto bene.

Óskar (Torfi) Cortes fiðlu- og saxófónleikari átti þennan afmælisdag en hann lést árið 1965 (fæddur 1918). Óskar starfrækti hljómsveitir í eigin nafni en lék einnig með fjölda annarra hljómsveita eins og Hljómsveit Svavars Gests, Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Útvarpshljómsveitinni og mörgum öðrum.

Að endingu er hér nefndur klarinettuleikarinn og tónskáldið Guðni Franzson en hann er sextíu og þriggja ára gamall í dag. Guðni hefur reyndar leikið á ýmis önnur hljóðfæri en klarinettu, og reyndar sungið líka, á þeim plötum sínum og annarra listamanna sem hann kemur við sögu á. Í gegnum tíðina hefur hann ennfremur leikið með margs kyns hljómsveitum, meðal þeirra má nefna Caput, Kelta, The Omalenys, Poison for ears, Rússíbana og Arnald og kameldýrin.

Vissir þú að Helena Eyjólfsdóttir fékk tilboð um plötusamning við RCA útgáfufyrirtækið árið 1959?