Heimir og Jónas (1964-70)

Heimir og Jónas á Þingvöllum 1965

Tvíeykið Heimir og Jónas varð töluvert vinsælt um miðbik sjöunda áratugarins, þeir störfuðu þó í raun ekki saman nema um þriggja ára skeið, tvær plötur komu svo út með þeim félögum eftir að þeir hættu störfum.

Dúettinn varð til í Menntaskólanum í Reykjavík haustið 1964 þar sem þeir Heimir Sindrason og Jónas Tómasson voru við nám, reyndar mun í upphafi hafa verið um tríó að ræða sem flutti amerísk þjóðlög á kvöldvöku í skólanum en fljótlega urðu þeir félagar bara tveir og fluttu þá aðallega íslensk þjóðlög, mestmegnis á skólaskemmtunum en um vorið 1965 fóru þeir einnig að skemmta utan skólans og voru næstu tvö árin vinsælir skemmtikraftar á árshátíðum, þorrablótum og þess konar skemmtunum auk þess sem þeir komu fram á stærri samkomum eins og miðnæturtónleikum í Austurbæjarbíói og þjóðlagaskemmtunum en eins konar þjóðlagavakning hafði þá staðið yfir um tíma, m.a. með sveitum eins og Savanna tríóinu og svo Ríó tríói, Þremur háum tónum og fleirum sem komu upp um svipað leyti. Heimir og Jónas urðu jafnvel svo frægir að koma fram í sænskum sjónvarpsþætti þar sem þeir voru myndaðir sitjandi úti í hrauni á Þingvöllum og léku á gítara sína og sungu. Heimir og Jónas nutu þannig heilmikilla vinsælda, komu fram í útvarpi og einnig í Sjónvarpinu sem var að taka til starfa um þetta leyti, þá voru þeir einnig fengnir til að skemmta á Fegurðarsamkeppni Íslands.

Þeir fóstbræður urðu stúdentar frá MR vorið 1967 og um það leyti voru þeir að hætta störfum en þá lá fyrir að leiðir þeirra myndu skilja enda var Heimir þá á leið í tannlæknanám í Skotlandi en Jónas hugði á tónlistarnám hér heima. Um vorið kom söngkonan Þóra Kristín Johansen fram með þeim í nokkur skipti og um haustið var sýndur sjónvarpsþáttur með þeim þar sem hún söng einnig og bassaleikarinn Páll Einarsson (síðar jarðeðlisfræðingur) kom fram með þeim þar. Þá höfðu þau fjögur sem og söngkonan Vilborg Árnadóttir (sem einnig hafði komið fram í sjónvarpi með þeim) hljóðritað tólf lög sem til stóð að myndu koma út á breiðskífu um haustið en þau höfðu öll verið skólafélagar í MR. Ekki varð neitt úr þeirri útgáfu að sinni og því höfðu flestir gleymt Heimi og Jónasi þegar platan kom loks út tveimur árum síðar (haustið 1969) hjá Fálkanum undir titilinum Fyrir sunnan Fríkirkjuna en það er einmitt hending úr einu laganna – Fyrir átta árum, sem á plötunni voru. Þeir Heimir og Jónas sömdu sjálfir sjö af tólf lögum plötunnar, fjögur laganna voru við ljóð Davíðs Stefánssonar og önnur fjögur við ljóð Tómasar Guðmundssonar – Tómas ritaði einmitt nokkur orð um þá Heimi og Jónas á plötuumslaginu. Platan sló í gegn og lögin Bréfið hennar Stínu og Hótel jörð eftir Heimi urðu feikivinsæl í meðförum þeirra. Ekki varð þó úr að þeir félagar fylgdu plötunni eftir enda voru þá tvö ár síðan þeir hættu störfum, hún hlaut ágæta dóma í Vikunni og mjög góða í Morgunblaðinu.

Í sjónvarpsupptöku

Vinsældir plötunnar urðu til þess að Fálkinn fékk þá Heimi og Jónas til að hljóðrita aðra plötu um sumarið 1970, þeir komu fram það sumar á útiskemmtun á bindindismóti í Galtalæk um verslunarmannahelgina en ekkert meir og platan kom svo út um haustið undir yfirskriftinni HJVP: Þjóðlög og íslensk lög í þjóðlagastíl. HJVP var skammstöfun fyrir upphafsstafi flytjenda plötunnar (Heimir, Jónas, Vilborg, Páll) en þau Vilborg og Páll voru með þeim á henni eins og hinni fyrri. Á henni var að finna eins og titillinn gefur til kynna þjóðlög og lög úr ýmsum áttum (m.a. eftir þá félaga) og m.a.s. voru jólalög þar innan um. Platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og Vikunni og mjög góða í Vísi.

Heimir og Jónas voru sem fyrr segir löngu hættir störfum þarna en þeir áttu þó eftir að koma einu sinn fram nokkrum árum síðar, í sjónvarpsþættinum Ugla sat á kvisti, vorið 1974 en lögin Hótel jörð og Bréfið hennar Stínu hafa lifað ágætu lífi síðan og hafa margsinnis komið út á safnplötum í gegnum árin. Heimir hefur sent frá sér sólóplötur en hann var tannlæknir alla sína starfsævi á meðan Jónas starfaði alla tíð við tónlist, m.a. sem tónskáld og tónlistarkennari á Ísafirði.

Efni á plötum