Sigurður Markússon (1927-2023)

Sigurður Markússon

Sigurður Markússon var fyrstur Íslendinga til að nema fagottleik og var svo sjálfur lærimeistari annarra fagottleikara, hann hann lék um langt árabil með Sinfóníuhljómsveit Íslands, var einn af meðlimum og stofnendum tónlistarhópa eins og Musica Nova og Kammersveitar Reykjavíkur og starfaði með fleiri slíkum hópum. Sigurður starfaði jafnframt nokkuð að söngmálum.

Sigurður Breiðfjörð Markússon fæddist haustið 1927 að Sæbóli í Aðalvík á Hornströndum. Hann missti foreldra sína úr berklum og ólst að nokkru leyti upp hjá fósturforeldrum en hann mun hafa lært lítillega á harmóníum af systur sinni á yngri árum. Eftir nám við Héraðsskólann á Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi lá leið hans til Vestmannaeyja um tvítugt þar sem hann lauk sveinsprófi í málaraiðn (og síðar meistaraprófi í Reykjavík) en hann virðist hafa kynnst tónlistinni fyrir alvöru í Eyjum þar sem var fjörugt tónlistarlíf. Þar lék hann á klarinettu með Lúðrasveit Vestmannaeyja en lék einnig með minni hljómsveit (kvartett) sem ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um.

Sigurður flutti til Reykjavíkur eftir veruna í Eyjum og hóf nám í klarinettuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem Egill Jónsson var hans aðal kennari, hann lauk burtfararprófi árið 1953 og fór síðan til Bandaríkjanna þar sem hann hóf nám í fagottleik fyrstur Íslendinga, fyrst í Florida og lauk svo lokaprófi á hljóðfærið í Fíladelfíu árið 1958 – þar starfaði hann einnig m.a. með leikhúshljómsveit. Síðar átti hann eftir að fara í meira nám í Þýskalandi og Bretlandi um eins árs skeið á sjöunda áratugnum (1966-67) , og lék þá með Birmingham Symphony Orchestra.

Fljótlega eftir að Sigurður kom utan úr náminu í Bandaríkjunum hóf hann að kenna á fagott og klarinettu í einkakennslu og litlu síðar fór hann svo að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi allan sinn starfsferil, þar voru fagottleikur og tónheyrn hans aðalfag en meðal nemenda hans á hljóðfærið má nefna Hafstein Guðmundsson, Björn Árnason og Rúnar Vilbergsson – þess má geta að Sigurður hvatti íslensk tónskáld til að skrifa fagottverk fyrir nemendur sem þeir léku á útskriftartónleikum sínum.

Sigurður Markússon

Sigurður kenndi einnig um tíma við tónlistarskólann á Akranesi á sjöunda áratugnum en hann var einnig að leiðbeina kórum uppi á Skaga og starfaði líka um skeið sem kórstjórnandi Stúdentakórsins (Háskólakórsins) og síðar RARIK-kórsins. Sigurður kom reyndar meira að söngmálum því hann kenndi um tíma við Söngskólann í Reykjavík og líklega fleiri tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu, var leiðbeinandi á námskeiðum á vegum Sambands íslenskra karlakóra og gegndi stöðu skólastjóra við hinn svokallaða Kórskóla safnaðanna í Reykjavík svo dæmi séu nefnd.

Sigurður hóf að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands þegar hann kom heim úr námi og var þar að sjálfsögðu fyrstur Íslendinga til að leika á fagott í þeirri sveit en fram að því höfðu erlendir hljóðfæraleikarar mannað þær stöður. Hann lék með sinfóníuhljómsveitinni allt til ársins 1992, inn á fjölmargar plötur með henni og kom jafnframt fram sem einleikari með henni á stundum. Sigurður átti eftir að starfa með fleiri hljómsveitum og tónlistarhópum, hann var meðal stofnmeðlima og reyndar einn aðal hvatamaður að stofnun Musica nova árið 1959 og starfaði með þeim hópi í mörg ár, kom fram á tónleikum auk þess sem hann var í stjórn félagsskaparins og um tíma framkvæmdastjóri – hann kom reyndar einnig nokkuð að félagsmálum tónlistarmanna, var t.d. í stjórn FÍT um tíma og fulltrúi þess í Bandalagi íslenskra listamanna. Sigurður var einnig einn af stofnendum Kammersveitar Reykjavíkur árið 1974 og lék með henni um árabil, þá starfaði hann einnig með Kammermúsíkklúbbnum, Blásarakvintett Tónlistarskólans í Reykjavík og fleiri kammersveitum. Sigurður kom að fjölmörgum öðrum tónlistartengdum verkefnum, hann fór t.a.m. með hópi hljóðfæraleikara með tónleikahaldi um Austfirði seint á áttunda áratugnum og lék einnig á ýmsum smærri tónleikum – hann lék jafnframt margoft í útvarpssal.

Sigurður lék inn á nokkrar plötur um ævi sína og voru þær af fjölbreyttu tagi, áður eru nefndar plötur Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hér má einnig nefna plöturnar Sagan af dátanum: Igor Stravinsky (úr leikriti), Bessi Bjarnason – syngur hinar góðkunnu barnavísur Stefáns Jónssonar, Ólafur Þórðarson – Í morgunsárið og vísnaplötuna Einu sinni var.

Sigurður Markússon lést sumarið 2023 í hárri elli.