Hjálmtýr E. Hjálmtýsson (1933-2002)

Hjálmtýr E. Hjálmtýsson

Tenór-söngvarinn Hjálmtýr E. Hjálmtýsson var býsna þekktur á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, söng einsöng með kórum og einn á sviði en gaf einnig út breiðskífu í eigin nafni, Hjálmtýr var síðar þekktur úr klassískri senu kvikmyndarinnar Með allt á hreinu og sem faðir þekktra söngsystkina.

Hjálmtýr Edward Hjálmtýsson var fæddur sumarið 1933 í Reykjavík en þar bjó hann allt sitt líf, hann starfaði alla sína starfsævi sem bankafulltrúi hjá Útvegsbankanum en hafði sönginn sem eins konar aukastarf og áhugamál. Hann hóf ungur að syngja, söng sem barn með Sólskinsdeildinni en eftir að hann hóf að læra söng – fyrst hjá Sigurði Birkis og svo Sigurður Demetz söng hann mikið opinberlega, síðar nam hann einnig lítillega hjá Maríu Markan.

Hjálmtýr söng fyrst opinberlega á tónleikum árið 1951 og svo í útvarpssal árið 1954 þá aðeins 21 árs gamall, í kjölfarið kom hann margoft fram á sviði bæði einn á tónleikum, tónlistartengdum skemmtunum og við kirkulegar athafnir, og sem einsöngvari kóra eins og Karlakórs Reykjavíkur, Þjóðleikhúskórsins, Skagfirsku söngsveitarinnar, Kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju, Kórs Fríkirkjunnar, Pólýfónkórsins og Lögreglukórsins. Einnig söng hann á yngri árum sínum í Kór Háteigskirkju þar sem hann kynntist verðandi eiginkonu sinni Margréti Matthíasdóttur sem einnig þótti afburða góð söngkona, þau hjónin áttu eftir að koma fram margoft saman, bæði sem einsöngvarar með kórum og með ein- og dúettasöng en þau sungu jafnframt saman í fleiri kórum. Þá söng Hjálmtýr einnig í Leikhúskvartettnum um tíma, hann tók þátt í að minnsta kosti einni uppfærslu á óperu sem söngvari, Ævintýri Hoffmanns árið 1966 en þeim mun fleiri uppfærslum sem meðlimur Þjóðleikhúskórsins. Hjálmtýr mun einnig eitthvað hafa sungið í revíumsýningum og öðrum slíkum skemmtunum.

Hjálmtýr 1980

Ein plata leit dagsins ljós með Hjálmtý, hún kom út árið 1980 á vegum nýstofnaðs útgáfufélags sem bar nafnið Hið íslenzka útgáfufjélag en platan bar titilinn Hjálmtýr E. Hjálmtýsson tenó, Gísli Magnússon píanó. Eins og titilinn gefur til kynna lék Gísli Magnússon með honum á píanó en einnig söng Margrét eiginkona Hjálmtýs tvísöng með honum í þremur laganna – tónlistin var blanda íslenskra og erlendra laga frá ýmsum tímum. Platan hlaut þokkalega dóma í Dagblaðinu en mjög góða í Tímanum. Þetta sama ár (1980) komu út tvær plötur með Skagfirsku söngsveitinni þar sem heyra má einsöng Hjálmtýs en einnig söng hann inn á plötum með kórum sínum, Karlakór Reykjavíkur og Pólýfónkórnum.

Hjálmtýr lék lítil hlutverk í fáeinum kvikmyndum s.s. Nýju lífi, Dalalífi, Bíódögum og Karlakórnum Heklu en þekktasta senan þar sem hann kemur fyrir er án nokkurs vafa í Stuðmanna myndinni Með allt á hreinu þar sem hann leikur lögregluþjón ásamt Kristni Sigmundssyni og þeir taka við astraltertugubbi Stuðmanna í laginu ÚFÓ, syngjandi „Sagðirðu gubb – gubb?“. Þá hefur fólki orðið tíðrætt um hina miklu söngfjölskyldu Hjálmtýs og Margrétar en þrjú barna þeirra eru þekktir söngvarar, Sigrún (Diddú), Jóhanna Steinunn (Hanna Steina) og Páll Óskar (Palli) – aukinheldur er fjöldi tónlistarfólks afkomendur þeirra hjóna.

Hjálmtýr Hjálmtýsson lést haustið 2002 tæplega sjötugur að aldri.

Efni á plötum