Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964)

Davíð Stefánsson

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi í Eyjafirði er eitt af þjóðskáldum okkar Íslendinga. Þótt hann hafi ekki verið tónlistarmaður kemur hann á ýmsan hátt við íslenska tónlistarsögu. Hann samdi fjöldann allan af ljóðum sem lög hafa verið samin við, upplestur hans á eigin verkum komu út á hljómplötum á síðustu öld, auk þess sem leikrit hans, Gullna hliðið var gefið út á plötum.

Davíð (f. 1895) lauk gagnfræðiprófi frá Akureyri og bjó þar til um tvítugt er hann fór til ársdvalar til Kaupmannahafnar áður en hann settist á skólabók við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1919, sama ár og fyrst og frægasta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir, kom út. Davíð bjó mestan part ævi sinnar á Akureyri, starfaði við Amtbókasafnið þar í bæ en dvaldist einnig nokkrum sinnum á erlendum grundum.

Um tugur ljóðabóka liggur eftir skáldið, auk leikrita og skáldsögu en mörg ljóða hans er vel þekkt, þeirra á meðan eru Konan sem kyndir ofninn minn, Sálin hans Jóns míns, Kvæðið um fuglana (Snert hörpu mína), Bréfið hennar Stínu, Abba-labba-lá og Til eru fræ.

Fjölmargar plötur hafa komið út sem hafa að geyma ljóð Davíðs. Fjórar plötur komu út á vegum Fálkans 1958 með upplestri hans á eigin verkum, tvær þeirra voru litlar 45 snúninga plötur (7“), ein 78 snúninga (10“) og ein breiðskífa. Fálkinn gaf einnig út „split-plötu“ með upplestri Davíð og Halldórs Laxness árið 1964 undir yfirskriftinni Tveir þjóðskörungar íslenzkra bókmennta, og tveim árum síðar var Gullna hliðið gefið út í veglegum plötukassa, á þremur plötum.

Alþingishátíðarkantata Páls Ísólfssonar við hátíðarljóð Davíðs var gefin út á plötu árið 1969, þá í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Söngsveitarinnar Fílharmóníu og Karlakórsins Fóstbræðra en hún var síðan aftur gefin út á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins (1994) í flutningi Kórs Íslensku óperunnar, Fóstbræðra og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

1995 kom út platan Aldarminning en þá voru hundrað ár frá fæðingu skáldsins, á þeirri plötu fluttu ýmsir söngvarar lög við ljóð Davíðs, og ári síðar kom út platan Lífið er ljóð en þar fluttu Arnar Jónsson og Helga Jónsdóttir ljóð hans. Árið 2011 sendi Ingólfur Steinsson frá sér plötuna Segið það móður minni en sú plata hafði að geyma lög við ljóð Davíð.

Fleiri listamenn hafa notað ljóð Davíðs og gert við þau stök lög sem er að finna á mörgum plötum, en margir hafa einnig leitað fanga á annan hátt í smiðju Davíðs, til dæmis eru nöfn hljómsveitanna Sálarinnar hans Jóns míns og Möðruvallamunkanna beinar skírskotanir í verk hans. Það sama má segja um titil á plötu Sálarinnar, Gullna hliðið. Það má því með sanni segja að áhrifa hans gæti víða.

Efni á plötum